Föstudagur

Klukkan hringdi tæplega hálf sjö og ég hefði virkilega viljað sofa lengur en það var ekki tími til þess þar sem smiðurinn var að koma. Mér fannst sem eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera en svo sofnaði ég aftur í nokkrar mínútur. Þegar ég vaknaði á ný fann ég aftur fyrir þessu að eitthvað passaði ekki. Ég dreif mig fram úr og fór fram í borðkrókinn, dró upp gardínuna og leit út. Jahá, það var þetta. Það var mjög þungbúið og því varla bjart. Ég leit niður í sáninguna frá því á mánudaginn var og moldin var svo rennandi blaut að það var eins og auðséð að ef stigið væri út í hana mundi maður sökkva langleiðina upp að öklum. Neðst niður í láginni voru óvelkomnir pollar og fíngerðir dropar mynduðu þétta hringi á vatninu. Svona yrði þá fyrsti smíðadagurinn. Allt í drullu.

Tíu mínútur yfir sjö kom Anders á rauða rúgbrauðinu sínu. Hann komm beint inn úr opinu á grjótgarðinum, skimaði í kringum sig og drap svo á bílnum. Hann virtist fyrst tala í síma en svo steig hann út úr bílnum. Hægri fóturinn sökk í drullu í slakka sem grafan og vörubíllinn skildu eftir sig á þriðjudaginn var og ekkert tækifæri hafði gefist til að laga. Anders eins og hálf hoppaði upp til að losa fótinn, breytti um stefnu og kom svo heim að húsinu. Svo hittumst við við hornið á herbergisgrunninum.

Þú ert búinn með svona mikið, sagði hann. Nú átti ég um tvennt að velja, að taka hólinu og vera voða ánægður með það eða að segja sannleikann. Ég sagði sannleikann; að dóttursonur minn hefði verið hér og hann ætti heiðurinn af gólfinu og meira til. Síðan spurði Anders hvort það væri ekki best að draga yfirbreiðsluna af og byrja. Ég svaraði ekki um hæl. Við snerumst svolítið hvor um annan, óákveðnir, þangað ég stakk upp á því að við færum inn og fengjum okkur kaffi. Yfir kaffi og ristuðu brauði urðum við sammála um að það væri óráð að draga yfirbreiðsluna bæði af gólfinu og smíðaviðnum og síðan væri komin helgi. En ég ætlaði að saga niður í veggjastoðirnar, talaði hann um, og stalla í þær fyrir langbandinu að ofan. Síðan ætluðum við að koma þrír eftir helgina og reisa húsið. Mikið leit þetta spennandi út. Niðurstaðan varð síðan sú að Þeir kæmu þrír eftir helgi.

Það er búin að vera mikil rigningartíð og spá um þurra daga hefur hefur brugðist dag frá degi. En nú er þó sænska veðurstofan og einhver norsk veðurstofa sammála um að næsta vika verði þurr og jafnvel að þá hlýni verulega á ný. Ég kíki á spár þeirra beggja oft á dag og er að verða alveg ruglaður í þessu. Núna meðan ég hef verið að skrifa þetta var hún Jannike með veðurspá í sjónvarpinu. Hún staðfesti að eftir helgi yrði breyting á þessu óstöðuga veðurfari sem verið hefur og í hönd færi stöðugra og betra veðurfar. Þegar ég heyrði þetta fann ég fyrir því í annað skiptið á þessu ári að mér þætti vænt um þessa konu fyrir góða veðurspá.

Eftir ferð til Fjugesta í morgun og hádegismat var farið að þorna til og verða heldur lystilegra úti. Þá fórum við heimafólkið á stúfana og snerum okkur hvort að sínu verkefninu. Valdís þvoði og bónaði bílinn og ég fór að smíða upp undir þaki á gamla húsinu, að ganga þar frá skordýravörn sem ég líka kalla músavörn. Við viljum ekki hafa geitunga í loftræstingunni milli einangrunar og þaks.

Eftir þvi sem leið á daginn varð ég ánægðari með það sem ég var að gera og sætti mig við að smiðurinn hefði ekki sett sitt í gang í þessari viku eins og áætlun hafði þó gert ráð fyrir. Nýsáða grasfræið fer að spíra og það er samt sem áður mikið í gangi hér. En mér þótti alla vega vænt um að Anders kom. Við skipulögðum svolítið framhaldið og á hvaða hátt ég geri mest gagn fyrir komu þeirra í næstu viku. Mér er hlýtt til þessa manns og það er eins og honum sé í mun að ég geti gert sem mest þó að hann sé verktakinn. Hann er líka ónýskur á góð ráð og hann hlustar á mig.


Ég er ekki einn á þessum bæ þó að það meigi kannski stundum halda það eftir skrifum mínum. Þessi kona, konan mín, segir stundum að það sé ekki hægt að hafa bílinn svona. Og í dag tók hún sig til og þvoði og pússaði og pússaði ennþá meira. Bíllin lítur út núna eins og nýr og ég er viss um að það verður betra að keyra hann á eftir. Svoleiðis virðist það oft vera þegar búið er að gera eitthvað átak sem getur lengt lífdaga hans. Þetta átak Valdísar lengir örugglega lífdaga þessa bíls eða gerir hann verðmeiri í endursölu.


Þær verða ekki drullugar rúðurnar eftir þessa yfirferð og nú er bara að muna að fara malarveginn alveg sérstaklega varlega á leið út á malbikaða veginn næst þegar við leggjum land undir fót.


Kommentarer
Rósa

Hvað er búið að gerast við partýtjaldið? Er það fallið?



Kveðja,



R

2010-08-28 @ 09:36:30
Guðjón Björnsson

Já, partýtjaldið er fallið. Fyrir nokkrum dögum gengum við á alla enda við tjaldið og lögðum og fórum svo inn í skóg til að ákveða staði fyrir þrjá álma sem ég hirti fyrr í sumar niður á gamla túninu vestan við veginn. Eftir nokkrar mínútur komum við til baka og þá voru flestir fæturnir undir tjaldinu brotnir og fallnir. Þannig fór um sjóferð þá.



Kveðja,



pabbi

2010-08-28 @ 13:10:24
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0