Dagur 0 nýbygging

Dagur 0 segi ég. Á morgun verður dagur 1 og svo framvegis. Ég er búinn að rembast eins og rjúpan við staurinn síðan Anders smiður var hér fyrir helgi og við töluðum um framvindu mála á Sólvöllum. Ég ætlaði að vera búinn með meira en það er bara ekki búið og þar við verður að sitja. Það er mikill munur þegar gólfið er ekki lengur falið undir kolsvörtu plasti, en nú er slík veðrátta að það er bara að hneigja sig djúpt og vera þakklátur og glaður. Það er ekki spáð rigningu fyrr en eitthvað smávegis þann 7.september, afmælisdaginn hans Hannesar Guðjóns og Snorra bróður. Og um næstu helgi er spáð allt að 20 stiga hita og mikilli sól. Það verður því mikið hægt að gera frá og með morgundeginum þegar heil víkingasveit smiða mætir á staðinn. Verst að ég er að vinna tvo daga um helgina en hvað ég vildi þó vera heima og gera mikið gagn. En svo verður það að vera og upp úr krafsinu fæ ég fyrir tveimur gluggum með þreföldu gleri. Ég verð að vera jákvæður og gera mig ánægðan með það.


Kristjana á Sólheimum setti fyrir heilmikið heimanám þegar ég var í skóla hjá henni á sláturhúsloftinu á Klaustri. Á einni viku heima lærði ég heil ljóð eins og Gunnarshólma og Skúlaskeið. Síðan naut ég þess í ríkum mæli að fá að standa upp og fara með allt ljóðið í allra áheyrn. Við vorum nokkur sem kepptum svolítið í þessum ljóðalærdómi. Ekki setti Anders smiður mér fyrir á föstudaginn var en hann nefndi að það væri frábært ef ég gæti gert hluti sem hann nefndi. En ég lærði ekki allan Gunnarshólma í þetta skiptið, ég er ekki tilbúinn með síðustu vísuna.


Þessi mynd er tekin frá ljósastaurnum yfir hið alkunna byggingarsvæði á Sólvöllum, þetta byggingarsvæði sem búið er að skrifa meira um en flest önnur mannvirki á sögulegum tíma.


Það er forstofugólfið þarna til vinstri sem ég er ekki búinn með, annars hefði mér tekist að læra Gunnarshólma allan. Ég veit ekki hvort ég fer í það á morgun eða ég læt smiðunum það eftir. Ég á erfitt með að vinna þegar menn eru að hamast í kringum mig. Mér finnst þá sem ég sé ekki alveg frjáls maður og fer bara að snúast kringum sjálfan mig. Það verður nú trúlega best að smiðirnir geri það. Ég get reynt að snúast í kringum þá án þess að vera fyrir þeim eða detta um lappirnar á þeim og kannski get ég sótt þeim vatn að drekka.


En Valdís hefur ekki heldur setið auðum höndum í dag. Þessi mynd er ekki tekin í dag og ég er með svipaða mynd á síðasta eða næst síðasta bloggi. En þessi mynd sýnir þó gott dagsverk hjá henni. Ég nefndi það við hana í morgun að það væri mikil þörf á að taka til í verkfærageymslunni en samt fannst mér að það væri mitt verk. Ég er búin að hugsa um þetta varð henni að orði. Svo var ekki mikið meira sagt um það en hún gekk til verks. Ég spurði jú hvort hún kviði ekki fyrir það fara í þessi ósköp. Tja, hún gerði ekki mikið úr því en ég fann þó að hún hlakkaði ekki til. Hún ruddi hreinlega því mesta eða öllu út úr geymslunni og gekk svo frá öllu aftur. Hún henti sumu, færði sumt í aðra geymslu og sópaði, hagræddi og skipulagði. Núna er alveg óóótrúlega fínt í geymslunni og það er engin hætta á að ég detti um fötur, vírnet eða verkfæri.

---------------------------------------------------

Þetta með skólann, hvernig gátum við nemendurnir á sláturhúsloftinu komist til manns? Enginn leikfimisalur, danskennsla, söngkennsla, tónlistarkennsla, ekkert mötuneyti, engin hjúkrunarfræðingur og engin sálgæsla. Auðvitað hefði þetta þurft að vera, eitthvað eða kannski allt. En í staðinn fyrir leikfimisal höfðum við allt Klaustrið til leikja. Við höfðum líka tildurspraukið. Tildurspraukið var grind af vörubílspalli, gerð úr rörum og hafði á bestu árum ævi sinnar þjónað því hlutverki að halda uppi segli sem kom í stað húss yfir bílpallinn og var jú á öllum vöruflutningabílum sjálfsagt í hálfa öld.

Oftast voru þessar grindur bogamyndaðar ef ég man rétt, en þessi var með vinkilréttum hornum. Svo var þessi grind sett yfir skurð vestan og neðan við sláturhúsið, af nemendunum á sláturhúsloftinu, og var þar með orðin háttvirt tildursprauk. Þarna gátum við hamast linnulaust við að hlaupa á þessu fram og til baka yfir skurðinn og yfir skurðinn og yfir skurðinn aftur. Ég man ekki hvort þetta var í raun nokkur sérstakur leikur, ég held frekar að það hafi bara verið vetvangur fyrir hamagang -og reyndar jafnvægi og lipurð. Tildursprauk væri harðbannað í dag og dæmt stórhættulegt. Ég man aldrei eftir því að neinn meiddi sig á þessu. Hins vegar duttum við oft á hlaðinu á Klaustri og heima og fengum skrámur í lófana eða á hnén og fengum jafnvel hálf illt í skrámurnar.

Það var einn leikur iðkaður á Klaustri sem auðvitað var alveg stórhættulegur en samt varð aldrei slys af því, alla vega svo lengi sem ég kom við sögu í Klausturskóla. En að skrifa um það er of langt mál að þessu sinni.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0