Gömul skrif

Það var föstudagsmorgun og ég var búinn að vera tæpan sólarhring í Vornesi. Ég var þá búinn að vinna fyrir því sem ég kalla stundum "einn glugga með þreföldu gleri". Klukkan var orðinn hálf tíu og það var komið morgunkaffi sem það er kallað og þá mætir allt starfsfólkið og fær sér það sem var kallað hálf tíukaffið í Hrísey i den. Ég var að útbúa mér te í bolla þegar ég sá kunnuglegan, hæglátan mann koma inn í húsið og virða fyrir sér aðstæður, eða kannski öllu frekar að gá hvort hann þekkti ekki einhvern. Ég ímyndaði mér að hann væri tæplega fimmtugur og greinilega var hann finnskur. Ég heilsaði og sagði honum að við hefðum örugglega hittst áður en ég kæmi ekki fyrir mig neinu nafni. Ég fæ að segja það oft nú til dags.

Jú, við höfum hittst áður sagði hann, ég var hér innskrifaður fyrir tveimur árum og kem núna í tilefni af því. Ég heiti Seppo, sagði hann, og nafnið staðfesti að hann var finnskur (þó ekki hans eiginlega nafn). Af því að líf mitt breyttist hér fyrir tveimur árum langaði mig til að koma og virða staðinn fyrir mér og athuga líka hvort ég kannaðist ekki við einhvern. Það á að vera minn háttur á að halda upp á tveggja ára afmækið mitt.

Svo bauð ég honum kaffi sem hann þáði og við settumst niður. Fyrir honum voru þetta stór tímamót og það var það virkilega. Okkur finnst það líka sem vinnum við þetta. Ég ákvað því að gefa honum tíma eins og hann óskaði og bara taka því rólega með honum. Ég mundi koma heldur seinna heim en það var þess virði. Þetta var heldur alls ekki í fyrsta skipti á vinnuferli mínum í Vornesi sem eitthvað svipað átti sér stað.

Hann sagði mér að ég hefði verið orðinn ellilífeyrisþegi þegar hann var í meðferð og það kom mér heldur ekki á óvart. En hann sagði einnig að ég hefði unnið all mikið á þeim tíma. Við töluðum mikið saman sagði hann og svo taldi hann upp ákveðna hluti sem við hefðum rætt. Hann byrjaði nú að koma mér kunnuglega fyrir og ég minntist vissra hluta sem hann talaði um. Hann hafði verið áhyggjufullur vegna þess að hann hafði lítið eigið fyrirtæki og var hræddur um að fá engin verkefni þegar hann kæmi til baka, að hann yrði kominn á kaldan klaka eftir að hafa ekki verið viðstaddur í heilan mánuð. Ég hafði reynt að sannfæra hann, eins og marga aðra, um að frumskilyrðið fyrir vinnu fyrir fyrirtækið hans væri að hann næði tökum á sínum málum. Ef ekki, skipti engu máli þó að hann fengi verkefni, hann mundi ekki geta annast þau. Hann hafði að lokum farið að trúa á þau rök. Nú var hann undirverktaki hjá einu af stærstu byggingarfyrirtækjum í Svíþjóð og hafði alltaf jafna vinnu og hann virtist hafa fest sig vel í sessi.

Ég spurði hann hvort það væri ekki þreytandi að standa innan við glugga í glampandi sólskini og slípa sparsl. Nei, svaraði hann, það er bara gaman og þar að auki fer slípunin eftir því hvernig ég sparsla. Ég fann greinilega á mér að ég hefði líka spurt hann þessarar spurningar þegar hann var innskrifaður í Vornesi.

Þegar Seppo stóð upp og hugsaði sér til hreyfings voru liðnar einar 45 mínútur. Hann var merkjanlega ánægður með þessa heimsókn sína sem var hans háttur á að halda upp á mikilvægan tveggja ára afmælisdag. Ég var líka ánægður með að hafa getað orðið honum að liði og ég er þess full viss að hann á eftir að segja öðrum frá þessari heimsókn sinni til Vornes og láta vel af henni.

Þessi fundur okkar Seppo réði því sem ég hugleiddi á leiðinni heim úr vinnunni þennan dag. Ég fann mig hafa haft mikilvægt hlutverk síðustu sextán til sautján árin og hafa haft heil mikil áhrif á þeim vetvangi. 21. ágúst bloggaði ég og nefndi bloggið því afar háfleyga nafni "Afkastageta jarðarinnar - andlegt fyrirbæri í alheimi". Þegar ég var að enda við það blogg hugsaði ég út í þessi "Gömlu skrif" sem ég sendi út núna. Kannski ég ætti að nota ellilífeyrisárin mín í að hafa áhrif sem gera framtíð barnabarnanna minna öruggari.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0