Broddgöltur! æ! æ!


Stuttan spöl út í skóginum ætlum við að gera slóð sem verður sláttuvélatæk. Reyndar er þetta bara ein slík til viðbótar þeim slóðum sem þegar eru tilbúnar. Ég var þarna með járnkarl og ruddist kringum það stóran stein að það var á mörkunum að ég næði honum upp. Svo var ég með járnkarlinn á lofti tilbúinn að láta hann vaða einu sinni enn niður með steininum þegar ég sá þennan litla vin þarna í grasinu einmitt þar sem ég var búinn að traðka. Fyrst var ég viss um að ég væri búinn að traðka á honum og þótti það alveg hræðilegt. Svo þegar ég náði mér eftir fyrsta viðbragðið og gæsahúðin var farin að hjaðna skildi ég að svo var alls ekki. Slíkt finnur maður vel með fætinum og þar að auki hefði broddi brotist um og sjálfsagt gefið frá sér hljóð. Við fylgdumst með honum og það sást vel að hann andaði. Svo í einni eftirlitsferðinni sást vel að hann hafði snúið sér.

Broddgeltir sofa langt fram eftir degi og eru svo á ferli seint á degi og á kvöldin. Í einni eftirlitsferðinni sáum við að broddi var farinn og eftir var svolítið bæli. Ég þekki engan sem ekki hrífst af broddgöltum og ég þekki engan sem á þá fyrir óvini. Þeir annast þrif með því að éta ýmislegt sem við manneskjurnar viljum ekki hafa of mikið af í nágrenni okkar eins og til dæmis litlar slöngur og þeir eru almennt sérstakir og elskulegir.

-----------------------------------------

Svo að allt öðrum málum. Nú er kominn tími fyrir mig að annast síðustu kvöldverkin, þessi á baðherberginu. Ég þarf nefnilega að hátta snemma og vakna snemma. Upp úr sjö í fyrramálið kemur smiðurinn og nú hefst hin mikla byggingarvinna fyrir alvöru. Ég ætlaði að gera heldur meira áður en hann kæmi en það varð breyting á áætlunni klukkan hálf tíu í gærmorgun þegar hún Birgitta forstöðukona í Vornesi hringdi. Hún spurði hvort ég gæti komið og unnið kvöldið. Ég lét tilleiðast og fór svo upp úr hádegi. Þetta varð styttri vinnutími en kvöldin eru yfirleitt þar sem Birgitta hringdi svo seint og fyrirvarinn varð lítill. Og þar sem ég miða vinnulaunin fyrir eitt kvöld við glugga með þreföldu gleri verður þessi gluggi líklega ekki með krækjum þar sem launin nægja ekki. Það verður að hafa það, það hlýtur að vera í lagi að negla einn glugga fastan með þriggjatommu og mála svo yfir naglann. Það væri líkt umhyggju minni fyrir þessari byggingu eða hitt þó heldur.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0