Umhverfisvænt

Það var síðastliðinn vetur að það mesta var á öðrum endanum hér heima. 40 m2 af gólfi, eða allt gólfið í gamla húsinu lá úti í skafli, bráðabyrgðaeldhúsið var í suðurendanum og svefnherbergið í norðurendanum og ekkert gólf á milli. Í fáeina daga þurftum við að fara út og svo hálfhring kringum húsið til að komast í eldhúsið og jafn marga daga þurfti að fara út til að komast í baðherbergið. Þá var auðveldara en ekki að fá óhreinindi inn um allt og það var ekki vandalaust að forðast skítinn inn í svefnherbergið, í þvottahúsið og á tvö önnur gólf sem þá voru ný.


Bara svo að fólk viti hvað ég er að tala um. Þessi mynd var tekin í byrjun febrúar þegar þeir Johan smiður hinn ungi og Anders smiður voru að enda við að henda út gólfinu. Myndin er tekin úr svefnherbergisdyrunum og dyrnar sem þá voru inn í bráðabyrgðaeldhúsið eru lengst frá til hægri.

Eitt sinn þegar við vorum í verslun á þessum tíma rákumst við af tilviljun á ódýrar mottur sem okkur sýndist vænlegar til að setja hingað og þangað til að forðast óhreinindin. Ég held að við höfum keypt einar fjórar mottur, mottur sem ekki mátti þvo, og svo ætluðum við bara að henda þeim. En þannig var málið að þessar mottur litu bara skínandi vel út þangað til þær voru orðnar alveg rosalega drullugar. Þá sagði Valdís að það hlyti að vera allt í lagi að reyna að þvo þær við lágan hita, það væri þá engu að tapa. Ég var alveg sammála. Við ryksugðum eina mottuna og svo var hún sett í þvottvélina.

Eftir einhverja stund fannsat Valdísi að þvottavélin hagaði sér eitthvað einkennilega. Hún stoppaði vélina og leit inn í hana. Þá lá þar haugur af einhverri virkilega ógeðslegri leðju og í þessari leðju var þvílik ógnar flækja af nokkru sem líktist snæri. Valdís varð skelkuð og hóf nú að tæma þvottavélina og var það heil mikið verk. Síðan losuðum við balann með þessum óþverra út bak við húsið og Valdís þrælaði lengi við að þrífa vélina. Hún var dauð hrædd um að hún væri búin að eyðileggja hana og að frárennsli mundi stíflast. Þessar áhyggjur voru að vísu óþarfar, bæði  þvottavél og frárennsli náðu sér eftir ósköpin.

Bakvið húsið lá viðbjóðslegur haugur. Leðjan sem ég nefndi áðan fannst mér líkjast hundaskít sem hefði verið hrærður út í vatni og leðjan svo gerð þykkri með kartöflumjöli. En eitt var víst að þessi haugur var mikið eitraðri en hundaskíturinn. Ég gekk í kringum viðbjóðinn og hugsaði sem svo að við vissum ekki alltaf hvað við værum að kaupa, og þó að við hefðum reynt að lesa á miðann sem hafði verið aftan á mottunni meðan hún var og hét, þá hefðum við ekki haft minnsta vit á hvað þær upplýsingar þýddu. Það er ekki auðlifað í þessum heimi og það finnst mikið af eiturefnum. Lífið er hættulegt. Ég varð hugsi eftir þetta því að ég vil ekki stuðla að því að eitra þennan heim nema sem allra, allra minnst


Í ágúst bloggaði ég um ullarferð til Stokkhólms og það blogg má finna hér. http://gudjon.blogg.se/2011/august/ullin.html  Í þessari ferð voru kynntar fyrir okkur umhverfisvænar vörur og vörur úr hreinni ull hljóta að vera eins umhverfisvænar og frekast má vera. Við fjárfestum fyrir mikinn pening í þessari ferð og gerðum það vegna þess að við vorum alveg 100 % viss um að varan sem við keyptum væri mjög hrein afurð. Sagan um mottuna hafði mikil áhrif á að þessi kaup voru gerð. Ég ætla ekki að endurtaka það sem finnst í blogginu um þessa ferð í ágúst, en nú ég ætla að kynna þessa vöru svolítið ef einhver skyldi hafa áhuga.


Hér er mynd af einu setti af ullarrúmfötum. Það er yfirdýna úr ull sem er fest með teygjuböndum á rúmið. Þessari yfirdýnu má líkja við tvö teppi sem eru fest saman með röndóttu köntunum. Svo er það koddaver úr alveg sama efni, fyllt með efni sem á að vera jafn umhverfisvænt og ullin. Að lokum er það sængin sem er eiginlega alveg eins útbúin og yfirdýnan utan að hún er 140 sm breið. Þetta lítur býsna mjúklega út eða hvað? Merinoullin er mjúk, það er óhætt að segja. Við notum ekki nein sængurver eða lök en við notum koddaver ef okkur skyldi nú dreyma að við værum að borða veislumat, þá kannski mundi renna munnvatn í koddana og við tímum því ekki.


Hér er svo aðeins meiri nærmynd. Mér finnst alla vega að mjúkleikinn sjáist all vel á myndinni, en kannski er það vegna þess að ég þekki þetta orðið. Ég get lofað að það var spennandi þegar við lögðum okkur í rúmið fyrsta kvöldið. Ég er 92 kíló, en þegar ég lagðist í fyrsta skipti í þennan mjúka feld fannst mér sem ég vegði ekki nema kannski helminginn af því. Það var dásamleg reynsla.

Hver er kosturinn? Jú, það er jafn hiti alla nóttina. Við drögum sængina upp að eyrum, upp að höku eða hnakka þegar við leggjumst útaf og svo er hún þar alla nóttina og hitinn er mátulegur og jafn á öllum líkamanum til næsta morguns. Við sofum í lengri áföngum og jafnvel óslitið alla nóttina. Þó að rúmfötin séu mátulega hlý lofta þau líka vel og skila svita í gegnum sig. Þessi rúmföt eru svo notaleg að það er sannkölluð tilhlökkun að leggja sig á kvöldin, tilhlökkun í viðbót við það að vilja fara að hvíla sig. Okkur verður hlýtt á fótunum á fáeinum mínútum eftir að við leggjum okkur. Þann mánuð sem við erum búin að hafa þessi rúmföt hef ég aldrei orðið syfjaður við akstur úr og í vinnu, en syfjan er mjög lengi búinn að vera ljóður á þessum löngu ferðum mínum áður. Þó tel ég að ég hafi sofið mjög vel á nóttunni áður líka. Seljandinn vill meina að rykmaurar þrífist illa eða ekki í ullarrúmfötum, en vísindin draga það mjög í efa.

Ég hringdi í sölumanninn daginn eftir að við pöntuðum rúmfötin og sagði honum að hann hefði trúlega gefið vissar villandi upplýsingar. Í lok þess samtals sagði hann einfaldlega að hvað sem öllu liði mundum við verða mjög ánægð með kaupin þegar við yrðum farin að nota vöruna. Þar hafði hann rétt. Rúmfötin skulu helst ekki sett í þvottavél. Best er að viðra þau vikulega og við viðrun hreinsar ullin sig. Svo er til nokkuð sem heitir ullarsjampó og það er gott að úða því nokkrum sinnum á ári á rúmftin og ryksuga svo. Það má líka einfaldlega ryksuga án þess að hengja út til viðrunar. Þetta lætur kannski sem lygasaga en það er bara svona sem það er. Ég veit ekki hvort þessi vara er til sölu á Íslandi.

Íslenska ullin skiptist í tog og þel. Ég ímynda mér að þelið sé jafn mjúk ull og sú sem er í þessum rúmfötum. Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0