Rósa og Hannes Guðjón eru farin heim

Eftir rúmlega vikudvöl á Sólvöllum fóru þau heim í morgun, Rósa og Hannes Guðjón. Ósköp leið þessi vika fljótt og mikið var gaman að vera amma og afi. Myndavélin var óspart á lofti og í þessum myndum er skráð mikið af sögu þessar heimsóknar. Mér bárust líka myndir frá Vestmannaeyjum um helgina og þar sá ég svo ekki verður um villst að Hannes Guðjón á frændfólk á Íslandi. Hér ætla ég að birta nokkrar af myndunum frá heimsókninni.


Amma ætlaði að fara að slá og kringum sárið eftir gröftinn fyrir nýjum rafmagnskapli um daginn voru steinar á strjálningi. Afi og nafni gengu í það að tína upp þessa steina. Þegar afi lagðist á hnén varð hann jú minni og öllu viðráðanlegri fyrir lítinn mann að umgangast. Drengurinn tók steinana gjarnan úr hendi afa, efnagreindi þá svolítið og skoðaði og kastaði þeim síðan í fötuna. Einstaka stein tók hann aftur upp úr fötunni og kastaði út í grasið á ný. Afi tók þessa steina upp aftur og svo urðu nýjar umræður um þá. Þetta verk var afar áhugavert fyrir drenginn eins og myndin sýnir og svo vel tókst til með hreinsunina að þessir leiðindasmellir heyrðust aldrei sem annars heyrast þegar sláttuvélahnífarnir verða bitlaustir á óvelkomnum steinum.


Ellefu mánaða drengurinn Hannes á líka sláttuvél eins og amma. Það heyrast smellir í henni þegar hún er dregin og eins og sjá má á myndinni er Hannes á fullri ferð með sláttuvelina sína á iðjagrænu Sólvallatúninu.


Stundum fannst Hannesi óskaplega gaman að fá okkur til að gera skrítna hluti og svo hló hann mikið. Þá hlógum við líka og öllum fannst gaman. Þekkið þið kannski svona gamansemi líka þegar glöð smábörn eru annars vegar? Ég hef grun um það.


Að hjálpa til með uppþvottavélina var með allra skemmtilegustu verkefnum á Sólvöllum. Þarna teygir Hannes hendina inn í uppþvottavélina og kannar með gaffli hvort allt sé í lagi þarna inni.


Þarna skoða Hannes og mamma lítinn hlyn, þetta tré með stóru blöðunum sem þola vind á einhvern undraverðan hátt. Það var mikið fyrir hann að skoða í sveitinni þessa daga og athyglin beindist líka að afar mörgu og blæbrigðum í málfari hans fjölgaði.


Í gær bauð amma upp á pönnukökur sem við fórum með út í skóg á svolítinn friðarstað sem búið er að gera þar. Pönnukökur og aðrar kökur er bannvara á Sólvöllum og hefur verið um all nokkuð skeið. En einstaka sinnum verður fólk að bregða út af svoleiðis. Mér dettur í hug að Hannes sé þarna að segja við ömmu að nú sé kominn tími fyrir nýjan gómsætan bita í lítinn munn.


Og hvað ert þú að þvælast þarna afi. Komdu bara og borðaðu pönnukökur. Ekki hefur hann kannski hugsað nákvæmlega þetta en hann hefur alla vega hugann við ferðir mínar þegar ég tók þessa mynd. Athyglisgáfan fer vaxandi og þessa viku á Sólvöllum æfðist hann í að ganga í grasi


Á þessari mynd er Hannes tveggja mánaða. Í það skipti fannst mér þegar ég tók við honum í fyrsta sinn að mikið yrði ég að fara gætilega með svona lítið barn á örmum mínum. Þegar hann var tæplega níu mánaða sat hann á móti ömmu sinni á hnjám hennar, horfði framan í hana og þau sungu saman. Hann hélt í hendur hennar, hrekklaus, góður, alvarlegur í bragði og sveiflaði þeim til og söng a-a-a-a  a-a-a-a  a-a-a-a en samtímis söng amma gamlar barnavísur. Það varð ekki annað séð á honum en þessi stund væri honum hreinlega heilög.

Í kyrrð og veðurblíðu í vikunni fór mamma hans með hann í kerru um nágrennið. Þau voru á leið inn í skóg góðan spöl í burtu og þá heyrði ég að hann söng ja ja ja ja og ennþá meira ja ja ja ja. Þá sem oftar hugsaði ég hvað það væri mikilvægt að aldrei svíkja, aldrei hrekkja, að aldrei fara illa að ráðum sínum í nærveru barnssálarinnar, hvergi nokkurs staðar í veröldinni. Og ekki bara í nærveru barnssálarinnar, heldur aldrei, hreinlega aldrei. Smávaxið barnabarnið slær á góða strengi í brjóstum afa og ömmu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0