Sjónvarpsmessan

Sjónvarpsmessan í morgun var fín, reglulega góð. Það var eins og venjulega þegar sjónvarpsmessan hefur verið góð að allar mögulegar hugsanir fóru af stað og ég skal viðurkenna að helst hefði ég viljað setjast við tölvuna strax eftir messuna og byrja bloggið sem ég er nú að byrja á hátt í sex tímum seinna. Ég ætla að gera tilraun til að komast inn í andagiftina sem ég fann mig í um það leyti sem messunni var að ljúka.

Snemma í messunni las unglingur ritningarorð, ljóshærð stúlka með uppsett hár og á þessum ljósbláu, þröngu gallabuxum sem táningar klæðast. Og þó að hún væri ung og væri á gallabuxum fór henni vel að gera þetta. Hún minnti mig á hana Guðdísi dótturdóttur mína, en ég hafði verið að skoða myndir af henni skömmu áður en ég fór að horfa á messuna. Stuttu síðar í messunni var sunginn sálmurinn Ó stóri Guð, sálmurinn sem hefur verið þýddur á fleiri tungumál en nokkur annar sálmur svo þekkt sé. En svo skrýtið sem það nú er hefur okkur Valdísi ekki tekist að sjá að þessi sálmur hafi verið þýddur á íslensku eða að hann sé sunginn þar. Hafi ég rangt fyrir mér vil ég gjarnan vita það.

Ég hef nefnt þennan sálm eða lofsöng áður í blogginu mínu, en höfundur textans er prestur að nafni Carl Moberg og það var mikið þrumuveður sem hann upplifði á eyjunni Oknö austan við suður Svíþjóð sem gaf honum innblásturinn að þessum fallega texta árið 1885. Lagið er sænskt þjóðlag. Hér má heyra sálminn http://www.youtube.com/watch?v=gPwIiR7nUx0&feature=related

Nítján ára þeldökk kona steig fram og sagði sögu sína. Faðir hennar kom til hennar fyrir þremur árum síðan í landi sem hún ekki nefndi. Hann spurði hana hvort hún mundi vilja flytja með sér til lands sem héti Svíþjóð. Henni var brugðið við þessa spurningu og spurningin setti hana í mikinn vanda. Stærsti vandinn var að hún kunni ekki eitt einasta orði í tungumáli þessa lands. Hún sneri sér til prestsins síns og spurði hann hvað hún ætti að gera í þessu máli. Hann ráðlagði henni að spyrja Guð og hún spurði Guð en hún sagði ekki hvernig samskipti hennar við hann um þetta mál fóru fram. En hún fékk svar og svarið var að hún skyldi fara. Þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífi mínu sagði hún að lokum og það var ekki annað að heyra á máli hennar en að sænskan væri hennar móðurmál.

Þegar þarna var komið hugsaði ég til sjálfs mín og langra andvökunótta á Laugarnesvegi 47 áður en ég fór fyrst til Svíþjóðar. Sálarástand Valdísar var svipað en við ræddum það ekki mikið þá. Ég ræddi þetta alls ekki og gekk með áhyggjur mínar í hljóði og vissi vel að ef við nýttum okkur ekki það tilboð sem við höfðum fengið, fengjum við slíkt tilboð aldrei framar. Við vorum of fullorðin til að tilboð um vinnu í öðru landi bærist oftar en einu sinni. Við skruppum í heimsókn að Kálfafelli rúmum mánuði áður en ég lagði af stað út. Í þeirri ferð komum við við hjá henni Steinunni föðursystur minni á heimili aldraða í Vík. Hún spurði hvort ég kviði ekki fyrir. Nei, svaraði ég, ég kveið ekki fyrir. Ég held að hún hafi verið ein um að spyrja mig um þetta og auðvitað hefði heldur ekki verið rétt af mér að bera áhyggjur mínar upp við gamla konuna sem þá var orðin ekkja. Ég held varla að hún hafi trúað mér.

Undir messunni varð mér hugsað til Fríðu systur minnar þegar hún fór á lýðháskóla í Svíþjóð fyrir meira en fjörutíu árum síðan. Og það var ekki nóg fyrir hana að koma til Arlanda flugvallar í Svíþjóð. Það var engin einföld leið að taka sig þaðan til lýðháskólans langt vestur í Värmland. Ef ég man rétt fór Jón Sveinsson út með haustskipinu og mömmu hans barst bréf með vorskipinu þar sem hann segir frá því að hann hafi komist alla leið til Kaupmannahafnar. Það má ætla að margir í þessum sporum hafi upplifað sínar andvökunætur.

Í predikun sinni talaði presturinn um það að hann hafi á ungum árum vantað eitthvað æðra og sterkara til að sækja kraft til. Og hann gaf gott dæmi um að þessi kraftur finnst um allt og nefndi nokkrar stórar og stæltar furur sem stóðu við heimili hans á þessum árum. Á erfiðum stundum gekk hann út og horfði á þessi stæltu tré sem lifðu af vinda og kalda vetur og stóðu af sér raunirnar. Svo tóku þau á móti sól og sumri þegar þar að kom og rauðbrúnn börkurinn endurkastaði sólargeislunum og háar krónurnar vörpuðu skuggum á landið í kring. Fyrir honum var þetta eitthvað svo stórt að raunir hans urðu litlar. Það er hægt að finna andlegheitin á margan hátt og ég mun nota mér þessi orði prestsins í fyrirlestur á þriðjudaginn kemur.

Ég horfði ekki á neinar furur á erfiðum stundum en ég hugsaði oft með mér að í kvöld setst sólin að vanda en hún muni líka koma upp á morgun og þá verði ég enn á lífi. Það var styrkur í því. Árin í Svíþjóð áttu ekki að verða svo mörg en þau hafa orðið fleiri en okkur óraði fyrir og þær eru margar stæltu fururnar sem hafa orðið á vegi okkar og hafa með mætti sínum fyllt okkur af aðdáun þegar vindar blása og háar krónurnar sveiflast í viltum dansi. Við sjáum ekki eftir ákvörðun okkar frekar en þeldökka stúlkan í messunni þó að ákvörðuninni hafi fylgt margar hliðar.

Andagiftin sem ég fann fyrir eftir messuna kom ekki til baka þegar ég leitaði hennar undir kvöldið. Það er þannig með andagiftina að hún kemur að eigin köllun en hún kemur ekki eftir annarra kröfum. Hún er auðmjúkari en svo.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0