Afkastageta jarðarinnar - andlegt fyrirbæri í alheimi

Eftir tveggja nátta vinnuviku í Vornesi var ég ákveðinn í því að sofa bara eins lengi og ég gæti þennan laugardagsmorgun. Ég held líka að ég hafi sofið næstum til klukkan átta í morgun og eitthvað dormaði ég eftir það. Ég vissi að það væri blautt á og ég mundi ekki byrja neina smíðavinnu fyrr en það hefði þornað til. Síðan fór ég að kíkja á veðurspár um níyleytið og viti menn, spárnar spáðu úrkomulausu veðri fram á mánudagskvöld. Svo hélt rólegur morgun áfram og það hélt áfram að þorna til úti. Upp úr klukkan ellefu hafði ég mig út og við mér tók lágskýjaður himinn, logn og 20 stiga hiti. Mikið var notalegt að vera umvafinn þessu blíðviðri ásamt dásamlegri angan af náttúrunni.

Tveggja ára hlynur sem er eina átta metra bakvið húsið er gulbrúnn efstu timmtán sentimetrana í toppinn. Haustlitur, eða hvað? Nei, það er nýi vöxturinn sem er gulbrúnn og svo er það algengt með hlyninn. Síðan verða blöðin græn. Það er bullandi vöxtur á mörgu hér úti í skóginum. Ég fór einn hring í gærkvöldi til að kanna ástandið. Meira að segja beykið sem ennþá verður að teljast á tilraunastiginu hér er að vaxa ennþá. Þetta er einstaklingsbundið með flestar tegundir en ég held að allt birki sé ennþá í góðum vexti. Ég vona bara að þessi tré gefi sér samt nægan tíma til að búa sig undir veturinn. Ef ekki, verður síðasti vöxturinn til einskis og verður bara kal að vori.

Hér æðir maður sko ekki út, setur undir sig hausinn og byrjar að hamast með hamar og sög. Nei. Fyrst er það fundur með náttúrunni og hlýjar hugsanir til þessara mörgu einstaklinga sem virðast þrífast alveg ágætlega hérna bakvið húsið okkar. Hún Birgitta Folenius er í kórnum með henni Valdísi. Hún er líka blaðamaður og þessi hlýlega, þægilega kona skrifaði alvarlega grein í Örebroblaðið í dag og fjallar þessi grein um afkastagetu jarðarinnar. Þá er átt við hversu mikið jörðin getur endurnýjað á ein ári. Í dag, þann 21. ágúst 2010, höfum við jarðarbúar þegar notað alla ársframleiðslugetu jarðarinnar fyrir þetta ár. Árið 1961 notuðum við jarðarbúar aðeins helming af ársframleiðslugetunni en árið 1986 notuðum við í fyrsta skipti alla framleiðslugetu ársins á einu ári. Eftir það höfum við verið að nota framleiðslugetuna fyrirfram. Hvergi kom fram í greininni hversu lengi er hægt að nota þessi verðmæti fyrirfram, en það er ljóst að því eru takmörk sett. Það er löngu vitað að ef allir jarðarbúar væru jafn miklir neytendur og við Vesturlandabúar þá þyrftum við fleiri en eina jörð, jafnvel nokkrar.

Birgitta er enginn sérfræðingur á þessu sviði það best ég veit, en sem góður blaðamaður veit hún nokkuð hverjir hafa góða þekkingu á þessum málum og hún notar þá þekkingu í grein sína. Þegar Rósa og Pétur sögðu okkur frá því að nýtt barnabarn væri í vændum varð ég mjög hrærður, en meðan á símtalinu stóð varð mér hugsað til þess hvers konar veröld mundi taka móti þessu barni. Fyrsta skipti sem ég hugsaði svona var þegar við vissum að Guðdísar væri von og síðar þegar við vissum um Erlu. Þegar við fréttum að fyrsta barnabarnið væri í vændum var ég ekki nógu þroskaður til að láta mér detta þetta í hug. Það jákvæða í þessu öllu saman er þó það að það er hægt að snúa þessari þóun við með grænna líferni.

Það er bullandi vöxtur í sænskum efnahag og ég segi aftur -bullandi vöxtur. Fólkið sem er við stjórnvölinn er samviskusamt og hefur vit á að fara eftir leikreglunum og þá fer vel. En það er eitt sem ekki gengur upp og það er þetta: Ríkisstjórnin bendir á að fólk þarf að vera bjartsýnt og fjárfesta til að hjólin snúist og þess meiri neysla, þess hraðar snúast hagvaxstarhjólin. Þarna lokast hringurinn og í ár lokaðist hann á heimsmælikvarða í dag, þann 21. ágúst, hringurinn sem alls ekki mátti lokast fyrr en í fyrsta lagi um áramót. Ég er nú búinn að ákveða hver hlýtur atkvæðið mitt við kosningarnar í haust. Þeir sem ekki sjá í gegnum þetta fá ekki að vita hvaða flokkur verður hamingjusamur af atkvæðinu mínu.

Sannleikurinn er sá að þegar ég kemst af stað varðandi þetta málefni er erfitt fyrir mig að stopa. Ég elska barnabörnin mín og ef mér er sama um þetta er ég drullusokkur og elska þau ekki í raun. Ég vil endilega vera með í því að breyta þessari þróun og þó að ég einn hafi alls ekki merkjanleg áhrif með aðgerðum mínum, þá hafa athafnir mínar áhrif út á við. Ég upplifði það í vinnunni í gær að það sem ég geri hefur áhrif út á við. Kannski ég bloggi um það næst. Að lokum: Barnabörnin mín mega aldrei verða veik vegna ofneyslu minnar og andvaraleysis.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0