Enn ein Sólvallaskýrsla

Sum hús eru stór og mikil og framtíðarhlutverk þeirra eru stór, eiga jafnvel að breyta ásýnd heils lands. Í þessu sambandi hef ég stundum nefnt tónlistarhús. En svo eru líka til lítil og lág hús sem hafa líka mikilvæg framtíðarhlutverk. Svo mikilvægt er eitt slíkt hús að það er verið að byggja við það. Þarna er ég auðvitað að tala um Sólvelli í Krekklingesókn. Ég hef sagt áður og segi enn að það er kannski skrifað meira um Sólvallahúsið en tónlistarhúsið. Það er mikil unun að vinna að því að Sólvallahúsið stækki og geti þar með annað sínu mikilvæga framtíðarhlutverki. Það er þess vegna sem ég blogga svo mikið um þennan stað og þessa byggingu og merkilegt er það er lesið af ótrúlega mörgum. Það er oft vinsælt að lesa um það sem er hversdagslegt.


Þegar vandað er til viðbyggingar við hús verður gamla húsið að svara ákveðnum kröfum. Þess vegna er ég að styrkja og bæta síðustu veggina á gamla Sólvallahúsinu. Kristinn dóttursonur hjálpaði mér líka við þetta þá viku sem hann var hér um daginn. Það má greinilega sjá að hlutinn til vinstri lítur mikið betur út en hlutinn til hægri, sá sem lendir inn í forstogfunni. Þann hluta er ég að vinna við núna og meðal annars að færa dyraopið hálfan meter til hægri.


Svona getur styrktur veggur litið út, en þetta er nærmynd af sama vegg og sýndur er hér fyrir ofan. Þarna er búið að negla tommu þykkt efni á bita og stoðir og þar sem húsið er búið að standa án þessarar styrkingar í 40 ár ætti það að duga núna. Ég var líka áður búinn að þétta stöplana undir húsinu um helming. Þetta verður sterkt og gott hús og ekki er fúinn í því. Önnur skoðunareferð mín á Sólvelli áður en við keyptum húsið var með hamar og nokkra nagla í vasanum. Síðan skreið ég meðfram húsinu og negldi upp í burðarbitana og komst þá að því að það fannst ekki fúi í því. Ekki veit ég hvað nágrönnunum þótti um þetta háttarlag mitt og hafa þeir aldrei nefnt það.


Ég er svo sjálfselskur að ég vil helst ekki láta nokkurn annan einangra. Ég mæli nákvæmlega, sker nákvæmlega og legg svo mottuna í af mikilli alúð. Síðan hugsa ég að mikið eigi þessi einangrun eftir að halda góðum hita í þessu húsi. Að lokum strýk ég yfir af nærgætni áður en ég fer í næstu mottu. Ég gæli við einangrunina. Ef þetta er ekki að njóta þess að byggja, hvað er það þá? Og gluggarnir eru nýir með þreföldu gleri og að vinna eina nótt í Vornesi þýðir einn glugga til. Svo lækkar Anders Borg fjármálaráðherra, hann með taglið, skattinn sem ég greiði af vinnunni minni svo að við höfum betri efni á að byggja. Hann ætlar líka að greiða helminginn af vinnu smiðsins eins og ég hef oft sagt áður og hann er meira að segja búinn að greiða helminginn af fyrsta reikningnum.


Ég vildi helst kaupa almennilegan tjörupappa til að nota sem vindpappa en hann Bengt í byggingarvöruversluninni bara hló að mér og sagði að ég yrði að aðlaga mig breyttum tímum. Svo þegar við Kristinn settum þennan undarlega vindpappa, eða vinddúk, á austurvegginn um daginn, kom í ljós að þetta er þrælsterkur dúkur. Það er því aðeins einn galli sem ég sé við hann og hann er sá að ég trúi því ekki að þessi dúkur sé jafn músheldur og heiðarlegur tjörupappi. En ég er ákveðinn í að skjóta músunum ref fyrir rass og halda þeim utan dyra með öðrum leiðum.


Þetta er austurveggurinn sem við Kristinn unnum í sameiningu um daginn. Við sjáum þarna reyndar í gegnum húsið og út í skógana í vestri. Það er eitthvað einkennilegt við gluggann þarna og ástæðan er að þetta er bráðabyrgðagluggi, gamall gluggi frá vesturhliðinni. Glugginn sem á að koma þarna verður 30 sm síðari. Það er búið að vera í umræðu síðan við keyptum Sólvelli að setja glugga þarna móti skóginum og rétti glugginn kemur á allra næstu vikum. Panelklæðningin verður ekki sett upp fyrr en nýja húsið verður líka tilbúið fyrir klæðningu.


Þetta er engin góð mynd hjá mér en það má þó greina skóginn sem er í tíu til timmtán metra fjarlægð frá húsinu að austan. Ég segi aftur að þetta er bráðabyrgðagluggi og endanlegi glugginn verður 30 sm síðari. Þetta verður eitt frábærasta málverk allra tíma og vert að gera því betri skil síðar. Það var að kvölda í gær þegar ég tók þessa mynd. Valdís er þarna að lesa læknasögu en Rósa og Hannes Guðjón spjalla saman, mamman gegnum síma.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0