Dagur 1 nýbygging

Korter yfir sjö í morgun kom Anders á rauða rúgbrauðinu og steig út úr bílnum með kaffibolla í hendinni. Ég spurði hann hvort hann kæmi einn og hann sagði að það væri ekki tilbúið fyrir marga að vinna við svo litla byggingu. Hinir kæmu á morgun. Ég tók þessu vel og treysti því að hann vissi best. Ég spurði hann hvenær límtrésbitinn þyrfti að vera kominn á staðinn og hann svaraði alveg um hæl að hann yrfti að vera kominn í fyrramálið. En vindskeiðarnar? Seinni partinn á morgun. Ja, hvert í þreifandi, og efnið í vindskeiðarnar var ekki komið á staðinn heldur og var þar að auki ómálað. Þarna vorum við nú báðir sekir en svona uppákomur eru ekki til að eyða tíma í að finna sökudólga, heldur til að leysa þær. Ég ætlaði þá að fara með Valdísi til Örebro og koma því í kring að allt efni kæmi á staðinn á réttum tíma. Svo byrjaði Anders að vinna, öruggur, hnitmiðaður og iðinn. Ég ætlaði að taka að mér að gera ákveðna hluti áður en ég færi og nú þurfti ég að vera fljótur og hvað gerir ellilífeyrisþeginn þá. Fer að hlaupa! Nei, alls ekki. En ég jók taktinn eitthvað.



Þarna er Anders að taka saman verkfærin sín. Ég sagði áðan að hann hefði unnið öruggur, hnitmiðaður og iðinn. Það er enginn hamagangur í honum þegar hann vinnur en afköstin alveg ótrúleg. Fólk sem fór framhjá eftir að hann fór hafði orð á því að nú hefði mikið skeð og hvort smiðirnir hefðu verið margir. Ég vil líka segja Anders það til ágætis að hann er afar þægilegur í viðmóti og góður að vinna með. Engin af hugmyndum mínum er svo vitlaus að það hann vilji ekki ræða hana og svo koma niðurstöður.


Í gær tók ég mynd af viðbyggingunni frá ljósastaurnum og svo gerði ég líka núna rétt fyrir myrkur. Klukkan var hálf þrjú þegar Anders fór og þarna sjáum við árangurinn. Mitt hlutverk var að rífa burt gamla panelinn, útvega meira efni og mála vindskeiðar. Lítillega handlangaði ég en ég get ekki tekið á mig mikinn heiður af þessu en við erum himinlifandi yfir afköstum dagsins.


Þarna liggur límtrésbitinn í svörtu plasti og þrettán sekkir af einangrun. Svona lítur út á Sólvöllum í dag. Ég ætla ekki að ljóstra því upp hvernig þetta mun líta út á morgun en ég kem til með að taka enn eina mynd frá ljósastaurnum annað kvöld. Litli vörubíllinn kom nefnilega frá byggingarvöruversluninni rétt eftir hádegi.

Nú er ég ánægður með þessa dagbókarfærslu og ef einhverjir vilja lesa hana þá er það svo velkomið.


Kommentarer
Rósa

Vá, það gerðist greinlega fullt í dag. Komnir veggir!!



Þetta verður mikið fínt herbergi.



Kveðja,



R + P

2010-08-31 @ 22:34:30
Guðjón Björnsson

Já, þetta verður mikið flott herbergi og mikið flott hús.



Kveðja frá mömmu og pabba, ömmu og afa

2010-08-31 @ 22:45:06
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Það bara rokgengur, frábært.

VG

2010-08-31 @ 23:34:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0