Laugardagur 28. ágúst

Birt eftir á.

Um sjö leytið í morgun vaknaði ég og horfði upp í loftið svolitla stund. Síðan læddist ég fram og lokaði gætilega. Konan sem hefur staðið út með mig í fimmtíu ár svaf ennþá og ég vildi ekki trufla það. Hún hefur ekki fengið sömu heilsu frá skaparanum og ég og hvers vegna veit ég ekki. Ég er svo himinlifandi yfir minni heilsu og þó að ég hafi þurft nýjan mjaðmalið, þá var það bara eitthvað sem þurfti að gera og svo er ég stálhraustur maður eftir það.

Spáin í textavarpinu var af allt öðrum toga en í gær og ég varð fyrir mestu vonbrigðum. Nú var spáð skúrum í dag og tvo næstu daga. Hvað átti ég að gera núna? Í vangaveltum um það tók ég eftir því að sólin skein svo fallega gegnum hátt laufþykknið austan við húsið og þaðan beint inn um nýja gluggann á austurhliðinni. Það var þó þurrt og gott núna og líklega best að ég drifi mig út og færi að jafna flagið austan við húsið og jafnvel að sá í það. Já, og þessi nýi gluggi, hann var hreina gersemið, gluggi sem hefur verið í umræðunni hér á bæ síðan við keyptum húsið. Nú er komið op á þennan vegg og gamall gluggi hálf fyllir það til bráðabirgða.

Rétt í því sá ég gegnum gardínurnar hvar tvö dádýr fóru í rólegheitum þvert yfir lóðina og stoppuðu þegar þau komu að grjótgarðinum á lóðamörkunum og virtust kroppa í einhvern gróður þar. Ég dró gardínuna gætilega til hliðar til að sjá þau betur, líklega móðir með kið frá því í vor. En þessi litla hreyfing nægði, þau litu snögglega upp og hingað heim að og svo hoppuðu léttilega yfir grarðinn og héldu vestur á gamla túnið.

Nú, þetta var ekki svo lélegur morgun þrátt fyrir allt. Hvað var ég að láta það fara í taugarnar á mér þó að það væri spáð skúrum. Ég fékk mér eitt vatnsglas og dreif mig svo út og tók mér garðhrífu í hönd. Rosalega var mikið af ánamöðkum í moldinni og stórir voru þeir. Svo vantaði mold og ég sótti einar fimmtán hjólbörur af gróðrarmold í haug sem Jónas hafði skilið eftir handa okkur á snyrtilegum stað. Það var sama þar, fullt af ánamöðkum og stórir voru þeir. Ég tók marga þeirra og kastaði út á móti skóginum.

Ég mundi eftir því þegar ég var ungur maður að ég krækti ánamöðkum á öngla. Ég sá fyrir mér hvernig þeir bókstaflega sneru upp á sig og engdust og gerðu allt til að komast undan sem þeim tókst ekki. Það var eins og þeir yrðu loðnir meðan á þessu stóð. Ég mundi alls ekki geta gert svona lagað í dag, gæti bara ekki hugsað mér það. Að pína ánamaðka upp á öngla til að geta upplifað andlegheit á einhverjum árbakka. Nei, þar liggja mörkin. Ég held bara að ég mundi heldur leggjast á árbakkann og horfa á vatnið líða framhjá. Eða að kaupa mér spún og fiska á hann eða fiska ekki. Það gilti þá einu.

Eftir tvo og hálfan tíma var flagið tilbúið til sáningar og ég orðinn svangur. Konan með fimmtíu ára þolinmðina var þá búin að vera á fótum um tíma. Hún spældi egg og steikti bæjonesskinku handa mér á svipstundu og ég bara tók við og át. Það er mikið æðruleysið sem sumt fólk er ríkt af.

Annars nota ég mikið ávexti sem álegg um þessar mundir og það er hluti af minni þátttöku í heilsuverndarátakinu sem hér stendur enn yfir. Valdís segir að ég sé orðinn of magur og ég segi að hún sé mjórri. En ég veit bara að ég er eldhress eins og ég sagði í byrjun og eftir þennan ágæta morgunverð fór ég út og sáði í nýræktina. Ég trúi að Valdís valti yfir hana þegar jörð hefur þornað nægjanlega fyrir það.

Eftir þessa moldarvinnu sneri ég mér að smíðunum og sannleikurinn er sá að ég held að ég hafi ekki smíðað jafn mikið á einum degi síðan smíðar hófust á Sólvöllum í upphafi. Fyrsta skúr dagsins kom ekki fyrr en um hálf níu leytið i kvöld, einmitt þegar ég var að taka saman eftir mig. Þetta hefur verið afkastadagur hjá mér og Valdís gerði bílinn sem nýjan með ærlegum stórþvotti og bóni.


Kommentarer
Valgerður

Það er naumast og ég sem var hálf fúl í morgun yfir því að helgin fór nánast bara í ekki neitt nema ferðalög og leti.

VG

2010-08-30 @ 11:08:13
Anonym

Dugnaðurinn í ykkur alltaf :-))



Bestu kveðjur,



Þórlaug

2010-08-30 @ 20:55:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0