Af hverju ertu að þessu?



Fyrsti kafli

Morgunverðurinn í dag var hreint alls ekki fyrir allar aldir. Meðan við borðuðum töluðum við um hvað yrði á dagskránni í dag. Valdís sagðist ætla að þrífa innan bílinn hvað sem raulaði og tautaði. Ég ætlaði að grisja í skóginum á stað sem ég hafði ekki svo mikið sem stigið inn á þótt undarlegt kunni að virðast. Svo ætlaði ég að vinna við hlaðið sem ég er að gera bakvið ákveðna geymslu. Svo fórum við af stað. Þegar ég vissi að Valdís væri í fullum gangi með bílinn sótti ég myndavélina. Hún hrópaði ekkert húrra þegar ég tók fyrstu myndina.


Þegar ég tók aðra myndina spurði hún af hverju ég væri að þessu? "Skammastu þín fyrir að vera að taka mynd af mér sitjandi við að þrífa bílinn." En ég skammaðist mín ekki. Ég gat heldur ekki séð að það væri betra að leggjast á hnén eins og ég hefði þurft að gera ef ég hefði verið að gera þetta.


Svo þegar hún var að ryksuga farangursgeymsluna tók ég mynd af henni án þess að hún sæti á stól. Valdís telur það sitt verk að þrífa bílinn að innan og þegar hún gerir það gerir hún það með glæsibrag. Svo verður bíllinn eins og þegar hann var nýr, nema að það vantar nýbílalyktina í hann þar sem hveitibrauðsdagar hans eru liðnir. Hann er eins og hálfs árs núna. Valdís er hins vegar talsvert eldri en mér sýnist hún ekki hampa háum aldri á þessari mynd.


Litla frímerkið þarna út við skóginn er hlaðið sem ég var að bardúsa við í dag. Það er reyndar stærra en sést á myndinni og stærra en það virðist vera. Það er nauðsynleg að hafa svona í sveitinni. Þarna verður hægt að vinna við eldiviðinn í framtíðinni og geyma eitt og annað sem við viljum ekki hafa á of áberandi stað á Sólvöllum. Bekkinn eða borðið þarna til hægri smíðaði ég árið 2006 þegar við byggðum við í fyrra skiptið. Á endanum nær á myndinni er passlegur staður fyrir vélsögina og svo passar hæðin á borðinu þannig að það er hægt að vinna þarna við að saga stóra planka. Haganlegt borð og búið að gera mjög mikið gagn. Nú er það að verða slitið og lendir sennilega á eldiviðarhaug endurvinnslunar í haust og notast svo við að hita vatn í orkuverinu í Örebro.


Svo ef einhverjum líður betur með að vita það, þá lít ég svona út þegar ég ek hjólbörum. Fuglahólkinn efst á myndinni á trénu sem er nær fékk ég að gjöf frá vinnufélaga þegar við keyptum Sólvelli. Öll ár síðan hefur svartþrösturinn verpt í þennan fuglahólk. Það er orðtæki í Svíþjóð þegar einhver er undrandi, skilur ekki og veit ekki neitt, að hann sé eins og fuglahólkur. Skilji maður það ekki er bara að horfa á fuglahólkinn á myndinni.

 

*

 

Annar kafli

Nýlega bloggaði ég um öfund, í fyrradag held ég. Það kom að hluta til vegna þess að við erum að fá heimsókn, það er að segja á miðvikudag, en þá koma þau Dísa og Ottó, okkar gömlu grannar og samferðafólk frá Hrísey. Ég birti hér aftur hluta af bloggi sem ég birti fyrir nokkrum vikum og var um öfund. Ég nefndi bloggið Dyggðin og öfundsýkin.

 

"Það var 1972 sem þrjár fjölskyldur byrjuðu að byggja við Sólvallagötuna í Hrísey. Það vorum við Valdís og næsta hús neðar í götunni byggðu Rósa og Ásgeir en hinu megin við götuna byggðu Dísa og Ottó. Allar þessar fjölskyldur fluttu inn ári síðar, sumarið 1973, og voru húsin þá nokkuð misjafnlega tilbúin. Einhvern tíma sumarið 1973 þegar ég kom heim eftir vinnu sagði Valdís mér að Ottó og Dísa væru búin að kaupa bíl, Landróver jeppa. Jahá! Það var naumast! Síðar um kvöldið stakk Valdís upp á því að við gengjum yfir til Dísu og Ottós og svo gerðum við. Þetta var á þeim árum þegar fólk gekk gjarnan yfir til nágrannans, bankaði upp á og opnaði sjálft og spurði hvort það væri til kaffi.

Svo gerðum við Valdís þetta kvöld. Þegar við vorum setst inn og byrjuð að spjalla saman spurði Valdís eitthvað út í nýja bílinn þeirra. Öfundin út af þessum bílakaupum gerjaði í mér eins og ígerð í graftarkýli og þegar Valdís byrjaði að tala um bílinn þeirra sagði ég hátt og greinilega: Komum við hingað til að tala um bíla? Ekki man ég hvernig viðbrögðin voru, en þegar við komum heim spurði Valdís mig undrandi hvers vegna ég hefði brugðist svona undarlega við. Ég er viss um að ég sagði Valdísi ekki sannleikann um það mál, en ég gerði mér vel grein fyrir því að vinur minn Ottó ávaxtaði sitt pund betur en mér tókst að gera á þeim árum. Ég þekki til öfundarinnar. Þetta er smá hlægilegt í dag og ég nota þetta í vissa fyrirlestra mína um það sem alkohólistarnir þurfa að venja sig af. Þeir þekkja sig mjög vel í þessu og bresta í hlátur."


Það er býsna þægilegt að segja öðru hvoru sannleikann num sjálfan sig, eða svo finnst mér. Þá hef ég efni á því að segja ýmislegt sem annars virtist kannski ekki vera alveg ekta.

 

Nóg af bloggi í dag. Eftir tvo tíma er þessi dagur, laugardagurinn 9. júlí liðinn. Á morgun er nýr dagur og ný markmið.



Kommentarer
Valgerður

Það á eftir að verða gaman og margar sögustundir á meðan Ottó og Dísa stoppa. Njótið og ég bið að heilsa þeim.

Valgerður

2012-06-10 @ 12:34:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0