Að lifa lífið til fulls þann 17. febrúar 2012

Ég veit ekki hvort ég á að nenna að blogga en einmitt þess vegna ætti ég kannski að gera það. Kannski kemur eitthvað út úr því ef ég byrja.

Ég málaði í gær og gekk ágætlega þangað komið var fram undir kvöld. Þá gekk eitthvað á afturfótunum enda var ég að klára úr málningardós og það var líka of heitt inni hjá okkur. En ég málaði þó að ekki gengi allt að óskum. Þegar ég kom fram í morgun byrjaði ég á að gera úttekt á því sem ég hafði gert síðast í gær. Niðurstaðan var eftirfarandi: "Skelfilegt." Inn á milli voru mattir blettir og annars staðar voru blettir þar sem málningin hafði hrúgast upp. Ég reyndi að láta mér ekki fallast hendur og ég reyndi líka að láta þetta ekki hafa áhrif á lundarfar mitt. Samt hafði það áhrif á hvort tveggja.

Svo slípaði ég haugana frá gærdeginum og hreinsaði rykið vandlega burtu. Því næst dæsti ég, hringsnerist og vildi helst ekki mála aftur ef það mundi nú mistakast á ný. Því næst reyndi ég að hugsa jákvætt og fór nokkrum sinnum með æðruleysisbænina. Svo málaði ég prufu og beið eftir því að málningin þornaði. Hvað eftir annað leit ég yfir prufuna til að sjá árangurinn og sýndist sem þetta væri hreina fúskvinnan. Nei nei, sagði Valdís, þetta er fínt. Ég vildi gjarnan trúa því en var alls ekki viss.

Ég fór að fást við annað, fór út að vélsöginni og sagaði þunnan lista sem mig vantaði og tókst sæmilega. Svo tók ég matarúrgangana og fór út að moltukerinu og losaði, hengdi plastpokann um annan úlnliðinn og fór hringferð um skóginn og talaði við sjálfan mig. Einnig litlu eikurnar mínar. Það er ekki að því að spyrja að ef ég geri rétta hluti verður allt betra. Ég vissi að ég ætti að fara einn eða tvo hringi í viðbót en lét þetta nægja. Svo málaði ég meira og ákvað síðan að mála eina umferð til viðbótar á tveimur dyrum á morgun.

*

Þegar ég var kominn hingað með þetta blogg gekk ég fram og hlustaði á mann í sjónvarpinu tala um meinlokur og fullkomnunaráráttu. Eftir það gekk ég að dagsverkinu mínu og leit yfir það. Ég var ánægður. Ég hreinsaði burtu málningarlímbandið sem hlífði parkettinu við dyrnar tvær sem ég ætlaði að mála aftur morgun og þar með var ég búinn að lýsa yfir verklokum. Fullkomnunaráráttan er stundum förunautur minn.

Oft talar fólk um erfiða daga og "meira að segja ég" get fallið fyrir því. Ég einmitt hugsaði það út í skógi í dag að þó að þessi dagur væri ekki eins og ég vildi að hann væri, væri hann ekki erfiður dagur. Ég lít nú á það sem neikvæðni að tala um erfiða daga ef það er bara vegna þess að ég er öfugsnúinn. Hefði ég viljað halda mig við það hefði það verið hrein sjálfsvorkunn -eymd. Minn dagur var reyndar góður og dyrnar og gluggarnir sem ég var að mála eru okkar bæ til fyrirmyndar. Svo las ég um það að hún Linda fegurðardrottning ætti tíu ára edrúafmæli í dag. "Þá byrjaði lífið", sagði Linda. Það er satt Linda, lífið er almennt gott og eymdin tilheyrir því liðna.

*

Ég tók forskot á sæluna áðan og leit á vísdómsorð morgundagsins í Kyrrð dagsins. Richard Jefferies (1848-1887) er höfundur þessara vísdómsorða, en hann var þekktur fyrir að skrifa um breskt sveitalíf. Þessi orð eru eftirfarandi:

Þær stundir sem hugur okkar er fanginn af fegurð lífsins
eru hinar einu sem við lifum til fulls.

Þetta eru góð orð fyrir mig nú í dagslok, fyrir mig sem var langt kominn með að eyðileggja daginn í neikvæðni og fullkomnunaráráttu. Í gær fékk ég kveðju eina 700 kílómetra norðan úr landi. Kveðjan var svohljóðandi: Hafðu góðan morgundag. Ég var heppinn að byrja að skrifa. Það fékk mig til að hugsa og einnig orð mannins sem talaði um fullkomnunaráráttuna. Ég er harðánægður með verkin mín og þessi dagur hefur verið góður þó að ég hafi kannski ekki lifað hann alveg til fulls.



Á morgun eru það svo Evert Taube tónleikar í Fjugesta.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0