Syndaselur

Í meira en ár hefur eiginlega allur kraftur verið settur í að gera einfalda sumarbústaðinn sem við keyptum 2003 að einbýlishúsi. Ekki er þeirri vinnu lokið, en það er ekkert lengur sem hreinlega "verður" að gera í dag eða alla vega sem allra, allra fyrst. Húsið er orðið mjög vel íbúðahæft og mjög gott hús að auki. Allan tímann sem þetta hefur staðið yfir hef ég líka verið í all mikilli vinnu á mínum gamla vinnustað, þeim vinnustað sem ég ætlaði að hætta að vinna á í mars 2007.

Það er svo notalegt að kúra aðeins lengur í rúminu á morgnana þegar ég get gert það með góðri samvisku og geta áhyggjulaust talið plöturnar í loftinu eða horft einu sinni enn og einu sinni enn á hvernig ég munstraði þær fyrir þremur og hálfu ári. Þá er ég að tala um það sem fyrst var byggt út og átti að verða eina og síðasta stækkunin á Sólvallahúsinu. Það var einmitt þetta sem ég gerði í morgun, alveg áhyggjulaust, og um leið hvíldi ég mig og bjó mig þannig undir að vera í mikilli vinnu í næstu viku.

Ég ætlaði svo sem ekki að liggja í leti allan daginn, gleymdu því bara. Svo fórum við seint á fætur og tókum langan, langan tíma í morgunverðinn. Það var ekki fyrr en um ellefu leytið sem ég fór út, skipti um annan kjálkann á betri hjólbörunum, tók mér haka í hönd og skóflu og byrjaði að grafa burtu jarðveg framan við aðalinnganginn og hreinsa þannig ofan af þykku malarlagi sem er skammt undir grassverðinum á allri lóðinni í kringum húsið. Ég var með þessu að undirbúa að helluleggja stétt framan við forstofuna. Svo borðaði ég léttan hádegisverð.

Það fór auðvitað eins og genjulega þegar maður tekur sér haka og skóflu í hönd hér í Krekklingesókn að grjótið sló á móti hakanum í fjórða hvert skipti sem ég barði jörðina með honum. Ég valdi að fjarlægja þessa miðlungs stóru steina til að þeir mundu ekki seinna fara að stinga kollinum upp í hellurnar og lyfta þeim. Þegar ég var kominn bara lítillega af stað með þetta verk fann ég að ég hafði tekið því nokkuð rólega allra síðustu vikurnar. Mér fannst þetta erfitt og ég varð móður. Oj, hvað ég var linur af mér. Ég studdi mig fram á hakann og reyndi að finna afsökun fyrir linkunni og svo hélt ég áfram svolitla stund og svo stoppaði ég aftur.

Ég setti mér markmið til að ljúka við áður en Annelie og Kjell kæmu, en þau eru miðaldra hjón sem við hittum æði oft. Svo komu þau um hálf tvö leytið og þá hafði ég ástæðu til að skipta um föt og fá mér af nýju jólakökunni sem Valdís bauð upp á. Kjell hafði ekki séð húsið all lengi þannig að ég var eins og sperrtur hani við að sýna honum og útskýra allt mögulegt. Kannski átti ég von á hrósi í staðinn og það vantaði ekki á það þegar Kjell barði allt þetta nýja augum.

Sannleikurinn er sá að þegar ég byrjaði aftur eftir þessa heimsókn, þá hafði mér aukist Ásmegin. Nú gekk mér vel að grafa og ég þeytti hakanum hátt á loft til að koma honum djúpt niður með grjótinu sem ég hreinsaði burtu og ég varð ekki lengur móður. Í morgun vissi ég ekki hvort ég mundi ljúka þessum áfanga í dag, en honum er einfaldlega lokið. Ég náði líka að taka inn alla málningu sem ekki má frjósa og koma henni í skáp í þvottahúsinu. Það er nefnilega spáð frosti í nótt.

Eftir kvöldmatinn vappaði ég fram og til baka hér innan dyra og stoppaði oft við eldhúsbekkinn. Þar geymdi Valdís í dunk næstum því heila jólakökuna sem við fengum okkur af í dag. Jólakakan dró og hún dró og að lokum hellti ég kaffi í bolla og gerði það þannig að það heyrðist vel hvað ég var að gera. Svo þegar ég fékk mér af jólakökunni fór ég hljóðlega og lét sem ég væri bara að fá mér svona smá sopa af kaffinu þarna við eldhúsbekkinn. Ég áttaði mig fljótt á því að þetta líktist feluleiknum fyrir meira en 20 árum þegar það voru mikið alvarlegri hlutir en jólakaka sem ég var að laumast með.

Ég færði mig að matarborðinu og borðaði þar jólakökuna næstum því við hliðina á Valdísi þar sem hún horfði á sjónvarp. Ég var með hálf vonda samvisku og svo stóð Valdís upp vegna þess að rjómaísinn í frystinum dró hana til sín. Svo syndguðum við bæði og ég olli syndinni eins og höggormurinn í Eden forðum. Ég var það snemma á ferðinni með jólakökuna að ég mun væntanlega ekki fá brjóstsviða þegar ég legg mig í kvöld í kærkomið rúmið til að hvíla mig fyrir athafnir morgundagsins. Ég fer þó ekki í vinnu fyrr en á mánudag.


Kommentarer
Þórlaug

Nú fór ég að hlæja þegar ég las bloggið og hugsaði um hraunbitana sem ég syndgaði með áðan :-))



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2011-10-09 @ 00:29:35


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0