Bloggið sem ekki varð af

Það var föstudagurinn 3. júlí og ég var í vinnu rétt einu sinni. Veðrið var eins gott og það bara getur best orðið á fallegustu sumardögum. Stærstur hluti sjúklinganna var á AA fundi inn í Vingåker en hinir, þeir sem voru á náttfötum og slopp, horfðu á mynd tengda meðferðinni. Ég tók myndavélina og gekk frá einum glugganum til annars og mér fannst sem ég væri löngu búinn að taka margar myndir frá öllum þeim sjónarhornum sem Vornes ætti í fórum sínum. Það var síðdegi, eitthvað það fallegasta sem þetta sumar hafði boðið upp á og nú var ég ákveðinn í að taka myndir fyrir blogg þar sem ég ætlaði að lofsyngja sumarið. Það ætlaði ég að gera þegar ég kæmi heim daginn eftir, á laugardegi.
 
Svo kom ég heim daginn eftir, fannst ég vera þreyttur og vorkenndi mér, vökvaði mikið, hreinsaði illgresi og fór snemma að sofa. Daginn eftir hélt helgarvinnan áfram. Nú sit ég í Vornesi á miðvikudagskvöldi og aldrei slíku vant er ég að vinna venjulega dagvinnu í fjóra daga. Því gisti ég hér. Susanne er á mínum bíl í Katrineholm hjá vinum, ættingjum og gömlum nágrönnum frá því fyrir löngu. Við spöruðum annan bílinn og ég er bíllaus, enda eins gott því að annars hefði ég farið á flakk og ekið eitthvað og farið mikið lengra en ég hefði ætlað mér fyrir brottför. Ég er bra þannig ef ég fer einn út að aka.
 
 
Ég reyndar tók myndir þarna á föstudaginn í síðustu viku og á leiðinni heim var ég eins og beintengdur við sænska sumarið og orðin og setningarnar flæddu fram í huga mér. Ég fann að það væri mikilvægt að skrifa það niður strax og ég kæmi heim en ég gerði það ekki. Nú er ég að reyna að komast í sömu stemmingu og ég var í þá. Komast í sömu stemmingu og finna sömu orðin en það er ekki svo einfalt
 
Vornesmyndin hér fyrir ofan er svipuð svo mörgum slíkum sem ég hef notað gegnum árin. Árin hér eru orðin nítján og hálft og það var svo sannarlege ekki meiningin. Stundum er ég að tala um að hætta alveg og stundum held ég að ég meini það en oftast er það bara í nefinu á mér. Ég fæ uppörvanir frá ýmsum um að hætta ekki að vinna og jafnvel viðvaranir frá öðrum um að það væri varsamt fyrir mig að hætta. Í gær fékk ég að heyra um konu norður í landi sem var 89 ára. Hún sér um tuttugu ungneyti og sinnir þeim þrisvar á dag. Þar fyrir utan sér hún um mat fyrir nokkrar manneskjur og svo er hún eldhress. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera. En hvað um það, hér er ég enn og mun verða eitthvað um skeið. Ég kem samt ekki til með að vinna rúmlega hálfa vinnu á þessu ári eins og því síðasta.  Ég vil hafa tíma til að blogga ásamt hinu öllu sem ég þarf að gera og er ótakmarkað.
 
 
Þetta er sumarmynd frá Vornesi. Þegar ég hofri núna á þessa mynd nálgast ég svolítið steminguna sem ég komst í snertingu við á leiðinni heim á laugardaginn var. Ég hélt á fyrstu árunum í Svíþjóð að sænska sumarið kæmi upp í vana en það gerir það ekki. Sænska sumarið er ennþá jafn mikið kraftaverk og það var fyrstu árin. Að vera á ferðinni á sólríkum sumardegi í veðri eins og var þegar þessi mynd var tekin, það er að vera með um mikið. Það var meira en hlýtt þá, það var á bilinu að vera milli hlýtt og heitt. Að vera umvafinn þessum hita, baðaður í geislum sólarinnar, njóta alls þessa græna laufhafs og gróðurs, horfa yfir akurlönd, sjá skógarjaðra nálgast álengdar, koma inn í djúpan skóg og síðan út á akurlöndin aftur, innan um trjáþyrpingar og gömul, stök eðaltré með ótrúlegar krónur, það er að vera með í einhverju. Á laugardaginn var, var það fyrir mér eins og að vera í faðmi einhvers, umvafinn örmum hlýjunnar og umhyggjunnar og bara að fá að vera með og hvíla. Landið sem ég bý í vefur mig oft örmum sínum og vaggar mér í svefn þegar ég er þreyttur. Þá þykir mér mikið vænt um þetta land.
 
 
Þegar ég kom heim var mitt fyrsta verk að ganga upp á pallinn og taka mynd af skóginum bakvið húsið. Ég ætlaði að bera þá mynd saman við myndirnar frá Södermanland, þær fyrir ofan. Skógarnir í Södermanland og í Krekklingesókn eru ekki eins. Ég hef oft veitt því athygli.
 
 
Svo gekk ég fáeinum skrefum lengra og tók aðra mynd. Stundum finnst mér skógarnir í Södermanland vera fallegri en skógarnir í Krekklingesókn en ég get samt ekki almennilega viðurkennt það. Ég segi bar að Sólvallaskógurinn sé alveg að því kominn að verða fallegastur. Ég hef dekrað við hann, grisjað hann, verið góður við hann og leyst hann úr viðjum óræktar og hann er á leiðinni með að endurgjalda stritið.
 
 
Svo sneri ég mér að illgresinu. Ég vökvaði fyrst og lagðist svo á hnén og sleit og sleit burtu óvelkominn gróður. Það er í þriðja sinn síðan í vor sem ég geri það og ég hefði þurft að gera það eins og einu sinni í viðbót fyrr á sumrinu.
 
 
Svo þegar ég var búinn að hreinsa vökvaði ég aftur og sáði fyrir grænmeti sem er fljótt að skila sér á diskana. Þegar ég byrja á þessu á ég erfitt með að hætta. Það er nefnilega ekki svo leiðinlegt að hreinsa illgresi sem ég held að það sé áður en ég byrja.
 
 
Susanne segir hins vegar að það sé alveg hræðilegt að hreinsa illgresi. En hún er uppfinningarík þegar kemur að því að bera fram léttan kvöldverð. Sumt sem er á borðinu kemur frá grænmetisbeðunum. Meðan við borðuðum brosti skógarjaðarinn við okkur og það var friðsælt kvöld á Sólvöllum.
 
Bloggið sem ég ætlaði að skrifa þá er ég að skrifa núna og orðin eru ekki þau sömu, uppröðunin er ekki sú sama og meiningin hefur einhvern veginn þynnst út. En svona er það þegar ég skrifa ekki á réttu augnabliki það sem hugurinn býr yfir. Jörðin heldur samt áfram að snúast.
 
 
Milli þess sem ég skrifaði þetta fór ég í gönguferð, tvo hringi hér um svæðið, og þá lá leiðin út gegnum þessi trjágöng.
 
 
Og á meðan ég var að skrifa þetta sat ég við glugga á gömlu skrifstofunni minni, þeirri sem ég hafði þrjú síðustu árin sem fullvinnandi maður hér í Vornesi. Útsýnið frá þessum glugga er það sem myndin sýnir. Sá sem hefur þessa skrifstofu í dag er í sumarfríi og mun kannski aldrei vita að ég fékk stólinn hans lánaðan. Frá og með næstu helgi mun ég ekki koma hér í þrjár og hálfa viku. Ég ætla að leika mér. Við Susanne ætlum upp í norðlægari hluta Svíþjóðar og hafa það gott þar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0