Hissa

Ég var nú bara aldeilis stein hissa í morgun þegar ég reiknaði út að ég hefði sofið hátt í tíu tíma. Og það var enginn lélegur svefn það og varla að ég hafði mig upp þegar ég hreinlega varð að fara minna ferða fram á bað um hálf sex leytið. Svo man ég hreinlega ekki eftir því að ég kom til baka svo að fljótt hef ég sofnað. Já, fólki hlýtur að líða mikið betur yfir að geta lesið um þessar athafnir mínar.

Það var annríkis vika þessi vika sem er að renna inn í fortíðina. Ég vann tvö kvöld í Vornesi og það er bara töluvert að vinna tvö kvöld í sömu vikunni, samtals 33 tímar, og svefninn þessar tvær nætur verður of stuttur. Svo var dálítið annað á dagskrá í þessari viku. Ég var að undirbúa hellulagningu sem átti að fara fram í dag og sem fór fram í dag. Það var löngu ákveðið. Ég þurfti að sækja tvær kerrur af hellum inn í Marieberg í Örebro og eina kerru af sandi í Syðri malarnámuna, jafna betur og troða undir hellurnar og eitthvað fleira sem fylgdi þessu eins og öðrum smáverkefnum á Sólvöllum.

Þessi hellulagning er eitt af þessum frábæru verkefnum sem eru svo skemmtileg fyrir það að það er hægt að ganga nokkur skref til baka, virða fyrir sér og hugsa sem svo: Mikið er þetta nú fínt, og ennfremur; gaman að þetta er búið, og einnig; nú berast ekki óhreinindi inn á nýju parketgólfin. Svo var auðvitað myndavélin á lofti og Valdís tók myndir af mér og ég tók myndir af verkinu fullgerðu. Nú er hellulagningin við aðalinnganginn á Sólvöllum komin í myndabók sögunnar. Kannski virðist það barnalegt að að svona smá verkefni skapi þá lífsgleði sem ég tala um og að ég næstum hoppi af kæti. En ef slíkt smátt nægði til að skapa hamingjustundir fyrir sem flesta væri heimurinn öðru vísi en hann er. Nægjusemi er dyggð og ég þreytist aldrei á að predika þann boðskap.


Ellilífeyrisþegi að störfum. Birtu var farið að bregða þegar verkinu var lokið þannig að það verður að taka nýjar myndir af því á morgun. Miklar lýsingar þetta; "þegar verkinu var lokið".

Það er notalegt kvöld núna eftir góða sturtu og þessa líka góðu hvíld síðastliðna nótt. Ungu nágrannarnir litu inn seinni parttinn í dag og höfðu orð á því að það þær hefðu gengið hratt byggingrframkvæmdirnar hjá okkur. Það er mikið til í því. Það var eins og það væri svolítill tregi í þeim þegar þau töluðu um þetta. Þau eru líka að byggja og það voru þrír og fjórir smiðir hjá þeim seinni helminginn af sumrinu. Nú er viðbyggingin hjá þeim fokheld og þau ætla svo að innrétta sjálf.

Já, það var svolítið þreytuhljóð í þeim. Þau eru bæði í fullri vinnu, eiga tvær dætur, tveggja og fimm ára, og það eru ekki alltaf svefnsamar nætur og ekki svo oft sem þau fara úthvíld í vinnu og þá méð dæturnar á leikskólann fyrst. Við Valdís vorum að ryfja upp hvernig þetta var hjá okkur og þá var oft verið að vinna fram á kvöld. Mikið mundum við vera lélegir smábarnaforeldrar í dag. Við þurfum meira næði á eftirmiðdegi lífsins. Stína nágranni sagði líka þegar þau voru að leggja af stað heim að þau mundu geta sofið oftar út þegar þau kæmust á okkar aldur. Hún virtist hugga sig við það.

Það verður ekki hreinn hvíldardagur hjá okkur á morgun. Eftir langan morgunverð og sjónvarpsmessu frá Gautaborg ætlum við út til að hreinsa upp hingað og þangað. Það er ekki nóg að atast í framkvæmdum og skilja óreiðuna eftir út um allt. Við ætlum að gera svolítið fínt ef allt gengur eftir. Svo er kaffiborð með söng í kirkjunni þar sem við bjuggum áður og við ætlum að skreppa þangað og sýna okkur og sjá aðra.




Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0