Skuldsettur maður er ófrjáls maður

Sænskur efnahagur er á uppleið. Hvert fyrirtækið af öðru er rekið með miklum ágóða í ársfjórðungsuppgjörum og þegar ég segi með miklum ágóða er ekki verið að tala um einhver hundruð þúsunda, heldur ótrúlega marga miljarða. Þetta er heldur ekki fyrsti ársfjórðungurinn sem vel gengur. BNP hefur hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir og gert er ráð fyrir að farið verði að hækka vexti til að stemma stigu við verðbólgu. Slíkur er hraðinn á velferðinni.

Það eru kosningar í haust og ég er ekki alveg ráðinn í því hvaða flokkur fær mitt atkvæði. Þó að sænsku, hægri ríkisstjórninni hafi gengið margt vel og breytt ýmsu, hefur hún ekki breytt Svíþjóð svo mikið, enda er landið svo gamalgróið jafnaðarmannaland að þær undirstöður gefa sig ekki á einu kjörtímabili. Ég hef fram til þessa látið atkvæðið mitt renna til vinstri flokka og þó að ég kysi sænsku Moderatana núna væri það ekki vegna þess að ég væri allt í einu svo mikill hægri maður, heldur vegna þess að ég mæti það sem þeir hefðu gert á kjörtímabilinu.

Ég hef hlustað nokkuð á pólitíska umræðu og mér finnst þessir ungu hægri menn vera rökfastir, samviskusamir og sjálfum sér samkvæmir. Og ég segi aftur samviskusamir. Ég hlustaði líka einu sinni á Göran Persson jafnaðarmann segja eftir að bankahrun hafði orðið í Svíþjóð um 1990 þegar hægri menn settu inngjöfina of kröftulega í botn og hann síðar við miklar óvinsældir stýrði kassanum, skar niður og sparaði heiftarlega, að skuldsettur maður væri ófrjáls maður. Hann sagði einnig að hann gæti ekki hugsað sér að þurfa að fara til Bandaríkjanna, krjúpa á kné fyrir framan 25 ára bankastráka og biðja þá að bjarga Svíþjóð ef landið sigldi í strand. Svo hélt hann áfram með skurðarhnífinn.

Það voru fleiri en ég sem hlustaði á þetta tal Göran. Hann fékk eftir það mikla virðingu eftir að hann hafði verið hataður ríkulega og virðinguna fékk hann mikið eftir að hafa sagt þessi frægu orð. Síðar, mörgum árum seinna, skeði eitthvað og Göran féll úr hnakknum. Kannski var hann bara bestur meðan neyðin var mest. Jafnaðarmannaflokkurinn er ekki í góðu standi núna og því vill fólk ekki kjósa hann. Það bara skeði eitthvað. Samt komst landið upp úr bankahruninu undir hans stjórn og komst til mestu velgengni sem nokkru sinni hafði ríkt hér. Svo kom alheimshrunið en það varð aldrei meira en svo að við Valdís fundum aldrei fyrir því. Samt misstu margir vinnu. Bankahrunið gamla var tiltölulega nýlega afstaðið þegar við Valdís komum til Svíþjóðar og landið var þá enn í miklum sárum. Hlutirnir ske á ekki lengri tíma en svo.

Ég ætla að halda áfram að hlusta og reyna að gera mér hlutlausa mynd. Ég ætla ekki að fara út að hjóla þó að andstæðingar mínir í pólitík séu á skjánum. Vinur minn hér í landi var að hlusta á pólitíska umræðu í sjónvarpi og flokksforingjanum hans gekk alls ekki vel í þættinum. Hann varð því svo spenntur að hann gat ekki hlustað lengur og fór fram í eldhús að vaska upp. En ég á enga andstæðinga í pólitík í landi hér en ég vissi bara ekki hvernig ég ætti að segja þetta öðru vísi. Ég segi einu sinni enn að hægri strákarnir í ríkisstjórninni eru samviskusamir þó að hægri mönnum tækist að klúðra um 1990. Ég segi "strákarnir" þar sem þeir Reinfelt og Borg eru afgerandi áberandi í þessari ríkisstjórn en það eru líka klárar konur með í ríkisstjórn, ég gleymi því ekki. Tveimur framámönnum í stjórnmálum á hægri vængnum hefur orðið fótaskortur nýlega. Þeir eru báðir hættir. Ég kalla það siðferði.

Það verður fróðlegt fyrir mig að vita hver fær atkvæðið mitt í haust en það er ekki víst að nokkur lifandi manneskja fái að vita það.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0