Stemmingin á Sólvöllum kvöldið 21. febrúar 2012

Ég var að líta á tíu daga veðurspána www.smhi.se og þar er gert ráð fyrir að alla þessa tíu daga verði frostlaust yfir daginn en hins vegar að það frjósi á nóttunni, alla vega flestar næturnar. Það er ekki slæm spá svona um 20. febrúar. Svona er það líka búið að vera í nokkra daga. Ef glöggu auga verður litið til skóganna á næstunni verður hægt að greina breytingu. Ég veit ekki í hverju þessi breyting felst en hún verður þrátt fyrir það. Miðað við hitastig er eiginlega kominn tími til að fara með klippurnar með í gönguferðir um landareignina og klippa til eikur sem elgir og dádýr hafa lífnært sig á undanfarna tvo vetur. Litlu eikurnar verða skrýtnar í laginu af þessari beit og það fer nú best á því að hjálpa þeim, annars verða þær hálfgerð bonsaitré næstu árin.

Að öðru leyti veit ég eiginlega ekki hvers vegna ég settist við tölfuna og byrjaði að blogga því að dagurinn hefur ekki haft neina sérstaka viðburði sem eru í frásögur færandi. Ég er heldur ekki búinn að skrifa neina fyrirsögn, geri það á eftir ef ég kem saman einhverjum línum. Þó má geta þess að maður kom hingað í dag frá Örebrosótaranum til að skoða frágang á kamínunni sem við fengum fyrir tæpu ári síðan. Þessi skoðun jafngildir bílaskoðun þannig að ef það kæmi eitthvað fyrir sem tengdist kamínunni óskoðaðri mundu tryggingarnar ekki vera fúsar til að bæta tjón. Við vorum þess fullviss að vegna þess að það var löggiltur fagmaður sem gekk frá henni, þá væri hún þegar löggilt. Svo var það þó ekki og þá var bara að biðja um skoðunina og nú er hún gerð.

Svo þáði skoðunarmaðurinn kaffibolla og það er í fyrsta skipti sem maður frá Örebrosótaranum þiggur kaffi hjá okkur. Hann var líka skoðunarmaður og því ekki svo tiltakanlega skítugur. Hann sagðist vera að leita sér að svipuðu húsi sem hann vildi svo breyta og bæta eftir eigin smekk. Svo sýndum við honum mynd af húsinu okkar eins og það leit út þegar við keyptum það og þá varð hann alveg undrandi yfir hversu fínt og bjart þetta hús væri orðið. Svo spurði hann hvort við værum ættuð frá Örebro eða stöðunum hér í kring. Þá var Valdís fljót að segja að við værum ættuð frá Íslandi.

Við þessar upplýsingar vafðist honum fyrst tunga um tönn og síðan sagði hann að við hlytum þá að hafa verið mjög lengi í Svíþjóð. Og Valdís var á ný fljót að svara og sagði átján ár. Þetta er nú lang besta hrós sem við höfum fengið fyrir sænskukunnáttu okkar, en ég geri þó ekki ráð fyrir að maðurinn hafi gott tungumálaeyra. Það var mikið hrós samt. Annars er það svo að alla vega ég er misdægur á sænskuna. Svo virðist líka sumt fólk vera þannig að það mega ekki vera allra minnstu hnökrar á framburði, þá á fólk erfitt með að skilja. Sótarinn var ekki einn slíkur.

Ég er búinn að vera býsna mikill ellilífeyrisþegi frá áramótum. Það er gott líf og ég er að búa mig undir að það verði enn þá betra. Þegar ég undirbý svo fyrir mig kemur Valdís til með að njóta af því líka. Á að giska í haust þurfum við að fara að koma okkur í kynni við félög eldri borgara. Við fengum helling af pappírum frá svona félögum þegar við urðum 65 ára, en þá vorum við auðvitað svo ung að okkur fannst það of snemmt (mannalæti).

Þó erum við að vissu leyti farin að vera með eldra fólki. Þegar við fórum á revíuna í Fjugesta og eins á tónleika með Evert Taube var flest fólkið þar frá miðjum aldri og eldra. Það má líka segja að þetta fólk bar það með sér að það hafði sína hluti í lagi, að lífið væri í góðum farvegi. Ég veitti þessu athygli í bæði ofannefnd skipti.

Ég leit áðan á fyrirsagnir í blöðum í tölvunni og sá nokkrar forvitnilegar fyrirsagnir. Ég las bara lítillega af því forvitnilega þar sem mér finnst minn tími ekki alveg kominn til að helga mig fróðleik og lestri þó að ég láti slíkt alls ekki alveg framhjá mér fara. Þetta verð ég að lesa seinna hugsa ég oft en hætt er við að ég sé búinn að gleyma mörgum fyrirsögnum sem mér finnst bjóða upp á eitthvað áhugavert að lesa. Það kemur bara nýtt í staðinn.

Konan sem er búin að fylgja mér í meira en hálfa öld er hér fyrir aftan mig og les. Ég er tilbúinn að bara taka af mér inniskóna og bolinn og leggja mig. Nokkrum mínútum síðar verð ég farinn að svífa með félaga Óla Lokbrá í draumalandinu. Það er nú meiri munurinn að vera vinur hans. Það hefur ekki verið svo allt mitt líf en sem betur fer höfum við dregist hvor að öðrum með árunum. Mér finnst sem við tilheyrum fólkinu sem ég talaði um áðan á þann hátt að lífið er í góðum farvegi. Þá verður svefninn góður og þá verður lífið í ennþá betri jarðvegi.

Við kveiktum upp í kamínunni eftir að sótarinn fór í morgun. Síðan fórum við til Örebro þar sem Valdís fór til sjúkranuddara og innkaup voru gerð. Þegar við komum til baka stóð til að kveikja upp aftur en þess þurfti ekki þegar til kom. Það var nógu hlýtt og er ennþá. Það er mikil kyrrð í sveitinni. Ég var að gá að veðri og slökkti útiljósin til að sjá betur. Það er mjög vægt frost en það var ekki stjörnubjart. Ljós lýstu á bæjunum í kring og það var ekki annað að finna en það væri tryggt að vera hér. Síðan gekk ég inn og kveikti útiljósin aftur. Góða nótt.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0