Skref fyrir skref

Ætlarðu ekki bara að hafa hvítan dag á morgun sagði Valdís í gærkvöld. Í fyrstu lét ég lítið yfir því en svo fór ég að hugsa að þetta væri hreint ekki svo vitlaust sem hún sagði. Og það er árangur þessara orða að ég er að skrifa þessi fyrstu orð í bloggið og klukkan er um níu að morgni. Ég byrjaði daginn á því að opna rauða bók sem er í náttborðskúffunni minni og lesa þar rúmlega eina síðu. Orðin á þessari síðu eru skrifuð fyrir tæpum 2000 árum og fjalla í stórum dráttum um að rækta það besta sem finnst í manneskjunni og meðal annars í mér. Síðan leit ég yfir fyrirsagnir íslensku blaðanna og sá þar meðal annars að það hefði orðið sprenging við lögreglustöð niður í Málmey. Því næst leit ég yfir bankann minn og sá að allt er í röð og reglu, allir reikningar greiddir og lífið er frítt framundan í heilan mánuð. Þar með getum við helgað okkur einhverju öðru en áhyggjum af því sem mölur og ryð fá eytt.

Eftir morgunverð og nokkrar umræður um það hvernig við skyldum verja deginum fór ég að vinna við glugga í staðinn fyrir að hafa hvítan dag. Mér fannst þrátt fyrir allt best að taka daginn í að ljúka þannig við gluggavinnuna sem hófst 3. janúar að það væri hægt að þrífa húsið og fá fallegan blæ á heimilið aftur. Það væri ekkert gamana að hafa hvítan dag einum degi of snemma. Glaður byrjaði ég verkið en ég get ekki sagt að dagurinn hafi liðið í neinu gleðirusi. Ég var hreinlega þvergirðingslegur, tæplega sjötgugur AA-maðurinn, og innihald textans sem ég las í byrjun dags virtist hafa blásið út í veður og vind.

Þegar vinnunni við gluggana var lokið og við byrjuðum að laga til, þá bara skeði eitthvað. Það varð allt í einu svo óttalega gaman að upplifa þessa breytingu. Þegar ég var búinn að bera áhöld og efni út úr forstofunni og Valdís var búin að ryksuga hana vandlega og þurrka af sólbekkjunum leit hún eiginlega mikið betur út en ég hafði látið mig dreyma um og Valdís var sama sinnis. Þá allt í einu mundi ég eftir textanum frá því í morgun og varð undrandi yfir því hversu ég hafði steingleymt honum.

Ég hef svo oft talað um hvað það sé gaman að ganga nokkur skref tilbaka og líta yfir unnið verk. Á myndunum hér fyrir neðan er hægt fyrir þá sem lesa þetta og vilja vera með, að gera það með því að líta á myndirnar. Þær eru allar úr forstofunni.


Í byrjun september fór ég að vinna fulla vinnu og lagði þá alveg niður innivinnu á Sólvöllum. Þannig voru því forstofugluggarnir búnir að vera í fjóra mánuði þegar ég byrjaði innréttingavinnuna á ný. Það voru ekki einu sinni komnar áfellur á forstofuugluggana en þó á aðra glugga í húsinu. Þetta er hættulegt ástand þar sem það er hægt að verða blindur á svona lagað.


Þegar áfellurnar voru komnar upp varð þessi líka breytingin í forstofunni. Það var líka fljótlegra að setja þær upp en ég hafði reiknað með og ekki skemmdi það fyrir. Enn um sinn var þó hægt að geyma drasl í gluggasyllunum:).


Annar áfanginn var að setja upp gereftin. Þau voru eins og áfellurnar búin að vera geymd grunnmáluð og í fallegum búntum upp á lofti. Enn drasl í gluggasyllunum.


En nú er alveg bannað að geyma drasl í gluggasyllunum! Þriðju umferð er nefnilega lokið. Það eru komnir sólbekkir! Þarna sjáum við út um glugga móti suðvestri. Þetta var fyrir mig skemmtilegasti áfanginn þar sem endanlega útlitið var nú komið fram í dagsljósið.


Og hér er forstofan móti norðvestri og alveg jafn gaman að skoða gluggana þar líka. Fyrir neðan er svo aftur fyrsta myndin til að sjá þær saman, fyrir og eftir breytingu. Hér er ekki búið að taka til og þurrka af.


Áður en vinnan í forstofunni hófst var snjódýptin tveir sentimetrar og þegar henni var lokið var snjódýptin líka tveir sentimetrar.

Hvers vegna standa svo sjötugar manneskjur í svona byggingarveseni? Það mál er hreinlega ekki á dagskrá ennþá. Nágranni sem býr einn kílómeter hér norðan við hefur stundum stoppað til að spjalla þegar hann er á sínum reglubundnu gönguferðum hér framhjá. Hann sagðist fylgjast vel með og þótti við ólöt að vera að byggja á okkar aldri. En hann var meira hissa á manninum sem ætlaði að byggja einbýlishús í sveitinni inn við Örebro því að hann var orðinn sjötugur. Þetta var mikið hól fyrir okkur þar sem sá maður er bara einu ári eldri en við. Hans hús með tvöföldum bílskúr reis á nokkrum vikum, enda byggt á allt annan hátt og á öðrum forsendum en Sólvallahúsið.



Svo má ég til með að birta eina mynd enn.


Meðan ég lauk í dag síðustu verkunum við þá 13 glugga og fimm dyraumbúnaði sem ég hef unnið við frá áramótum, einhvern veginn ekki of hress, týnandi tommustokk, blýanti, vinkli og mistakast við að kveikja upp í kamínunni, þá gekk konan á myndinni að eldhúsbekknum og bakaði tvær jólakökur og slatta af spesíum. Lyktin var alveg undursamleg. Og ekki versnaði lyktin þegar hún byrjaði að steikja íshafsýsuna sem lá þarna í hvarfi á fati við hliðina á eldavélinni. Svo þegar hún var búin að því gekk hún í tiltektina með mér og þess vagna varð forstofan svo fín sem hún varð þegar kvöldaði.

Nú eru þrjú atriði eftir við Sólvallahúsið innanvert. Það er ein mnálningarumferð á alla gluggana 13, að setja nokkra metra af gólflistum og smíða snoturt lágt handrið á loftskörina. Þetta er ég búinn að ákveða að verði búið um miðjan mánuðinn utan handriðið og þá verður hægt að halda lokahóf.


Kommentarer
Þórlaug

Til hamingju með þennan áfanga. Kannski var þetta hvítur dagur, forstofan er að minnsta kosti hvít og fín!!!!



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2012-02-02 @ 21:33:03
Guðjón

Þakka þér fyrir Þórlaug mín. Það eru býsna hvítir dagar á Sólvöllum. Litirnir eru ljósir skaltu vita og það er bjart hér þrátt fyrir skammdegið sem þó er á förum.



Með bestu kveðju til ykkar frá Valdísi og Guðjóni

2012-02-03 @ 08:55:16
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0