Fimmtudagur 16. febrúar 2012

Ég talað við Pál bróður í síma í dag. Við spurðum hvor annan eftir heilsufari og ræddum svolítið um heilsufar almennt, hvernig við eldumst og hverju við getum búist við með hækkandi aldri. Mér lá við að segja honum frá því sem henti mig í gær en fannst það mundi taka of langan tíma í síma. Hins vegar er bloggið tímalaust þannig lagað að það kostar ekkert og svo getur fólk ráðið hvort það tekur sér tíma til að lesa það eða ekki.

Við Valdís fórum til Örebro um hádegisbilið í gær. Valdís fór til að borða hádegismat með vinkonum sínum fjórum en ég fór með kerruna fulla af rusli á endurvinnslustöðina sunnan við Örebro. Á kerrunni var samansafn tveggja eða þriggja mánaða af umbúðum og alls konar afgöngum varðandi byggingarframkvæmdir. Þegar ég var búinn að losa kerruna fór ég meðal annars í byggingarvöruverslun sem er skammt frá endurvinnslunni og keypti síðustu gólflistana sem þarf að setja í Sólvallahúsið. Svo spjölluðum við saman um stund í byggingarvöruversluninni. Þar voru fáir á ferð.

Nú var það svo að Valdís var alls ekki búin að vera nógu lengi í samkvæminu og ég var svangur þannig að ég fór í næsta bæjarhluta, Brikkebakken, til að kaupa mér pylsu. Inn í þennan Brikkebakken er ég trúlega búinn að koma yfir þúsund sinnum. Ég var í mínum heimi á leiðinni þangað og eftir á að hyggja, þá er ég oft svolitið í öðrum heimi þegar ég er á leið frá byggingarvöruversluninni. Svo kom ég að afleggjara og ók inn í Brikkebakken. En þá skeði nokkuð skrýtið; ég kannaðist ekkert við mig. Nei, bíddu nú við, var ég orðinn eitthvað bilaður. Þessar blokkir áttu alls ekki að vera þarna á hægri hönd, bara alls ekki, og þær áttu ekki að sjást þaðan sem ég var, bara tveggja hæða húsalengjur.

Ég fór inn á kunnuglegt bílastæði til hægri og eftir eina fimmtíu metra fór még út á götuna aftur og tók afleggjarann til baka og svo áfram eftir að ég kom út á aðalveginn. Það var eiginlega ekki fyrr en þar sem áttaði mig almennilega á þessu. Ég hafði farið inn á afleggjara til Brikkebakken sem gerður var fleiri árum eftir að við komum þangað fyrsta sinni. Einum kílómeter seinna kom ég að þeim afleggjara sem ég ætlaði að fara og nú var bensínstöðin á réttum stað og blokkirnar ekki í sjónmáli, alveg eins og það átti að vera.

Ég vaknaði klukkan sex í morgun og fór að velta þessu fyrir mér og það var svolítið óþægilegt. Ég spurði sjálfan mig hvort ég væri að verða elliær. En eftir svolitlar hugleiðingar áttaði ég mig á því að svona hefur komið fyrir mig í mörg, mörg ár, og alveg sérstaklega á vegarspottanum næst byggingarvöruversluninni. Einhvern tíma þegar við Valdís vorum á leið til Akureyrar spurði ég hana allt í einu hvort við hefðum virkilega ekki farið Rauðuvíkurbrekkuna. Hah! hálf hrópaði Valdís, þú keyrðir hana á 120. Já, einmitt! og svo sleppti ég morgunhugleiðingum mínum um þetta.

Ég var kominn á stjá í morgun þegar klukkan hringdi hjá Valdísi. Ég skildi ekkert í því að hún stoppaði ekki klukkuna og að lokum heyrði ég hana segja: Hvernig eiginlega á að stoppa þessa klukku? Ég fór að náttborðinu hjá henni og sá hana halda á pínulitlu útvarði sem líka er hægt að nota sem vekjaraklukku, en sjálf vekjaraklukkan stóð á náttborðinu og bípti nú með ógnar látum. Mér fannst þetta nú orðið fyndið með ellilífeyrisþegana á Sóvlöllum.

Svo borðuðum við morgunverð og héldum tímanlega af stað til Fjugesta þar sem það var æfing hjá Hafðu það gott kórnum hennar Valdísar. Eftir svo sem hálfa leið sáum við fólksbíl sem hafði farið út af veginum og lent með framendann í skurðbarmi og síðan á sverum staur. Það var auðséð að þarna hefði getað farið illa, en þegar við stoppuðum hjá frakkaklæddum manni sem vappaði um á veginum fengum við að heyra að allt væri í lagi og björgunarbíll væri á leiðinni. Hann var bílstjórinn. Í tali og látbragði reyndi hann að sýna að þetta væri ekkert mál en stórskemmdur bíll er talsvert mál.

Pabbi hans sat í bílnum og bílstjóri annars bíls sem líka hafði stoppað talaði við hann inn um framhurðina hægra meginn. Ég hef verið á slysavarna- og almannavananámskeiðum fyrr á árum, en sú vitneskja sem ég fékk þá virtist hafa gefið sig. Eftir á að hyggja var háttarlag mannins sem vappaði á veginum þess eðlis að það hefði túlega verið full ástæða að taka völdin af honum á slysstað. Ég vona bara að maðurinn sem þegar var á tali við föðurinn hafi tekið sér þetta vald.

Þegar ég var búinn að skila Valdísi á æfinguna og fara á litla endurvinnslu í Fjugesta með dagblöð og annað það sem safnast saman innan húss, hringdi ég til íslenskrar konu sem búið hefur í Fjugesta yfir 40 ár. Skömmu síðar var ég mættur á heimili þeirra hjóna. Hún er gift sænskum manni sem hún hitti á Íslandi og bæði eru þau nú ellilífeyrisþegar. Ég varð hissa á því hversu góða íslensku maðurinn talaði þar sem það var svo langt síðan hann bjó þar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef talað íslensku við Svía og það var svolítið skrýtið. Hins vegar hef ég talaði íslensku við hann Per Ekström frá Álandseyjum en hann býr á Íslandi þannig að einhvern veginn lá öðru vísi við.

Ég vona að ég hafi ekki farið Rauðuvíkurbrekkuna á 120 þó að Valdísi hafi fundist það. Það er alla vega ekki stíll minn í dag að aka þannig. Ég á miklu láni að fagna sem bílstjóri og eiginlega finnst mér sem það sé hreinlega gjöf sem mér hefur hlotnast frekar en að ég sé góður bílstjóri. En það er fleira sem sýnir tölur en hraðamælirinn í bílnum okkar. Í fyrrakvöld var ég að enda í sturtu og dró þá fram baðvogina. Mér varð um og ó þegar ég sá að vísirinn var nær hundraðinu en 95. Nú var komið að vatnaskilum. Í gærmorgun hafði ég sleifina ekki eins fulla og áður þegar ég mældi tvær slíkar af haframjöli í grautinn minn. Ég setti líka helmingi minni rúsínur í grautinn. Saltið er ég hættur við fyrir lifandi löngu.

Svo fékk ég mér pínulitla brauðsneið með kaffinu á eftir í staðinn fyrir heila sneið með miklum osti. Og hvað svo -ég var ekkert svangur eftir morgunverðinn. Sama aðferð í morgun og ekkert hungur. Hins vegar fékk ég kaffibrauð hjá íslenskunni í Fjugesta og það var að vísu ekki alveg laust við sætindi.

Að lokum varðandi þessa skýrslugerð dagsins. Við fórum bæði til rakara í Örebro eftir kóræfinguna, hvort á sína stofu. Ég var fyrr tilbúinn og því fór ég inn á stofuna þar sem Valdís var klippt. Þar fékk ég mér sæti í svörtum, allt of mjúkum sófa og hlustaði konuna mína, fiskimannsdótturina frá Hrísey, ræða ástndið i Sýrlandi við sýrlenska konu sem klippti hana af mikilli gaumgæfni. Að lokum sagði Sýrlenskan við Valdísi að hún geislaði af góðheitum. Það er varla hægt að óska eftir betri stigagjöf -eða hvað?

Þið fáið ekki að vita meira um okkur í dag. Bless, bless.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0