Næturrölt

Það er næturrölt hér hjá okkur á Sólvöllum. Í mold sem ég flutti frá verðandi stétt og jafnaði í skógarjaðrinum eina 20 metra frá Sólvallahúsinu fann ég í gær stór og djúp spor. Ég varð þungt hugsi og velti fyrir mér hvaða afleiðingar þetta mundi hafa hér í skóginum í vetur. Þar sem ég stóð þarna og horfði á sporin sem ég jú þekkti, þá leit ég við og horfði á eik sem var kannski 120 sm há í fyrradag. Núna var hún bara 100 sm eða svo. Stórir elgir elska nýju eikarsprotana og auðvitað minni elgir líka. Það voru fimm toppar sem elgurinn hafði étið og fyrir vikið kemur hver þeirra til með að fá eina þrjá til fimm sprota að ári Það verða því margir toppsprotar á þessu tré og ef ég vil hlú að því þarf ég að klippa það til í byrjun apríl að ári eða árið þar á eftir.

Í morgun stoppaði ég hann Lars ellilífeyrisþega og veiðimann þegar hann fór hér hjá og sagði honum frá þessu. Já, sagði hann. Ég fór líka heim til hennar Lottu í morgun og ætlaði að tína epli í eina fötu af eplatré sem stendur við húsið. Það var ekki eitt einasta epli eftir á trénu. Skammt undan sá ég elgskú með kálf og í dag er bannað að veiða svo að það var ekkert annað að gera en að biðja þau að bíða til morguns þegar við veiðimenn förum af stað aftur. Þau voru hvort sem er búin með eplin aftrénu. Þannig sagði hann frá. Lotta er dóttir hans og á heima hér rétt hjá. Elgveiðitímabilið stendur nú sem hæst.

Ég er enginn veiðimaður og hef gaman af að sjá þessi dýr fara hjá. En það er bara svo mikið algengara að þau fari hjá á nóttunni. Elgir eru orðnir svo margir að það er farið að valda gríðarlegum skaða í skóginum. Ég verð að viðurkenna að ég vil gjarnan fá frið með eikurnar í svo sem þrjú ár og þá get ég farið að velja hverjar þeirra ég vil hafa. Svo mega elgirnir hafa hinar. Elgskúna mega þeir í veiðifélagi Nalaví ekki skljóta en þeir mega veiða kálfinn. Dádýr sjást ekki hér um þessar mundir þar sem úlfurinn hefur verið á flakki hér. Þegar veiðibráð úlfsins er horfin fer hann líka og svo smám saman koma hin dýrin til baka. Það hlýtur að vera stressandi líf að vera dádýr og héri.

Ég ætlaði hins vegar að forðast stress sjálfur og setja reikningana í greiðslu í tíma. Svo þegar ég tók fram reikningana og fór að raða þeim fyrir framan mig var eins og þeir ætluðu aldrei að taka enda. Ég held nú bara að ég hafi aldrei áður þurft að borga svo marga reikninga í einu og það gerði mig stressaðan. Svo lagði ég saman upphæðirnar á þessum voðans haug og þá varða lífið rólegra á ný. Þeir voru mjög margir en frekar lágir. Nýskupúkinn í mér róaðist við þetta. Svo settist ég við tölvuna og gekk frá greiðslunum. Sælir eru þeir sem eru búnir að borga reikningana sína því að þeir geta sofið vel í nótt.

Ég er búinn að hafa þrjá daga heima frá vinnu en það hafa svo sem ekki verið neinir letidagar. Ég fæ mína letidaga þegar minn tími kemur. Þá fæ ég mér hatt og staf og geng um eignina milli eika og tígullegra bjarka svo ég nú ekki tali um beykitrén og öll hin trén. Þess á milli get ég tekið hálfan daginn í að blogga um lífið og tilveruna og skreppa svolítið hingað og þangað með Valdísi. Svo þarf ég að taka hann nafna minn mér við hönd og skoða tilveruna. Við getum farið mitt inn í burknaþyrpingarnar og horft upp í háar trjákrónur og dásamað þessi undir lífsins. Það verður margt að tala um.

Myrkrið umlykur húsið og hvort elgskú með kálfinn sinn er nú komin á kreik í skóginum okkar veit ég ekki. Ég veit hins vegar að kyrrðin er alger og ef það væri léttskýjað mundi vera skyggni til að sjá stjörnuþokur út í óravíddinni fyrir ofan okkur. Sólstólar eru teknir inn á haustin en það væri ekki úr vegi að grípa til þeirra einnig á vetrarkvöldum. Að leggja sig í sólstól og horfa á stjörnuhimininn er nokkuð sem mér bara datt í hug rétt núna þegar ég skrifa þetta. Hver veit hvað ég á eftir að gera? Ég veit þó alla vega að ég ætla að fara að hitta vininn minn Óla L og undir ullarfeldinum ætla ég að búa mig undir nýja vinnutörn og vera hress miðað við aldur og fyrri störf.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0