Að óttast ókunnar slóðir

Í dag hef ég verið að sýsla hér úti og koma vissum hlutum í það form sem ég vil hafa þá í framvegis. Þetta hefur meðal margs annars falist í því að bora gat í hliðina á það sem hér kallast þriggja hólfa brunnur. Það er að segja brunnurinn sem tekur við kúk og skít frá klósettinu, sturtunni, eldhúsinu og öllu því vatni sem við notum innan húss. Til þess þurfti ég líka að grafa nægjanlega djúpan skurð. Þegar ég boraði fyrsta gatið var það fimm sentimetrum of neðarlega þannig að ódámurinn rann á móti mér í skurðinn þar sem ég lá á hnjánum með borvélina. Og auðvitað þurfti ég að opna brunninn inn í það hólf sem varðveitir ódáminn nákvæmlega eins og hann kemur fyrir þegar hann kemur frá húsinu.
 
Ég þurfti líka að renna til þungu lokinu sem lokar brunninum og fara með höfuðið niður í hann að öxlum eða svo til að geta séð og gengið frá öllu á viðeigandi hátt. Það segir í leiðarvísum að þurfi maður niður í svona brunna, þá skuli maður vera á varðbergi því að það geti verið banvænt gas þar niðri. Þess vegna og einnig af þeirri ástæðu að það lyktar ekkert aðlaðandi undir lokinu, þá hélt ég niðri í mér andanum eins og ég mögulega gat. Ekki freistaði heldur útlitið og ég reyndi að hafa mínar heimsóknir undir brunnlokið sem allra styttstar. Svo gerði rigningarskúr þannig að moldin sem ég hafði mokað upp á skurðbakkann varð að leðju.
 
Þrátt fyrir þetta skítverk var það ýmislegt sem flaug gegnum huga minn sem var algerlega óskylt aðstæðunum. Ég velti til dæmis fyrir mér gagnssemi þess sem ég var að gera og ég velti fyrir mér hvort Íslendingum mundi takast að kjósa sig í átt að nýju Íslandi á morgun eða hvort þeir mundu bara halda áfram að lulla áfram í sama gamla farinu. Kannski er einfaldast að halda áfram í sama farinu vegna þess að það er eitthvað kunnuglegt.
 
Langt gengnir alkohólistar og eiturlyfjaneytendur geta orðið skelfingu lostnir af þeirri hugsun einni að líf án þessara efna sé eitthvað sem þeir alls ekki þekkja til. Þeir gera sér samt grein fyrir því að það yrðu tímar allt annarra lífsgæða og ómældra nýrra og spennandi möguleika -en, líf á ókunnum slóðum. Það er þetta ókunna sem er svo skelfilegt. Því kemur það ósjaldan fyrir að þeir velji aftur flöskuna eða fíkniefnin, alla vega enn um sinn, vegna þess sem þeir þekkja ekki til.
 
 
*     *     *
 
 
Svo einkennilegt sem það nú var þarna í sannkallaðri drullunni í dag, þá datt mér í hug vísdómsorð sem ég hef lesið undanfarna daga. Mér hefur fundist þau segja svo mikið og fá mig til að hugleiða eitthvað mannbætandi. Hins vegar var tímabil þar á undan sem mér fannst ekki svo mikið til þessara vísdómsorða koma. Ég velti fyrir mér hvers vegna en komst ekki að neinum stóra sannleika, en var þó helst á því að það væri eitthvað innra með mér sjálfum sem gerði þetta að verkum.
 
"Óttastu minna og vonaðu meira, borðaðu minna og tyggðu meira, kvartaðu minna og andaðu meira, talaðu minna og segðu meira; elskaðu meira og öll heimsins gæði munu falla þér í skaut."
 
Þetta stendur í Kyrrð dagsins þann 25. júní og er sagt vera sænskur málsháttur. Ég er búinn að lesa þetta hvað eftir annað síðan þann 25. og mér datt í hug áðan að ég ætti að gera þetta að bæði morgun- og kvöldbæn. Endurtaki ég nógu oft með sjálfum mér einhvern jákvæðan og mikilvægan sannleika, þá fer hann að verða hluti af sjálfum mér. Þannig losnaði ég við gömlu fýluna, jafnvel ilskuna, þegar ég borgaði mánaðarreikningana. Þegar ég loasnaði við reikningafýluna byrjuðu líka peningarnir að endast betur. Trúi þeir sem trúa vilja, en sannleikurinn er bara sá að þetta er staðreynd.
 
Þennan las ég svo á Feisbókinni í dag: "Allir eiga til kjánalega dynti, en mesti kjánaskapurinn er að eiga engan."
Nikos Kazantzakis sem uppi var 1883-1957 á að hafa sagt þetta. Ég forvitnaðist um þennan mann á Google og komst að því að hann fæddist á Krít og var meðal annars rithöfundur, ljóðaskáld, leikritahöfundur og heimspekingur. Hann var mjög vel menntaður og auk fyrrnefnds var hann um tíma ráðuneytisstjóri og ráðherra. Á legsteini hans stendur að hann voni ekkert, óttist ekkert og að hann sé frjáls.
 
Ég á til kjánalega dynti og að sjá að mesti kjánaskapurinn væri að eiga engan, gerði það að verkum að ég vildi vita hvort maðurinn gæti staðið undir þessum orðum. Ég komst að því að svo væri og það gerði mig harla glaðan. Það er þegar ég segi eitthvað sem ég hefði átt að láta ósagt sem mér finnst að ég geri mig að mestum kjána. Það fer líka óneitanlega saman við sænska málsháttinn sem segir; "talaðu minna og segðu meira".
 
Ég hafði ekki í huga að skrifa neitt en seinni partinn í dag heyrði ég Valdísi segja í síma að ég væri að skrifa eitthvað. Ég var bara ekkert að skrifa, heldur að laumast á Fb í pásu sem ég tók. Þegar ég heyrði hana segja þetta ákvað ég að skrifa eitthvað þegar liði á kvöldið en þó ekki of seint. Ég þarf að hvíla mig vel og lengi í nótt.
 
Eigið góða helgi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0