Athafnadagur

Eiginlega var það langþráður dagur á Sólvöllum í dag. Hann Peter kom með gröfuna sína til að ganga endanlega frá svæðum hingað og þangað, bæði að húsabaki og framan við. Það er nefnilega að verða síðustu forvöð að sá grasfræi og það er ekkert gaman að standa í framkvæmdum ef allt er á öðrum endanum og svæði byrja jafnvel að gróa upp meðan þau eru ennþá ófrágengin.


Þetta er að húsabaki og þar á ekki að vera urð og grjót, burt með skítinn. Að vísu voru þetta svo stórir steinar að þeir hafa sjálfsagt getað verið álfasteinar. En það eru þá fleiri slíkir eftir. Ég get ekki gert að því að ég hef gaman af að fylgjast með svona framkvæmdum og mér er eiginlega óskiljanlegt hvernig svo lítil vél getur losað um og lyft svo stórum steini sem þeim sem þarna er kominn í skófluna.


Svo þegar búið var að hreinsa burt stórgrýtið kom Jónas með heilt bílhlass af gróðrarmold. Fínt skal það nefnilega verða. Þetta er stækkun í eina átt á svæði sem Peter jafnaði fyrr í sumar og svo stækkaði sama svæði ennþá meira í aðra átt, inn í skóginn..


Þegar lítið hús er gert að þokkalegu einbýlishúsi verður hallinn við framhliðina að vera réttur. Það má ekki renna upp að húsinu þó að það geri hressilegt skýfall sem reikna má að geri nokkrum sinnum á ári. Það gerði nefnilega gríðarlegt skýfall fyrir nokkrum árum og þá var atgangurinn slíkur að það mátti næstum segja að vatnið vissi ekki sitt rjúkandi ráð og fór að renna inn undir húsið. Nú er ekkert slíkt mögulegt lengur. Þegar ég tók myndina hafði Peter flautað sem þýddi að Jónas ætti að færa bílinn eina færu áfram. Því hleypur hann þarna eins og hann hafi gert eitthvað af sér sem alls ekki var.


Þegar búið var að fjarlægja malarurð sem er undir grassverðinum framan við húsið var gróðrarmoldinni jafnað yfir. Jónas var nefnilega búinn að sækja annað hlass og það þriðja er þarna við hliðina á gröfunni.


Nú þegar þessir atgangsmenn voru farnir heim byrjaði handavinna okkar heimafólks. Þó að ég sé óttalegur durtur í samvinnu var Valdís með í þessari handavinnu.


Ég sáði þó grasfræinu -þar lágu mörkin.


Svo valtaði hún líka þangað til hún fór inn og útbjó mat. Við náðum að sá í og ganga frá 135 fermetrum framan við húsið en við geymum til morguns að ganga frá 260 fermetrum bakvið húsið. Á morgun á að rigna og það er gott fyrir fræið en getur líka komið í veg fyrir að við getum lokið vinnunni að húsabaki. Það verður mjög myndarlegt á Sólvöllum þegar þetta fer allt að grænka svo ég tali nú ekki um þegar farið verður að slá svæðið. Og svo ég tali nú ekki enn frekar um þegar hús með fallegri framhlið og rauðum panel verður risið á grunninum.



Kommentarer
Rósa

Þetta lítur vel út! Fullt af grasi að slá...



En mikið er mamma orðin flott. Mjóna spóna!



Kveðja,



R

2010-08-23 @ 23:09:40
Guðjón Björnsson

Já, ég er orðinn vitlaus í að taka myndir af henni

2010-08-23 @ 23:13:43
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0