Týndur dagur?

Mánudagurinn 6. febrúar er senn liðinn og ekki síðan í örófi lífs míns hefur mér tekist að gera svo mikið af alls ekki neitt í heilan dag. Mér auðnaðist ekki einu sinni að taka mér bók í hönd sem er þó að gera eitthvað við tímann. Við skruppum inn í Marieberg og ég talaði við Ford menn meðan Valdís fór í búð og keypti til heimilisins. Ég hefði þurft að hringja tvö símtöl sem ég kom ekki í verk. En þegar ég nefni símann man ég þó eftir því að ég talaði símleiðis við Tryggingarstofnun ríkisins og skrifaði svo áætlun fyrir Valdísi yfir tekjur þessa árs sem senda á tryggingarstofnun.

Svo hékk ég yfir sjónvarpinu og góndi á efni sem best hefði verið fyrir mig að sleppa að hálfu og til dæmis skrifa línurnar sem ég er að skrifa núna. Eftir mjaðmaaðgerðina vann ég ekkert eða framkvæmdi yfir höfuð. En ég gerði þó heil mikið á þeim góða tíma. Ég fór í gönguferðir, hvíldi mig með góðri samvisku, fór aftur í gönguferð og lét mér batna með undraverðum hraða. Þá vann ég  sem sagt að því að lækna mig. Svo las ég dálítið, sofnaði frá bókinni, vaknaði aftur, fékk mér vatn að drekka og gerði æfingarnar samviskulsamlega sem mér voru ráðlagðar af góðu fólki á sjúkrahúsinu í Lindesberg.

Ég las nefnilega gömul blogg hér um daginn og þá rakst ég á þetta. Þá rakst ég líka á að bloggin mín eru fjársjóður fyrir mig að grípa til síðar meir frekar en að horfa í vegginn hálf gapandi. Að vísu er ég svo sem ekkert með samviskubit eftir þennan dag, en ég hef þó fengið að upplifa það að það þarf aðgát gagnvart sjálfum sér að verða ellilífeyrisþegi og verða sjálfur herra yfir tíma sínum. Annars er ég að fara í vinnu á miðvikudag og vinn þá kvöldið og annan dag vinn ég svo viku seinna. Ég mun fara frekar seint af stað vegna þess að sótarinn kemur undir hádegi á miðvikudag og ég vil hitta hann. Mér finnst alltaf gaman að hitta sótara í úníformi.

Þar með er ég búinn að skrifa dagbók þessa dags. Ég er líka búinn að bursta tennurnar en á eftir að fara minna erinda fram og ég ætla líka að líta einu sinni enn eftir kamínunni vegna þess að við kveiktum frekar seint upp í henni í kvöld. Hvaða bók ég tek mér svo í hönd þegar ég legg mig á koddann er ég ekki búinn að ákveða ennþá, hvort það verða Brotin egg eða rauð bók sem liggur í náttborðsskúffunni minni með 2000 ára gömlum vísdómi.

"Fátækir menn þrá auðævi, ríkir menn himnaríki, en vitrir menn þrá friðsæld." Svo sagði Swami Rama (1873-1906) og ég vitnaði í þetta í bloggi í fyrra. Svo rakst ég aftur á þessi vísdómsorð á Facebook í dag. Ég sagði í fyrra að ég ætti mér þann draum að tilheyra því síðastnefnda og ætli himnaríkið fylgi því ekki líka. Ég sagði þá og segi enn að það er ekki sama að vera gáfaður og vitur. Nú held ég að ég setji spurningarmerkið aftan við fyrirsögnina því að ég er farinn að halda að þetta sé alls ekki týndur dagur eftir allt saman.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0