Ég verð að viðurkenna þann 19. febrúar 2012

Það er sunnudagur í dag og ég verð að viðurkenna að ég hef ekki haldið allan hvíldardaginn heilagan. En þó var það málið hjá mér að gera ekkert fyrir sjónvarpsmessuna annað en að borða morgunverðinn og ég stóð við það. Samt náði ég varla því markmiði en Valdísi tókst það. Ég eldaði hafragrautinn og hafði heldur minna í sleifunum þegar ég mældi haframjölið í pottinn. Ögn minna hafði ég af rúsínum líka en líka eins og ég ákvað fyrir nokkrum dögum þegar baðvogin var nærri því að segja hlass þegar ég steig á hana. Svo var þessi della í pottinum tilbúin. Hafragrautur er ekki fallegur á borði og eiginlega ennþá minna fallegur með rúsínum.

Ég ákvað líka að þvo pottinn fyrir messu svo að borðið liti vel út og því gekk ég að vaskinum með pottinn og losaði allt innihaldið niður í vaskinn og skóf pottinn vel innan með sleifinni. Þegar ég leit niður í vaskinn á eftir áttaði ég mig á því að grauturinn hafði farið dálítið villt. Jahérna, þannig byrjaði sunnudagurinn. Ég hreinsaði úr vaskinum niður í matarúrgangafötuna og svo hófst grautargerð á ný og nú tókst það, en messan var þá byrjuð.

Var þetta merki um elliglöp? Ég velti því aðeins fyrir mér og komst að þeirri niðrstöðu að svo væri ekki. Það eru orðin þó nokkur ár síðan ég tók nýjar nærbuxur úr umbúðum og fór í þær. Síðan tók ég umbúðirnar og kastaði þeim í óhreina þvottinn og nærbuxunum í ruslið. Með öðrum orðum; ég hef ekkert breytst í mörg ár. Hér lýkur óábyrgu blaðri.

*

Ég verð að tala um messuna. Þetta er hreinlega fallegsta messa sem við höfum séð lengi og við erum sammála um það. Stundum hefur mér fundist sem einhverju hljóðfæraglamri og langdregnum einsöng sé ofbeitt í messunum en hér var því ekki til að dreifa. Það var hefðbundinn sálmasöngur sem allir tóku þátt í, en einnig hreint alveg stórkostlegur hljóðfæraleikur með svo ótrúlega fallegum söng sem mjög ungt fólk flutti. Biskup einn sem predikaði í messunni talaði líka um það að tónlistin yrði notuð til að gera áheyrendur opnari fyrir þeim boðskap sem yrði í boði. Davíð konungur talaði líka um það fyrir 3000 árum að spila á hörpu og lýru í sama tilgangi þannig að aðferðin er ekki aldeilis ný af nálinni.

Í predikuninni talaði biskupinn um tvenns konar leiðir til að draga sig undan. Önnur leiðin var að draga sig undan og leggjast í dvala, sofa, til að reyna að gleyma því óþægilega sem finnst innra með okkur manneskjunum. En honum þótti öllu vænlegra að við drögum okklur undan til að fá næði til að hafa hljóðláta umræðu við okkur sjálf um þau óþægindi sem við burðumst með. Og þá vil ég bæta við; ef til vill einnig til að safna kjarki til að afhjúpa eitthvað gott sem við viljum koma til leiðar.

Ekkert er nýtt undir sólinni segjum við stundum þegar við viljum segja eitthvað gáfulegt. Að draga sig undan er ekkert nýtt en biskupinn bara einfaldlega leiddi hugann að þessu á svo ótrúlega mildan og sannan hátt -kom af stað íhugun. Elía spámaður gekk 40 daga í eyðimörkinni og gekk síðan inn í helli þar sem hann var líka einn. Ólíkar náttúruhamfarir dundu yfir sem lauk með eldi, en eftir eldinum heyrðist blíður vindblær hvísla. Síðan barst rödd að eyrum hans sem sagði: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?" Síðan fékk Elía fyrirskipanir um mikilvæg verkefni sem hann skyldi hrinda í framkvæmd sem hann og gerði.

Sagan segir frá mörgum stórum nöfnum sem tekið hafa sér tíð í eyðimerkurgöngur. Ég nefni bara tvö nöfn; Jesús og Gandí. Þeir drógu sig undan til að hugleiða, alls ekki til að leggjast í dvala og gleyma. En hvað er að marka gamlar skriftir? Ég er orðinn of gamall til að setjast í háskóla til að læra um líkt. Hins vegar varð ég fyrir miklum áhrifum af sjónvarpsþætti sem ég horfði á hér í Svíþjóð af gríðarlegri fróðleiksfíkn. Það fjallaði um borgina Tróju. Í þættinum var sýndur þýskur maður sem gekk um landslag og las sig til í gömlum skriftum. Hann leitaði kennileita og fann. Síðan bað hann menn sína að byrja að grafa. Þeir grófu sig niður á Tróju. Þetta fékk mig til að líta með nýjum og opnum huga á gamlar skriftir.

Það má margt segja um gömlu skriftirnar og margt sem staðfestir þær á vísindalegri hátt en áhorf mitt á fyrrnefndan sjónvarpsþátt. Í morgun var ég fullur af andagift eftir messuna og fann mig reiðubúinn til að skrifa langt, ljóðrænt blogg um andlegheit. En ég hélt ekki hvíldardaginn heilagan og andlegheitin dofnuðu með málningarpensil, skrúfvél, sög og vandað byggingarefni í höndum. Ég get eiginlega ekki sagt því miður því að mér skilaði svo mikið áleiðis í dag. Sá dagur kemur að engar annir koma í veg fyrir að ég haldi hvíldardaginn heilagan og ég vona að Guð í upphæðum gefi mér þann tíma.

*

Við Valdís erum á því að Sólvellir séu að verða meira tilbúið hús en Sólvallagötuhúsið okkar í Hrísey nokkurn tíma varð. Hún hjálpaði mér eftir þörfum í dag, bakaði handa mér pönnukökur og steikti kótilettur. Þess á milli hefur hún setið með prjónana. Nei, reyndar, þar fer ég með rangt mál. Við fórum í stutta gönguferð og þá sagði hún allt í einu: Getum við ekki gengið hér inn í skóginn okkar? Mikið varð ég glaður því að það er svo langt síðan við höfum farið saman inn í skóginn og víst var hægt að ganga einmitt þarna inn í hann.

Ég veit vel að það er konudagurinn í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0