Ávöxtur af vinnu

Stundum hefur það verið föndur, stundum hörku vinna en afar sjaldan leiðinlegt, bara aldrei. Það er búið að taka langan tíma og stundum hef ég þurft að lagfæra vitleysurnar mínar en mér er orðið alveg sama þó að mér gangi hægt. Ég get ekki sagt að mér hafi verið sama um það í byrjun en ég er kominn yfir það. Einhvern tíma verður samt að koma að því að við sjáum afrakstur erfiðisins og það er komið að því. Að vísu hefði ég kannski átt að birta þetta blogg um miðjan mánuðinn þar sem smá verkefni eru eftir eins og ég sagði í bloggi í gær, en sannleikurinn er sá að þeir sem skoða þessar myndir mundu varla sjá muninn.

Þegar komið er inn úr forstofunni og svo farið strax til hægri er komið inn í þetta herbergi. Þar gnæfa þeir yfir öllu öðru Lómanúpur og Öræfajökull og virðast kunna vel við sig hér í Krekklingesókn. Þetta herbergi er 20 m2 og er hugsað sem betri stofa en þar er einnig rúm ef einhver skyldi vilja fá gistingu á Sólvöllum. Einhvern tíma á árinu er meiningin að í staðinn fyrir þetta rúm komi góður svefnsófi sem sé boðlegur fyrir hvern sem er. Það eru engar gardínur þarna -ekki ennþá alla vega- en í staðinn virðist vera hægt að lýsa rúllugardínurnar skemmtilega upp samkvæmt myndinni. Næsta mynd tengist þessu.


Gereftin eru mjög falleg og sérstaklega verða þau það þegar búið verður að renna síðustu málningu yfir þau. Svíar eru mikið gardínufólk en þeir segja samt að það sé spurning hvort það megi fela svona fallega gluggaumgjörð bakvið gardínur.


Jú, rúmið er þarna, ekki spurning.


Og svo er líka hægt að fara út aftur þegar manni fer að leiðast í herberginu.


Kannski ég eigi eftir að sitja við þetta skrifborð og skrifa forsetanum. Kaktusarnir hennar Valdísar á kommóðunni til hægri eru í óða önn að springa út.


Það er loft á Sólvöllum og þarna þarf að smíða lágt handrið. Þetta loft er geymsla þangað við verðum búin að leysa geymnsluþörfina. Það mál er í vinnslu verður ekki gert að bloggefni enn um sinn. Loftið yfir eldhúsinu er það eina sem hægt er að sjá í dag af gamla húsinu, því sem við keyptum á sínum tíma.


Þarna er svo Valdís að lesa Norðurslóð og við hliðina á henni er handavinnan hennar. Handavinnan sem hún er að vinna við núna liggur á handavinnuborðinu undir lampanum til vinstri á myndinni. Hægra megin sjáum við fram í forstofuna og beint fram til hægri eru dyrnar að herberginu þar sem við vorum áðan.


Valdís er enn að lesa Norðurslóð enda bað ég hana að hætta því ekki fyrr en ég væri búinnn að taka nóg af myndum. Hægra megin á myndinni, í hvíta skápnum, er engla og postulínsskósafnið hennar. Hægra megin við sjónvarpið er mynd af Kálfafelli og vetrarmynd af Hrísey tekin af Kaldbak er vinstra megin yfir sjónvarpinu. Það sem síst virðist eiga heima á þessum vegg er sjónvarpið.


*




Fyrir rúmu ári síðan komu þeir Johan hinn ungi smiður og Anders smiður og réðust með mér á gólfið í gamla húsinu og við hentum því út á lóð. Þarna sjáum við endann sem Valdís situr við á myndinni fyrir ofan og hér gefur að líta þá lofthæð sem var í gamla Sólvallahúsinu. Núna erum við að hita upp húsið með efninu sem þarna var kastað út með miklu hraði.


Þarna er Andres á fullri ferð og ég get lofað að dagana þarna á eftir var ekki fínt á Sólvöllum. Það kom sér vel þá að konan mín er engin hengilmæna. Hún tók þessu með miklum dugnaði og ósjaldan angaði byggingarsvæðið að vöfflum eða pönnukökum.


Svo er hér að lokum ein mynd af hálfunnu loftinu. Þetta er liðin tíð og á morgun koma gestir upp úr klukkan níu. Svo koma aðrir gestir í hádeginu. Við getum boðið þessu fólki í hús sem við erum stolt af. Allir iðnaðarmenn sem að þessu komu voru mjög duglegir. Það seinlega og skítverkin reyndi ég að vinna meðan þeir voru fjraverandi og svo komu þeir þegar hægt var að ganga hreint til verks og þá rauk úr skósólunum eins og menn segja gjarnan hér þegar hraustlega er unnið. Lokafrágangur, fínsmíði og föndur varð svo mitt að lokum þannig að mín vinna við þetta hús hefur ekki bara verið skítverk, langt í frá.


Kommentarer
þóra Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón mikið er húsið ykkar orðið falegt þú talar um að Svíar séu mikið fyrir gluggatjöld þessi gömlu góðu , mér finnst gluggarnir svo flottir svona ,ég myndi ekki tíma að sétja gluggatjöld fyrir þá annað en rúllugardínur ,litlu gluggarnir með lömpunum koma svakalega flott út án gömlu góðu gardínuvængjanna , þú ert enn í fullu fjöri til að smíða svona þó fullorðin sért ert búin að sanna það með þessari framkvæmd á Sólvöllum ,pabbi segi að sitt hobby sé að smíða á meðan einhver hann í vinnu ,þið eruð bara snillingar í smíðum

kv Þóra

2012-02-03 @ 00:54:38
Guðjón

Þakka þér fyrir Þóra mín og skilaðu kveðju til pabba þíns. Það væri nú gaman að hann fengi að sjá þessar myndir því að hann er kunnugur í þessu húsi eins og það var þegar hann var á ferðinn.



Meðbestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2012-02-03 @ 08:52:11
URL: http://gudjon.blogg.se/
þóra Björgvinsdóttir

Sæll Guðjón ég redda því að hann fái að sjá þessar eins og hinar sem eru af framkvæmdunum hjá þér ,það er ekkert mál að gera það svo hann sjái breytinguna hjá ykkur .

kveðja

2012-02-05 @ 13:44:42
Dísa gamli nágranni

Sæl komið þið Sólvallabúar. ég ætla að taka undir með Þóru,mikið eru þetta fallegar myndir,þið megið svo sannarlega vera stolt og ánægð með allt það semþið eruð búin að koma í verk og Valdís mín. Gluggarnir eru mjög fallegir eins og þeir eru núna.

Kærar kveðjur úr Sólvallagötunni.

2012-02-08 @ 23:29:55


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0