Sunnudagur til sælu

Við vorum í Suðurbæjarkirkjunni (Sörbykyrkan) undir kvöldið. Kórinn sem Valdís var í áður en við fluttum frá Örebro, Korianderkören, hafði svokallað kórkaffi og við förum oft þangað þegar þessi kór býður upp á glaðan söng. Og það var einmitt glaður söngur þar núna eins og alltaf. Það voru sungin lög frá sjöunda áratugnum og kórinn var að æfa þegar við komum í kirkjuna vel tímanlega. Þá fannst okkur sem þetta yrði ekki eins skemmtilegt sem við höfðum vænst. En svo varð klukkan sex og kórinn steig fram og þá varð fjör.

Í seinni hlutanum voru sungin tvö lög eftir mann sem hét Ted Gärdestad. Lögin hans textar eru mjög falleg en þeim fylgir oft nokkur tregi. Það var nefnilega svo að hann var allt of ungur þegar hann valdi að greiða götu sína inn í eilífðina á mjög afgerandi hátt. Það urðu því ekki fleiri lög sem hann gerði og Svíar segja að það hafi verið mikill skaði fyrir sænskan tónlistarríkidóm. Ég læt hér fylgja eitt lag sem hann syngur sjálfur en ég kann ekki nógu vel að setja svona slóðir inn á bloggið mitt. Ég vona samt að það virki. www.youtube.com/watch?v=_kSdTPigq60

--------------------------------------------------------

Meðan byggingarframkvæmdir stóðu sem hæst hér í fyrrahaust reisti ég geymslutjald einhverja helgina. Þegar Anders smiður kom eftir þessa helgi varð honum að orði að við værum búin að tjalda og svo ekki orð um það meir. Nokkru síðar vorum við Anders að taka saman bæði verkfæri og efni og settum þá undir þennan tjaldhimin. Þá varð Anders að orði eitthvað á þá leið að þetta væri hreinlega eitthvað það allra besta af mínum uppátækjum.

Svo varð það með þetta tjald eins og svo oft með það sem maður er búinn að venja sig við að við hættum að sjá það. Og þó? Jú, tjaldið var reyndar hið mesta lýti á þessari fallegu sveit og smám saman fórum við að skammast okkar fyrir það. Það var dálítið af smíðaefni í því og hann Arnold bóndi lánaði okkur smá horn í einu af hans stóru útihúsum og þar er nú þetta smíðaefni. Hlutverki tjaldsins var þar með lokið. Eftir messu í morgun átti því að rífa tjaldið og stuttu eftir messuna þegar ég var að renna niður ljúfum kaffisopa spurði Valdís kona mín hvort það væri ekki kominn tími til að byrja.

Þar með gengum við fylktu liði með hamra og kúbein móts við blessað tjaldið sem hafði ekkert hlutverk lengur og að einum og hálfum tíma liðnum var þessi bygging jöfnuð við jörðu. Að fjórum tímum liðnum var allt snurfusað, frágengið og hreint og kerran rétt einu sinni enn full af drasli sem fer á endurvinnslustöðina í næstu viku.

Það má kalla þetta enn einn áfangann hjá okkur á Sólvöllum. Nóttin sem leið var einum klukkutíma lengri en aðrar nætur þar sem klukkunni var breytt í nótt. Því gaf ég mér tíma til að liggja um stund undir feldinum og horfa upp í þakið og velta fyrir mér hversu margir vinnutímar væru eftir hér við byggingarvinnu þangað til venjuleg umönnunarvinna tekur við. Ég komst að því að það eru ekki svo rosalegsa margar vinnustundir og það gerir að verkum að við förum að leika okkur aðeins meira. Það eru nýir tímar í sjónmáli.

Hér eru myndirnar hennar Valdísar sem sýna talsvert af því sem skeður á Sólvöllum: http://www.flickr.com/photos/valdisoggudjon/

Svo má ég til með að sýna muninn sem varð á þegar tjaldið hvarf.


Fyrir tjald.


Eftir tjald. Allt annað að sjá þetta. Nú erum við sveitasómi. Kerran stendur þarna fullhlaðin eins og fyrr er sagt. Smá efnislager er lengst til hægri og vinstra megin við hann er girt með hænsnaneti kringum og yfir eikarplöntu sem er jafn gömul honum nafna mínum. Dádýrin átu blöðin af eikarplöntunni fyrsta sumarið og þá var ekki um annað að gera en byggja yfir. Svo mun þurfa að gera næstu árin. Eikarblöð eru sjálfsagt afar bragðgóð. Kannski þau séu góð í salat!


Sólvallahúsið er gott hús, hlýtt og vinalegt bæði utan og innan. Í Sólvallahúsinu líður fólki vel. Aðal vinnan, ekki eina vinnan, en aðal vinnan er að gera sökkul undir gamla hlutann. Það kannski lætur rosalega stórt en um mitt sumar þegar verið var að byggja hjá nágrönnunum datt Íslendingnum nokkuð í hug. Þá féll þungur steinn. Málið varð allt í einu svo einfalt. Ég hef borið þetta undir nokkra fagmenn og meðal annars hann dótturson minn í Noregi. Allir segja að þessi aðferð sé pottþétt. Ég kem auðvitað til með að blogga um það þegar þar að kemur.


Kommentarer
Rósa

Hæ,



Sé að mér mistókst að skila skilaboðum í gær. Ætlaði bara að segja að stéttin er MIKIÐ flott. Og svo var fínt að lostna við tjaldið. En maður á ekki að tala illa um tjaldið, það gerði mikið gagn!



Kveðja,



R

2011-11-02 @ 09:26:28


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0