Ég var ekki viss um að ég ætti nokkuð að blogga í kvöld

Ég vaknað í Vornesi í morgun, fyrr en ég þurfti, en upp úr hálf sex fór ég á stjá. Ég vissi að það yrði talsverður erill og svo var það líka í gærkvöldi. En þrátt fyrir eril er morgunverðurinn frumskilyrði, hvort heldur ég er í Vornesi eða heima. Og aldrei fyrsta kaffibollann fyrr en að loknum morgunverði. Það er mikilvægt. Meðan ég var að úða í mig morgunverðinum kom hún Agneta, ung kona sem þykir alveg gríðarlega gaman að vinna í stóreldhúsi. En það var ekki allt með felldu því að hún ruddist með hljóðum upp stiga sem konurnar í eldhúsinu nota þegar þær koma í vinnu. Það eru þrjár slöngur í stiganum æpti hún og ég sem hef aldrei verið hrædd við slöngur vað alveg brjáluð núna. Ég fór niður og alveg rétt; fyrsti snákurinn var í þriðju tröppu. Húsvörðurinn getur séð um þetta sagði ég við Agnetu en stuttu síðar kom Katarína í eldhúsinu og sagðist hafa hent út þremur slöngum. Þar með var það mál afgreitt.

Svo sá ég enga ástæðu til að blogga í kvöld og ég er líka svefnlitill og fer í vinnu aftur á morgun. Það eru margir gluggarnir sem ég vinn mér inn þennan mánuð. En samt fór ég að skrifa það sem hér stendur ofan þannig að ég er fallinn og þá er best að falla bara hressilega.

Í fyrradag undirbjó ég smíðaverkefni hér heima og þó að ég væri latur við heimkomuna um hádegið í dag ákvað ég að smíða. Meðan við vorum að borða talaði Valdís um að ég ætti bara að hvíla mig í dag og þar með fékk ég ástæðu til að vorkenna mér svolítið. Svo byrjaði ég smíðarnar.


Einu sinni leit þetta svona út. Þegar verið er byggja við hús verða "salirnir" í því nýja að passa við "salina" í því gamla. Því getur þurft að rífa veggi, opna inn í húsið, slægja, brambolta, færa glugga og dyr og setja svo saman aftur.


Meðan verkefnið mitt stóð yfir í dag leit þetta svona út á tímabili. Þegar þessi mynd var tekin stóð yfir bæði slæging og brambolt. Kommóða sem tóð innan dyra var fyrir og því tók ég skúffurnar úr og dró fram kommóðuna. Ég get alveg talið upp það sem er í skúffunum sem við sjáum þarna inn um opinn vegginn en ég sleppi því ef enginn spyr sérstaklega eftir því. En það er óhætt að segja að þetta lítur ekkert stórskemmtileg út og ég var ekki alveg nógur sjálfum mér í dag og átti erfitt með að finna verkfæri. Þá fór Valdís af stað og fann þau þar sem ég hafði leitað. Mér þótti það hálf hart en tókst að vera ekki með neinar útskýringar.


Svo þegar leið á daginn kom meira skipulag á framkvæmdirnar og ég varð meira og meira viss um að ég hefði lokað öllum mögulegum músaleiðum inn í gólf, veggi svo ég tali ekki um þessa dásamlegu einangrun sem er svo gott að hafa aðgang að í vetrarhörkum. Ég fer aldrei ofan af því að ég er kraftaverkamaður á þessu sviði. Annars var sagt frá því í sumar að það væru komnar rafmagnsgildrur sem án undantekninga steindræpu mýs. Við förum nú innan tíðar í verslunina Nágrannabæinn í Örebro og leitum að þessum gildrum. Annars get ég sagt núna eins og svo oft áður að ég veit svo sem ekki hvort ég hef nokkurn rétt á að útrýma lífi bara af því að það hentar mér ekki. En alla vega; ef ég geri það vil ég gera það hreinlega.


En aftur að byggingarvinnunni. Nú passar þetta dyraop að nýju forstofunni og að fatahenginu sem á að koma á vegginn fram í verðandi forstofu á bakvið hurðina hægra megin. Það passar einnig að skápunum sem eiga að koma við hinn forstofuvegginn, það er að segja vinstra meginn þar sem hægt er að greina stigann úti fyrir. Mér fannst ósköp ókræsilegt að fara í þetta en nú er slægingin og bramboltið að baki. Eftir á að hyggja þá var nú bara gaman að þessu eins og flestu sem ég legg fyrir mig í dag. Þegar ég var búinn að borða heilsubuffið hennar Valdísar, skrúfa plötu fyrir dyraopið og taka saman verkfærin fór að rigna all líflega og svo er enn. Mikið verður gott að ganga móts við Ól Lokbrá eftir athafnirnar í baðherberginu (bursta og pissa), tauta svolítið upp úr svefni og safna svo kröftum fyrir næsta sólarhring í Vornesi. Eftir þennan komandi sólarhring þar hægist mjög um varðandi vinnu og ég verð meira sjálfstæður ellilífeyrisþegi með öllum réttindum sem því fylgir.



Kommentarer
Auður Dúa

Það eru aldeilis sviptingar í þessu hjá ykkur, eins gott að það sé hlýtt og mýsnar ekki á hlaupum þarna úti

Þetta verður spennandi útkoma sem maður fær vonandi að sjá næsta sumar

2010-08-19 @ 13:01:32
Guðjón Björnsson

Þið fáið að sjá, ekki spurning. Þið komið varla til með að rata um nýbyggingarnar næsta sumar.



Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni

2010-08-20 @ 22:29:00
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0