Voðalega varð ég þreyttur

Í gær endaði stóri skurðgröfudagurinn á dagurinn á því að ég benti á nokkur atriði sem ég óskaði eftir að yrðu gerð að lokum. Svo vorum við, gröfumennirnir og ég, komnir út að innkeyrslunni og allir voru ánægðir. Ég var varla ánægður, ég var hreinlega í sjöunda himni og næstum sveif nokkra sentimetra frá jörðu. Svo mikið hafði komist í verk. Allt í einu tókum við eftir því að litla skóflan frá gröfunni var eftir út við skógarjaðarinn. Jæja, sagði Peter, þú tekur hana á morgun Jónas þegar þú sækir tækin. Svo fóru þeir Peter og Jonas og Jonas átti að koma að morgni, flytja burtu eitt bílhlass af grófri möl og grjóti og fara svo með gröfu og bíl til nýrra verkefna. Ég taldi að ég gæti tekið því rólega fram á níunda tímann.

En klukkan sjö í morgun bankaði Jonas upp á og við áttum nokkur orðaskipti, síðan fór hann að losa vörubílinn. Þar fór sú morgunstundin varð mér hugsað en fann mig hressan og taldi best að byrja sem fyrst á einhverju gagnlegu. Það rigndi all mikið í nótt þannig að það var spurning hvað ég ætti að gera en nóg lá fyrir. Svo kom Jonas til baka og nú ætlaði hann að taka gröfuna á bílinn en fyrst var að sækja skófluna. Mér leist ekkert vel á það vegna mikillar bleytu en það var ekkert annað að gera. Svo koma hann á gröfunni alveg heim að húsi og síðan stefndi hann á skóginn. Ég sá mér til skelfingar hvernig beltin sukku í og nú kom hann að viðkvæmum stað sem ég gekk frá nýlega og nýgresið var orðið svo fallegt.

Svo kom vinstra beltið inn yfir drenskurðinn sem var grafinn og fylltur aftur fyrir mánuði og þá fóru nú að gerast hlutir. Beltið sökk eina 20 til 25 sentimetra niður í fagurgræna jörðina og svo sökk hitt beltið líka. Eftir það þurfti hann að keyra áfram eina tvo eða þrjá metra og ég var steinhættur að draga andann, annars hefði ég öskrað. Annars var ekki til neins að öskra svo að það var eins gott að ég var stopp. Þegar hann var búinn að krækja klónni í skófluna og lyfta henni upp sökk grafan aðeins meira og svo ók hann aftur á bak. Eftir voru tveir gríðarlega ljótir skurðir og vatnið og drullan huldu grængresið. Jonas sléttaði aðeins úr þessu með skóflunni en hér með sá ég hvað lá fyrir mér næstu þrjá til fjóra tímana í jarðvinnu. Svo að bíða í þrjár vikur til að sjá aftur þann græna árangur sem aðeins tíminn getur gefið. Það var ekki við neinn að sakast eftir það sem hafði skeð. Það hafði bara rignt í nótt.

Við Jonas kvöddumst svo með virktum og töldum ekki útilokað að við mundum hittast einhvern tima síðar í lífinu. Ekki var ég reiður, en mér var allur máttur þrotinn eftir þetta og svo rosalega þreyttur varð ég að mér var algerlega fyrirmunað að gera nokkuð. Og ég var svekktur og nálægt sjálfsvorkunn. Þá stakk ég upp á því að við færum í bæinn en ég sagði Valdísi alls ekki ástæðuna og hef ekki sagt henni það ennþá. Ég rakaði mig, þvoði hárið, skipti um föt og svo lögðum við af stað. Skömmu áður en við komum inn til Örebro varð mér hugsað til þess að þreytan og svekkelsið hafði horfið. Hvað nú! Ég varð hreinlega stein hissa og velti fyrir mér hvenær það hefði átt sér stað. Ekki veit ég í hvaða beygju á leiðinni þessi breyting varð en ég bara veit að mér leið mikið, mikið betur. Ég hafði fengið máttinn til baka og það er hversu mikilvægt sem helst og nú ætla ég að sofa í níu tíma og ég veit að Jonas kemur ekki til með að banka upp á í fyrramálið.

Ps. Ég vann heil mikið í nýrækt eftir að við komum heim og það var stórgaman og ekki þreytandi. Valdís bauð fram aðstoð sína en ég hvatti hana til að taka því rólega.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0