Bláberjabekkurinn

Það var engin sjónvarpsmessa í morgun, heldur morgunandakt sem send út í fyrra og endursýnd í dag. Þetta var býsna atghyglisvert þótti okkur og talað var við mann sem heitir Thage G Peterson. Thage hefur verið iðnaðarráðherra, dómsmálaráðherra og varnarmálaráðherra fyrir socialdemokrata og hann hefur verið margt annað gegnum lífið. Mér varð á að undrast hvernig hann hefði komist yfir þetta allt. Hans fyrsta vinna var vinnumennska á árun um 1947 til 1951 þegar hann var 14 til 18 ára. Hann var 77 ára þegar þessi andakt var tekin upp, sem er jú enginn aldur, og þá var hann í skóla og las guðfræði. Það er spurning hvort ég ætti að setjast á skólabekk þegar Sólvellir eru þannig tilbúnir að það verði bara dútl eftir ásamt heiðarlegri skógarvörslu. Það lá við að þessi Thage setti grillur í höfuðið á mér. Hann var heilum sjö árum eldri en ég er í dag þegar þátturinn var tekinn upp
 
 
*      *      *
 
 
Stundum hef ég fyrir augunum eitthvað sem ég sé að ég þarf endilega að fara í og lagfæra. Ef það dregst of lengi veldur það óþægindum og svo þegar það hefur verið gert skapar það bara ánægju. Ég fór í svona verk í dag.
 
 
 Eina 25 metra að baki húsinu er bláberjabekkurinn. Ef vel er að gáð sést að grasið ef farið að vaxa upp á milli rimlana á bekknum. Það er léleg hirðusemi og veldur auðvitað angri þangað til úr er bætt. Þarna eiga líka að vera bláberjarunnar í beðum en það er varla hægt að sjá að svo sé. Í morgun eftir morgunverð og morgunandakt fór ég í tilheyrandi vinnuföt og tók til við lagfæringu á svæðinu.
 
 Eftir svo sem einn og hálfan klukkutíma hafði þessi breyting orðið. Það er hægt að merkja vissa hluti þarna. Bláberjarunnarnir eru afar misjafnir enda misgamlir. Aftan við bekkinn er runni sem er að verða meters hár og hlýtur að vera fjögurra ára gamall. Sá hefur aldrei borið ber og ætti því að sendast í sláturhús. Góður bóndi mundi alla vega senda þá á í sláturhús sem ekki fengi lamb ár eftir ár. Hinu megin við bekkinn, beint á móti, eru einu ári yngri runnar sem hafa borið ber einu sinni. Í fyrra voru ber á leiðinni en ein frostnótt í maí eyðilagði þau. Það var ekki lélegum runna um að kenna. Tegundanöfnin er að finna á miðum sem hanga á öllum þessum plöntum þannig að í haust eða að vori er best að fara á stúfana og kaupa nokkrar góðar plöntur.
 
 Það er nefnilega svona sem þetta á að líta út. Hann er tæplega eins árs þessi ungi maður sem er búinn að uppgötva að það vex eitthvað voða gott á þessum runnum. Svona verður það aftur eftir nokkrar vikur og / eitt er víst að aftur verður / afskaplega gaman þá. Við þurfum að kaupa meira af þessu kvæmi. Ég er viss um að Hannes Guðjón er mér alveg sammála um það. Myndin var tekin í hitteðfyrra.
 
 Þegar bláberjasvæðið var komið í gott horf reytti ég frá jarðarberjaplöntum sem við gróðursettum í vor. Þarna á svæðinu vaxa vilt jarðarber (smultron) og við keyptum meira af svoleiðis plöntum. Þegar ég var að reyta þarna kom Valdís í heimsókn og einmitt þá fann ég eitt fullþroskað jarðarber. Auðvitað fékk hún berið, fyrstu uppskeru ársins. Ræktuðu jarðarberin eru í döllum á öðrum stað. Þar er mikið af stórum berjum á leiðinni og á morgun þarf ég að kaupa net til að setja yfir þau til að verja fyrir fuglunum. Það er gaman að hafa fuglana en það gerir líka vissar kröfur.
 
 
 Valdís tók þessa mynd þegar hún kom í heimsóknina í dag og þessi mynd er nefnilega skemmtileg. Á henni sjáum við birkitré, nákvæmlega fyrir miðri mynd, sem er orðið um það bil fjögurra metra hátt. Það eru svona tré sem eiga að taka við af eldri trjánum sem eru með nakta stofna upp í tíu metra hæð. Það eru mörg svona tré á leiðinni sem eiga að taka yfir. Það er að annast vel skóginn sinn að hjálpa til við að gera þetta mögulegt. Í gær klippti ég niður á annað hundrað reyniviði og bar þá í gryfju sem ennþá getur tekið við smátrjánum þegar grisjað er. Í dag klippti ég niður eitthvað á þriðja hundrað reyniviði og aspir. Eftir skil ég eikur, bjarkir og hlyn ásamt smávegis fleiru. Stundum getur mér fundist þetta vonlaust verk en það er það alls ekki. Það er ég búinn að sjá í gær og í dag. Valdís ætlar svo að hjálpa mér til við þetta að ári.
 
Helga Bjarnadóttir var kennari og síðar skólastjóri í Hrísey. Nú á hún heima niður í Varberg. Bára dóttir hennar býr hérna megin við Varberg og hún og maður hennar eru skógarbændur. Við heimsóttum þau í hitteðfyrra og þá reyndi ég að fræðast af skógarbændunum. Maður Báru sagði; láttu birkið taka yfir, þá nærðu valdi á þessu. Það er það sem við erum að gera hér en við leyfum eikinni og hlyninum vera með í því sem tekur yfir. Það mun mörgum Íslendingum þykja skrýtið, en hér er reyniviður hreinlega illgresi. Hann tekur hratt yfir ef ekkert er að gert. Það er í fyrsta lagi honum að kenna og svo greni líka að svo mörg tré eru með nakta stofna upp í tíu metra hæð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0