Evert Taube tónleikar 18. febrúar 2012

Þekkir einhver þetta hér?

Sjösalavals

Þau voru víst ófá lögin sem Sigurður Þórarinsson fann í Svíþjóð og gerði íslenska texta við. En þegar við Valdís komum til Svíþjóðar áttuðum við okkur líka á því að lög sem við héldum að væru ramm íslensk voru reyndar sænsk. En hvað um það, í kvöld vorum við á tónleikum sem haldnir voru í Fjugesta til minningar um Evert Taube sem uppi var frá 1890 til 1976. Hann er höfundur til Vorkvöldsins í Reykjavík eða Sjösalavals og það var eitt þeirra laga sem við fengum að heyra á tónleikunum.

Það var ekki fyrr en við fluttum hingað í sveitina sem við gerðum okkur grein fyrir því hversu dugleg leikfélögin eru í sænsku sveitunum og smástöðunum. Salurinn í Fjugesta var fullsetinn og þá er ég að tala um rétt innan við 200 manns sem koma saman til að hlusta og sjá. Jólarevían var sýnd í einhverjar vikur og dag eftir dag fyllti fólk frá Örebro þennan litla dreifbýlissal. Það væri svipað og Reykvíkingar fylltu 200 manna sal suður í Vogum allt að því vikum saman fyrir jólin þó að sú vegalengd sé heldur lengri.

Ég veit að það eru líka dugleg leikfélög á Íslandi en það kom mér hreinlega á óvart að þetta skyldi vera svona virkt hérna og svo er það vítt og breitt um landið. Hvernig ætli það hafi legið á Taube þegar hann sýslaði við að semja þetta lag með texta.

Skútusöngurinn

Svo var kallinn gleðimaður sem meðal annars bjó í Argentínu og grunur leikur á að hann hafi dregist til fagurra kvenna. Það leikur líka grunur á að konan hans hafi ekki alltaf verið ánægð með það sen hann aðhafðist þegar hann var ekki heima við. Vín, söngur, konur og dans, já hvernig átti Evert Taube að geta bjargað sér úr klóm þess.

Dansinn á Suðurey

Þetta voru skemmtilegir tveir tímar sem við upplifðum þarna með snillingnum. Hugurinn sveif í hæðir hvað eftir annað og ég fékk á tilfinninguna að hugur Taubs hafi líka borist í hæstu hæðir þegar hann samdi svo margt af því sem á boðstólum var. Komi maður á skemmtun hjá leikfélaginu í Fjugesta, Revíunni sem þau kalla sig, þá er á boðstólum matur og drykkur til að taka með sér að langborðum. Svo situr maður bara mitt á meðal ókunnugra og hefur það notalegt og skemmtilegt. Þá verða kvöldin öðru vísi.

Það var líka öðru vísi að koma heim og líta sín eigin húsakyni. Sólvellir eru öðru vísi og hugurinn barst oft í hæðir þegar húsið var hannað. Einhver sagði í sjónvarpinu alveg nýlega að það þyrfti kjark til að vera öðruvísi. Að vera öðruvísi var líka að byggja öðruvísi. Samkvæmt því erum við Valdís öðruvísi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0