Barnabarnablogg

Ég dett stundum í það að blogga um umhverfismál og þann heim sem barnabörnin mín fæddust inn í. Ég gæti líka sagt börnin mín, en börnin mín eru fullorðnar konur sem geta tekið þátt í því að gera heiminn vistvænlegri fyrir þau börn sem enn eru varnarlaus gegn þeim að stæðum sem þeim er boðið upp á. Ég hef mikið verið með litla Hannes Guðjón hér á skjánum en nú er kominn tími til að minna á hin líka.


Í ágúst 1983 leit þessi drengur dagsins ljós, hann Kristinn dóttursonur minn Jónatansson. Hann var stundum hjá okkur í Hrísey og við vorum góðir vinnir og spjölluðum margt. Við skoðuðum hvernig öldurnar klöppuðu sandinum í höfninni í Hrísey og hvernig úthafsöldurnar brotnuðu á Saltnestönginni. Hann var hjá okkur þegar hann var fimm ára og mamma og pabbi fóru til Kýpur. Það var skólaferðalag Valgerðar eftir að hún útskrifaðist sem kennari. Við fórum svo með hann suður eftir þá dvöl og borðuðum hamborgara í Staðarskála. Þegar hann var hálfnaður að borða sagði hann skilmerkilega að þetta væri mikið hollur og góður matur. Okkur fannst þetta fyndið, svo fyndið að við munum vel eftir þessu enn í dag. En við vorum líka viss um það að hann væri ekki alinn upp við að hamborgari væri neitt sérstaklega hollur og góður matur. En hann hefur örugglega verið orðinn svangur og þegar hann byrjaði að mettast hefur nú sjálfsagt komið vellíðunartilfinning yfir unga manninn sem olli þessari skilmerkilegu athugasemd.


Tólf árum á eftir Kristni kom svo þessi dama í heiminn, hún Guðdís. Hún var komin á annað ár þegar hún kom til Svíþjóðar til að heimsækja ömmu og afa. Ég bloggaði um það á laugardagskvöldið var hvað ég hefði hugsað þegar ég frétti af því að von væri á öðru barninu í þessari fjölskyldu. Það er að segja; hvernig verður sá heimur sem tekur á móti þessu barni. Við bjuggum í Falun þegar hún og mamma hennar komu í heimsókn. Ég var þá farinn að vinna í Vornesi og kom heim um helgar. Þær voru þá þegar komnar til Falun mæðgurnar þegar ég var á leið heim frá Vornesi. Ég hugsaði mikið um það á leiðinni heim hvernig Guðdís mundi taka mér og ég hlakkaði mikið til að sjá hana. Svo þegar ég birtist í dyrunum heima í Falun horfði hún á mig álengdar eitt andartak og hljóp svo í öryggið hjá mömmu sinni. Ég var eiginlega ekki eins og afi þarna, heldur eins og spenntur strákur. Samt var ég orðinn 54 ára. Pabbinn Jónatan og Kristinn bróðir hennar komu svo nokkrum dögum síðar.


Hér er svo barnabarn númer þrjú, hún Erla. Þegar hún kom á öðru ári í heimsókn til okkar með Guðdísi og mömmu sinni vorum við Valdís flutt til Örebro. Þótt undarlegt sé man ég ekki svo greinilega eftir þeirri heimsókn, en ég man þó vel eftir því að þessar tvær stelpur, önnur eins og hin þriggja ára, voru mjög líflegar og stundum hafði ég hreinlega ekki við þeim. Einhvers staðar í albúmi er til mynd af mér með þær sitt á hvoru hné og á þeirri
mynd virðist ég svo uppgefin að það er eins og andlitið sé að síga niður af höfðinu. Þá hef ég sjálfsagt verið búinn að skríða og hlaupa og leika mér við þær. Þegar ég nú skrifa þetta átta ég mig á því að í einu af mörgum myndaalbúmum eru myndir frá þessari heimsókn og ég þyrfti að skoða þær til að hrista upp í minninu.


Svo eru þau hér öll saman systkinin og Kristinn orðinn unglingur. Ég þekki líka á þessari mynd bæði klæðninguna á veggnum og litinn frá þáverandi íbúð þeirra í Vestmannaeyjum.


Hér er Kristinn enginn unglingur lengur heldur fullorðinn maður og smiður. Og þar að auki svo sterkur að hann mundi leika sér að því að taka afa sinn í bóndabveygju, jafnvel þó að afi spriklaði bara eins og afar geta mest spriklað. Og þarna er Hannes Guðjón, fjórða barnabarnið, að rannsaka frænda sinn.

Ég sagði í gær að ég hefði ekki verið svo þroskaður þegar Kristinn fæddist að ég hefði verið farinn að hugsa um það hvernig heimur tæki á móti honum. Slíkt hugsaði ég hins vegar í öll hin skiptin þegar ég vissi að barnabarnanna væri von. Það er líka í mínu valdi að ráða því hvernig sá heimur sem þau koma til með að lifa í kemur til með að líta út. Ég get ekki slegið slíku frá mér á þeirri forsendu að það muni ekkert um mig einan en það verður bara hjáróma afsökun.



Kommentarer
Valgerður

Flott blogg pabbi en til viðbótar það sem þú kannski ekki veist þá komumst við að því að Erlu væri von þegar við vorum með Guðdísi í hennar fyrstu heimsókn til ykkar í Falun. Við þurftum að laumast við að kaupa þungunarpróf í verslunarmiðstöð og sendum ykkur eitthvað að skoða leikföng með hin börnin rétt á meðan þau kaup fóru fram.

kv

Valgerður

2010-08-25 @ 11:28:28
Guðjón Björnsson

Þarna uppljóstraðist leyndarmál, ekki hafði ég hugmynd um þetta fyrr en nú. Ég er líka bara að vita það núna fyrst að það er hægt að kaupa svona í verslunarmiðstöðvum í Svíþjóð. En allt í lagi, ég hef ekki þurft á því að halda enda kominn úr barneign þá.



Kveðja,



pabbi



2010-08-25 @ 12:02:55
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Varstu búinn að sjá myndirnar hans Kristins af stelpunum inni á fésinu? Teknar í Reynisfjöru.

VG

2010-08-25 @ 12:23:05
Guðjón Björnsson

Ég er búinn að nota tvær slíkar á blogg fyrir ekki svo löngu síðan.

GB

2010-08-25 @ 13:02:03
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

æ já það var rétt

2010-08-25 @ 16:45:52


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0