Að koðna niður af inniveru og aðgerðarleysi

Ég horfði út um glugga svolitla stund í morgun og sá að það blés ögn frískt um greinarnar á birkitrjánum vestan við húsið. Hins vegar hafði frostið gengið niður frá rúmum 20 stigum niður í 10 til 12 stiga frost. Samt hugsaði ég sem svo að það mundi vera svo skítkalt í nepjunni að ég skyldi bara halda mig innan dyra í dag. Svo hélt ég mig innan dyra fram yfir hádegi, kláraði blogg um smá samkomu nokkurra Íslendinga í Örebro í gær og svo gerði ég tilraunir sem ég hafði um tíma hugsað mér að gera varðandi upphitun á húsinu.

Að lokum var húsið eiginlega orðið of heitt og ég ráfaði fram og til baka hér inni og fann hvernig ég koðnaði niður í sljóu aðgerðarleysi. Svo fór ég út í póstkassa til að sækja blaðið og sá þá að það voru tveir ruslapokar komnir út fyrir dyrnar. Já, alveg rétt, ég varð auðvitað að fara með þá á sinn stað líka. Því fór ég með annan pokann beint út í ruslatunnu og sótti síðan blaðið.

Kominn heim með blaðið tók ég hinn ruslapokann, það var að segja þann með lífræna ruslinu, og fór með hann í moltukassann út i skógi. Já, það var vissulega kominn tími til að heimsækja skóginn. Á leiðinni út að moltukassanum sá ég lítið tré sem ég fór að spekúlera eitthvað í, en hélt svo áfram með ruslapokann og svo skyldi ég til baka og skoða þetta litla tré. Þá gekk ég fram hjá nokkrum eins og hálfs til þriggja metra háum eikum og hugsaði sem svo að elgirnir hefðu látið allar eikur í friði í vetur og sennilega mundu þær sleppa eftir þetta og vaxa vel í sumar.

Enn varð ég að taka mig af stað á ný með ruslapokann og nú reyndi ég að ganga hugsunarlaust framhjá öllum trjám en þó varð ég að líta upp með stofninum á furunni sem var svo ógnar mjó þegar við rýmdum kringum hana fyrir nokkrum árum. Ég var ekki í vafa um að hún hefði launað ríkulega fyrir frelsið sem við gáfum henni því að núna var hún gild sem tré, en þegar við komum hingað var hún óeðlilega mjó en há. Loks kom ég að moltukassanum og þurfti að slá með heygaffli í lokið til að brjóta klakann sem hélt því föstu. Svo var ég laus við ruslið.

Ég gekk til baka með tóman pokann í hendinni og skoðaði tréð sem ég ætlaði að skoða. Það var rúmlega mannhæðar hár hlynur sem ég hafði tekið þar sem hann var fyrir mér í fyrra og gróðursetti hann þarna í háfgerðum flýti. Hann leit vel út og hafði marga vel þroskaða brumhnappa. Svo sá ég eik sem þyrfti að snyrta svolítið þegar tími kemur fyrir það, snemma í apríl eða svo. Svo sá ég tvön greni sem stóðu of nærri hvort öðru og þar að auki nálægt einu beykitrénu. Þó að við ætlum að leggja allan okkar kraft í að vernda laufskóginn, þá fannst mér að annað grenið þarna ætti að fá að standa enn  um sinn. Þau höfðu bæði vaxið svo ótrúlega mikið í fyrrasumar.

Þannig hélt það áfram og ég fór fram og til baka um allan skóginn. Allan skóginn! sem er 6000 m2. Ég sá margt sem þarf að sinna til að hlú að bestu einstaklingunum. Komi ég því í verk er það er ekki spurning að skógurinn verður orðinn mun betur hirtur laufskógur þegar við verðum 75 ára. Svo segi ég að "ég" komi í verk. Stundum grípur Þráinn Valdísi traustu taki og hún fer um með greinaklippurnar og ræðst með ótrúlegri elju á reyniviðinnn sem vex eins og illgresi á vissum svæðum. Þá munar um það.

Þannig var það þegar ég ákvað að fara út og koðna ekki niður af inniverunni. Ég fann svo fljótt eftir að ég kom út í skóginn hvernig súrefnið settist að í höfðinu á mér og kom ímyndunaraflinu af stað og áhuganum á því að vera til. Næst þarf ég að taka greinaklippurnar með mér þegar ég fer út í skóg og grisja þar sem tré vaxa hlið við hlið. Svo þarf ég að taka með mér snæri og binda í tré sem hafa vaxið of nálægt öðru tré og rétta þau af. Tré sem vaxa út á hlið eru ekki svo sérstaklega tignarleg.

Svo talaði ég um eikurnar sem elgirnir hefa ekki étið ofan af í vetur eins og þeir hefa gert undanfarna tvo vetur. Ef það stenst út þennan vetur verða það kannski tvö eða þrjúhundruð eikur sem eru að verða mannhæðar háar eða meira. Eftir tvö eða þrjú ár verður svo hægt að fara að velja hverjar þeirra eru best staðsettar eða best vaxnar til að verða valdar til ásetnings. Svo þegar við Valdís höldum upp á 75 ára afmælin okkar með því að hafa opið hús allt sumarið, þá verður hægt að fara út í skóg með gesti og halla sér upp að mörgum af þessum eikum, taka spjall saman og hvílast.


Kommentarer
Þórlaug

Ekki var það alveg innivera hjá þér í dag eins og þú hélst!!

Skógurinn ykkar er heppinn, ég veit að þú bíður í ofvæni eftir að geta hafist handa og yrði ekki hissa þó það yrði strax á morgun.



Bestu kveðjur í jólahúsið í skóginum,



Þórlaug

2012-02-05 @ 19:16:35
Þórlaug

Ekki var það alveg innivera hjá þér í dag eins og þú hélst!!

Skógurinn ykkar er heppinn, ég veit að þú bíður í ofvæni eftir að geta hafist handa og yrði ekki hissa þó það yrði strax á morgun.



Bestu kveðjur í jólahúsið í skóginum,



Þórlaug

2012-02-05 @ 19:16:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0