Að gera hlutina oftar en einu sinni

Það mun hafa verið um miðjan hlýindaveturinn 2006-2007 sem ég gekk nokkur skref til baka og horfði á það sem ég hafði gert og var harla glaður eins og svo oft þegar einhverjum áfanga er lokið. Þeir eru búnir að vera margir og margir eru eftir vona ég því að það er hluti af tilganginum að halda áfram.


Það var þetta sem ég horfði á og var ánægður. Ég var ekki í rónni fyrr en þakrennurnar og niðurföllin voru komin á fyrri útbygginguna hjá okkur. Að láta renna af þaki niður á jörð og ata út veggina, nei, það er ógeðslegt. Ég velti aðeins fyrir mér hvar ég ætti að láta niðurfallsrörið vera og svo ákvað ég að það yrði þarna.

Í fyrra þegar hann Peter gröfumaður kom til að fylla að grunninum á seinni útbyggingunni gekk hann um leið frá rörum fyrir þakvatnið. Þannig framkvæma Svíarnir það. Peter spurði mig með hraði hvort ég vildi láta niðurfallsrörin vera eins og ég hefði gengið frá þeim áður. Já sagði ég svolítið hissa. Allt í lagi sagði Peter og gerði svo eins og ég hafði gert áður og stillti upp plaströrunum sem taka við niðurfallinu. Svo var ekki meira með það.

Nokkru síðar kom Göran blikksmiður til að ganga frá þakrennum og niðurfallsföllum. Guðjón, sagði hann rólega og klóraði sér undir hökunni. Ertu viss um að þú viljir hafa niðurfallsrörin svona. Ég spurði hann hvað hann meinti. Já, veistu það að við látum niðurfallsrörin koma á hvíta hornið. Það er nú sænskt að gera það þannig því að það þykir falla betur að þessum hússtíl. Við gengum bakvið húsið og litum á fráganginn minn. Nei, það var fljótgert hvað mig áhrærði að gera þetta eins og Svíi. Mikill bölvaður klaufi hafði ég verið að athuga ekki hvort þetta væri regla. Hér hafði ég skapað mér aukaverkefni.


Peter stillti rörunum eftir mínum óskum og Göran setti niðurfallsrörin eftir mínum óskum og svo passaði ekki neitt. Þú getur lagað þetta næsta sumar sagði Göran en við björgum því þannig að það geti gengið í vetur. Í gær var ég að undirbúa stétt og hugsaði allan daginn um niðurföllin. Það gat bara ekki gengið lengur en ég hálf kveið fyrir greftinum og kannski líka hversu vel mér gengi að færa stútana. Þegar ég var tilbúinn með stéttarundirbúninginn nokkru fyrir hádegi í dag sótti ég hakann. Svo lagðist ég á hnén við fyrsta hornið, með haka og skóflu, og byrjaði. En bíddu nú við, ég þurfti ekki að grafa nema 30 sm.

Þetta skotgekk þrátt fyrir að hér í Krekklingesókn er ekki hægt að grafa utan að fá upp grjót, grjót, grjót. Ég ákvað að grafa allar fjórar holurnar í snatri og biðja Valdísi svo að koma út og segja álit sitt á einhverju. Þá mundi hún hæla mér fyrir dugnaðinn. En þegar ég var á fjórðu og síðustu holunni kom hún að mér í hamaganginum og spurði hvort ég ætlaði ekki að koma í mat. Æ æ! En hún hældi mér samt. Svo borðuðum við og svo skutumst við til Örebro til að kaupa 15, 30 og 45 gráu beygjur til að fá þessi blessuð rör til að passa saman.


Sannleikurinn er sá að þetta lítur hreinlega langtum betur út. Nú gat ég gengið einu sinni enn aftur á bak og verið ánægður með verkið.


Göran vissi örugglega hvað hann söng. Hefði Peter farið aðeins hægar fram og bent mér á hvernig Svíar gera þetta hefði hann sparað mér að skríða á jörðinni ári seinna. Ef ég hefði skoðað nokkur hús í nágrenninu og séð að allir gerðu þetta svona hefði ég líka sparað mér að slíta hnjánum á smekkbuxunum mínum. Nú er bara eftir að tengja þrjú niðurföll, greftinum er alla vega lokið og fyrsta tilraunin er gerð.


Þarna kemur átta fermetra stétt einhvern næstu daga. Næsta sumar á svo að koma pallur á hluta af stéttinni og snoturt handrið framan við dyrnar. Það á að verða huggulegt við aðalinnganginn á Sólvöllum. Þetta var allt þræl hugsað fyrirfram og það verður ekki neinn tvíverknaður við aðalinnganginn. Stéttirnar að húsabaki koma ekki til framkvæmda fyrr en næsta sumar. Gömlu niðurfallsuppsetningunni er ég viss með að breyta þegar ekkert verður að gera á Sólvöllum (Hvenær verður nú það).

Þetta með að Valdís þyrfti að hæla mér er reyndar aulabrandari en samt sem áður hælir hún mér oft og ég reyni að endurgjalda það. Og góður var lambaframparturinn sem hún bauð upp á í kvöldmat.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0