Fótspor í sandinum

Þegar ég fór í fyrsta skipti frá Falun í Vornes í nístandi desemberkulda og skammdegismyrkri var ég ögn einmana en taldi þó sem eitthvað nýtt væri að eiga sér stað í lífi okkar Valdísar. Mér var mjög vel tekið og skammdegismyrkrið var alls ekki svo svart þessa fyrstu viku, en ég gisti alla vikuna í Vornesi. Það sem setti þó strik í reikninginn var að hún tengdamóðir mín dó annað kvöldið sem ég dvaldi þar. En það sem bjargaði þessari viku var að konan mín var dugleg og við gengum þrátt fyrir allt hvort til sinnar vinnu með 240 kílómetra millibili.

Ég vann á sjúkradeildinni alla þessa viku og kunni því vel. Ég sá þunna steinplötu með smáum texta hanga þar á vegg en ég verð að viðurkenna að það var svo margt sem var að henda að ég lét vera að lesa þennan texta. Eftir all margar vikur í Vornesi varð þó af því að ég las textann og hann er á þesa leið:


Fótspor í sandinum

Nótt eina dreymdi mann nokkurn draum. Hann dreymdi að hann gekk eftir strönd nokkurri ásamt Guði. Á himninum birtust allt í einu atvik úr lífi hans. Hann veitti því athygli að á hverju tímabili í lífi hans sáust tvenn fótspor í sandinum, önnur voru hans en hin voru Guðs.

Þegar síðasti hluti lífs hans birtist leit hann til baka á fótsporin í sandinum. Þá sá hann að oft á lífsferlinum voru bara ein fótspor. Hann veitti því líka athygli að þetta átti sér stað undir einmanalegustu og erfiðustu tímabilum lífs hans.

Þetta olli honum virkilega áhyggjum og hann spurði Guð um þetta. " Herra, þú sagðir mér þegar ég hafði ákveðið að fylgja þér að þú skyldir aldrei yfirgefa mig, heldur vera við hlið mína leiðina alla til enda. En ég hef veitt því athygli að á allra erfiðustu tímabilunum í lífi mínu hafa bara verið ein fótspor. Ég get ekki skilið af hverju þú yfirgafst mig þegar ég þarfnaðist þín mest."

Herran svaraði: "Mitt kæra barn, ég elska þig og mundi aldrei yfirgefa þig á tímum erfiðleika og þjáninga. Þegar þú sást bara ein fótspor - þá bar ég þig."




Þegar ég las þessi síðustu orð var sem eitthvað bærðist í brjósti mér, sem ljósgeisli breiddist út innra með mér, og textinn greip mig sterkum tökum. Ég varð svo undrandi yfir því hvers vegna ég dró svona lengi að lesa hann.


*

Mörgum árum seinna var hann Kalli í meðferð og meðferð hans byrjaði í náttfötum og slopp á sjúkradeildinni. Hann var tvítugur, huggulegur strákur sem var greinilega þreyttur á lífinu eins og það hafði orðið og það var greinilegt að hann hafði einlæga ósk um breytingu. Ég var að vinna kvöld og sat einn á vaktinni, herbergi hjúkrunarfræðinganna, og hafði það stóra rifu á hurðinni að allir gætu séð að ég væri þarna og að það væri í lagi að líta inn til mín. Ég sá hvernig Kalli rölti fram og til baka, gekk út á tröppurnar bakdyramegin, kom inn aftur og hann leit alvarlega út og lét raddkliðinn sem heyrðist innan frá dagstofunni ekki trufla sig. Svo var allt í  einu sem Kalli hefði horfið í einhverja þögn þarna innar á ganginum.

Að lokum heyrði ég hann koma gangandi og ég leit fram að dyrunum. Má ég koma inn? sagði hann lágum rómi þegar hann hafði stungið höfðinu inn um dyragættina. Já Kalli, komdu inn. Þegar hann var kominn inn úr dyrunum sagði hann mér frá því að hann hefði verið að lesa textann á steintöflunni inn á ganginum. Svo lagði hann hendina á brjóst sér og sagði: "Þegar ég las síðustu orðin skeði eitthvað hér inni í brjóstinu á mér. Það var svo skrýtið."

Mér fannst þetta ekkert skrýtið. Við sátum þarna um stund og töluðum um lífið og Kalli var svo sannur og vilji hans til nýs lifs var svo augljós. Þegar ég kom aftur einum tíu dögum seinna til að vinna kvöld í Vornesi sá ég ungan glaðlegan mann sem ég kannsðist við. Hann vildi heilsa og ég leit þarna í andlit Kalla sem nú var laus við náttfötin og sloppinn og var kominn í eigin föt. Augnaráðið var hreint og andlit hans var fullorðnara og hann var sérstaklega kurteis. Það er mikið góðs viti þegar ungt fólk hrífst af frásögninni Fótspor í sandinum.


Kommentarer
Anonym

Pabbi mig langar að deila með þér sögu sem á við hér og þú getur tekið hana til þín því það áttu skilið þegar kemur að því hve mörgum þú hefur hjálpað fyrstu skrefin til nýs lífs í Vornesi. Ég nota þessa sögu oft í ræðum þvið útskrift hjá fólki sem hefur eftir langt hlé hafið nám aftur og þá er upphafið gjarnan hjá okkur hér í Visku.



Sagan um piltinn og krossfiskana.

(eftir frásögn Loren Eieley)

Vitur maður fór í gönguferð niður að strönd snemma að morgni. Í fjarska sá hann ungan pilt sem virtist vera að dansa í fjöruborðinu. Þegar hann kom nær sá hann að pilturinn var að tína upp krossfiska úr fjörusandinum og kasta þeim varlega út í hafið. ,, Hvað ert þú að gera,” spurði maðurinn. ,,Sólin er að koma upp og það er að fjara út, ef ég kasta þeim ekki út í sjóinn deyja þeir.” ,,En vinur minn, ströndin teygir sig marga kílómetra og það liggja krossfiskar alls staðar í fjöruborðinu – það sem þú ert að gera breytir ansi litlu.” Pilturinn beygði sig niður, tók upp enn einn krossfisk og kastaði honum varlega út fyrir öldurótið. ,,Það breytir miklu fyrir þennan,” svaraði hann.

2012-02-29 @ 12:55:52
Valgerður

Ég gleymdi að setja nafnið mitt undir bréfið hér á undan en geri það hér með. En það má kannski bæta því við að hún er löng leiðin til stjarnanna en alveg þess virði að leggja í þá ferð.

kv

Valgerður

2012-02-29 @ 12:58:04
Guðjón

Ég hefði þekkt kommetarinn samt. Takk fyrir söguna, hún er góð og auðskilin. Ég heyrði hana fyrir löngu og notaði hana í einhver skipti, en svo einkennilegt sem það er þá var ég búinn að steingleyma henni. Nú er búið að endurlífga hana. Ég hef ekki unnið í einar tvær vikur en svo reikna ég með að allt í einu verði hringt og þá fæ ég kannski fyrirlestur þar sem þessi saga hentar vel.



Kveðja,



pabbi/afi

2012-03-01 @ 08:23:51
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0