Johnny Cash í sænskri messu

I gær var sjónvarpsmessa frá bæ einum hér nokkuð fyrir sunnan okkur. Það var ljóst þegar í byrjun messunnar að hún yrði mikið öðruvísi en aðrar messur þó að þær séu líka allar afar mismunandi. Prestur einn sem við höfum áður séð og heyrt annast sjónvarpsmessu var þarna mættur, og mín fyrsta hugsun var að hann mundi líklega taka messuna yfir og syngja sjálfur mest allan tímann eins og hann gerði þegar við sáum hann síðast. Svo hófst messan með söng þessa prests en eitthvað gerði það að verkum að ég byrjaði draga til baka fordóma mína.

Fyrir nokkrum árum voru Árný systir Valdísar og maður hennar, Ágúst, hjá okkur um jól. Þá voru Sólvellir einungis frístundahús. Um þessi jól horfðum við á kvikmyndina um Johnny Cash hér á Sólvöllum og ég man vel að hún hafði mikil áhrif á mig. Þegar myndinni var lokið vorum við öll frekar hljóðlát sem mér fannst vera merki þess að ég var ekki einn um að hafa orðið fyrir sterkum áhrifum. Nú man ég ekki mikið úr þessari kvikmynd og vil gjarnan sjá hana aftur.

Messan í gær var nefnilega tileinkuð Johnny Cash. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að hann hefði verið eins trúaður og fram kom í messunni og textunum sem sungnir voru. Það var mikið flutt af gospelmúsik sem Johnny Cash elskaði og lög eftir hann sjálfan. Presturinn söng einsönginn og á milli lagði hann út af textunum. Þegar í fyrsta gospelsöngnum byrjuðu áhrifin af flutningnum. "Guð, hjálpaðu mér að ganga þann stutta spöl sem ég á eftir / að ganga einsamall er svo þungt / ég kemst það ekki án hjálpar."

Hann talar um að krafturinn sé búinn, að hann sé gamall og þreyttur, maður með erfiða lífsreynslu. Það var þung ævi sem hann átti að baki og erfiðar minningar. En allan tímann hafði hann Guð við hlið sér og fékk kraft til að halda áfram og hann létti margri manneskjunni lífsgönguna. Hann heimsótti fangelsi og söng fyrir fanga, meðal annars í Svíþjóð. Hann tók afstöðu með þeim sem minna máttu sín.

Ég veit varla hvers vegna ég er að skrifa þetta þar sem allir þekkja til þessa manns, en málið er bara það að þetta hafði djúp áhrif á mig. Messunni var varla lokið í gær þegar maður kom í heimsókn og áhrifin dvínuðu þá í spjalli um aðra hluti. Því horfði ég aftur á messuna þegar hún var endursýnd í dag. Það sem eftir stendur er að hafa kynnst lífshlaupi manns sem notaði trúna til að taka sig gegnum erfiðleika og tregablandið líf og hann deildi því til mannkynsins í söngvum sínum. Ég veit það núna. Ég dæmi prestinn ekki lengur, mér er hlýtt til hans.

Johnny Cash


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0