Vornesdagurinn og fjöldasöngurinn

Vornesdagurinn var i dag. Það er fyrsti laugardagurinn í juní ár hvert sem Vornesvinir kalla gjarnan Vornesdaginn. Þennan dag er Vornes opið öllum sem hafa verið innskrifaðir á meðferðarheimilið, eru nánir einhverjum sem hefur verið þar eða hreinlega þykir Vornes vert heimsóknarinnar. Það eru fá skilyrðin fyrir að fá að koma en eitt óskrifað skilyrði hefur alltaf verið uppfyllt; það er að vera ekki undir áhrifum ef maður vill heimsækja Vornes þennan dag.

Þegar ég ók inn trjágöngin í dag renndi ég í huganum yfir fyrstu komu mína þangað einn kaldan og dimman dag í desember 1995. Í huganum upplifði ég eitt stórt og spennandi vintýri, ég var hugaður og framagjarn og feginn að fá aðeins hvíld frá Valdísi sem ég hafði skilið eftir eina upp í Falun í 240 kílómetra fjarlægð. Þegar ég síðan gekk upp tröppurnar í Vornesi í lok ferðar var ég beinn í baki, hvatur í spori og heilsaði danska ráðgjafanum Jette, sem vann sunnudaginn sem ég kom þangað, yfirlætislegur og drjúgur og spurði hvort ég fengi ekki eitthvað að rífa í mig eftir fjögurra tíma ferð frá Falun.


Það voru þessi trjágöng sem ég talaði um í stykkinu hér ofan við, síðasti spölurinn heim að Vornesi. Kannski hefur einhvern rennt grun í það, en ég vil nú afhjúpa það sem ég sagði þar; það eina sem er satt í því stykki er að það var dimman og kaldan sunnudag snemma í desember. Allt hitt var skrök. Hið sanna er að ég var að halda á vit einhvers sem ég gerði mér enga grein fyrir hvað var og þar sem ég þekkti engan. Ég var óöruggur en eftirvæntingarfullur og framagirni hafði alls ekkert rúm í hugskoti mínu. Fyrst ætlaði ég að fara svo tímanlega af stað frá Falun að ég mundi fá bjartan dag alla leiðina, en mér var svo þungt að skilja Valdísi eftir eina að það dróst og dróst á langinn að ég færi af stað, enda lenti ég í desembermyrkrinu eftir um það bil hálfa leið. Það sem ég huggaði mig við var það að Valdís hefði fengið góða vini á vinnustaðnum þar sem hún var búin að vinna nokkra mánuði, virkileg tryggðatröll sem hún hafði kynnst.

Þessa daga var óvenju kalt og það hafði áhrif á mig. Þegar ég að lokum gekk upp tröppurnar í Vornesi voru skref mín hæg og frekar þreytuleg og mér var léttir að því hversu vel Jette tók á móti mér. Ég hafði sterkt á tilfinningunni að nýtt tímabil væri að hefjast í lífi okkar Valdísar. Þó að maðurinn sem hringdi til mín þremur dögum áður segði að það væri enga vinnu að hafa þarna, þá gerði ég mér vel grein fyrir því að mér hefði aldrei verið boðið að koma í Vornes til að dvelja þar í eina viku bara til að hringla eitthvað með mig. Þú hlýtur að vera svangur sagði Jette og smurði handa mér brauð og hitaði kaffi. Eftir þetta kaffi kynnti hún staðinn svolítið fyrir mér og á þeirri stundu var það víðs fjarri í huga mér að ég mundi verða bundinn honum næstu 17 árin.

Dvöl mín í Vornesi í dag var tregablandin á köflum. Ég tók mig inn í stóra herbergið þar sem starfsfólk heldur morgunfundi sína og sat þar um stund í einrúmi og hef sjálfur setið þar einhver þúsund morgunfundi. Síðan fór ég út á svalirnar norðan á húsinu og horfði yfir hlaðið og næsta umhverfi. Í húsinu þarna tilhægri hef ég sofið nokkur hundruð eða kannski mörg hundruð nætur, en það var í öðru húsi þar sem ég gisti fjórar fyrstu næturnar sem ég dvaldi í Vornesi. Það var annað kvöld mitt á staðnum þegar kona sem vann kvöldið kom út í húsið til mín og sagði að það væri sími til mín, ég ætti að hringja heim. Þegar Valdís kom í síman sagði hún mér frá því að mamma sín lægi trúlega banaleguna. Seinna um kvöldið þegar ég hringdi aftur heim var hún dáin. Ég spurði Valdísi hvort ég ætti ekki að koma heim að morgni en hún kvað nei við. Það væri í lagi með sig.

Þannig var nú fyrsta vinnuvika mín í Vornesi, en sannleikurinn var sá að ég var þar ekki bara til að vera, ég var í vinnu. Ég átti ekki von á því. Í dag hitti ég þrjá fyrrverandi sjúklinga sem voru þar í meðferð árið 1999, eða fyrir þrettán árum. Þau minntu mig öll á eitthvað sem ég hafði sagt og ég varð svolítið hissa. Ég átti ekki von á því að ég hefði árið 1999 talað til sjúklinga minna þeim vísu orðum sem þau sögðu mér frá í dag. Maður um fertugt sagði líka að frásögn sem ég hefði notað í fyrirlestur fyrir fáeinum árum hefði snert hann svo mjög að það hefði breytt sýn hans á lífið. Hann mundi bara eina setningu og ég velti fyrir mér hvaða frásögn þetta hefði getað verið. Það var ekki fyrr en á leiðinni heim sem ég áttaði mig á því að þetta var úr mínu eigin lífi og ég bjó til aðrar persónur til að klæða söguna í. Ég hef aldrei áður á Vornesdeginum verið minntur svo  mikið á það hvernig ég hef unnið gegnum árin.

Svo var komið að heimferðinni.

 

Við frá Vornesi vorum á jólahlaðborði í Vingåker fyrir all nokkrum árum og um níu leytið um kvöldið vorum við Ingemar á leið heim. Ingemar beið þá eftir stórri hjartaaðgerð. Hann á heima skammt sunnan við Örebro. Hann fór á undan og ók varlega og ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð á eftir honum. Þegar við komum á þennan beina vegarkafla kom vörubíll á móti okkur. Rétt áður en Ingemar mætti vörubílnum sá ég í ljósgeislanum frá honum hvernig dádýr hentist yfir veginn og síðan aftur til baka augnabliki síðar. Vörubíllinn stoppaði og Ingemar stoppaði. Á veginum lá hjörtur, ekki dádýr, og stundi þungan í dauðateygjunum. Bíll Ingemars var töluvert mikið skemmdur. Dýrið hafði kastast frá vörubílnum og fram fyrir bílinn hjá Ingemar.

Hann hafði farið út úr bílnum og svo settist hann þversum í bílstjórasætið með fæturna á malbikinu. Hann hélt hendi fyrir brjóst sér og marg endurtók; mér er svo illt í hjartanu, mér er svo illt í hjartanu. Að undanskildum sjúklingum í Vornesi held ég að mig hafi aldrei langað jafn mikið að taka fullorðinn karlmann á hné mér og veita honum öryggi. Ég hef að vísu aldrei tekið sjúklingana á hné mér en ég hef oft veitt þeim öryggi. Þegar við komum heim að húsi Ingemars síðar um kvöldið fylgdi ég honum heim að dyrum. Hann lagði hendur yfir herðar mér og þakkaði mér fyrir daginn. Svo sagði hann enn einu sinni að hann bara skildi ekki hvaðan hjörturinn hefði komið. Þetta var í þá daga og ferð mín í dag heim á Sólvelli hélt áfram.

 

Ég var kominn heim í Lekebergshrepp og var á hinu miklu matarframleiðslusvæði sem Krekklingedalurinn er. Bæði var ég með hugann heima við en einnig svífandi í minningum sem dagurinn hafði vakið upp. Ég hafði ef til vill ekki gert mér grein fyrir því fyrr hversu ríkt lífið hafði verið síðan ákvörðunin hafði verið tekin eftir símasamtalið við Ingólf Margeirsson haustið 1993.

 

Og áfram höldum við eftir Krekklingedalnum og komum til Torp þar sem vegurinn liggur um hlaðið milli mikilla bygginga sem þar eru. Fríkirkjurnar í Svíþjóð eiga Torp og þar eru ýmsar uppákomur á sumrin. Sú stærsta er í Jónsmessuvikunni þegar um 15000 manns hittast þar. Torp er innan við tvo kólómetra frá Sólvöllum. Fólk hér í kring segir að það sé ótrúlegt hversu vel þessar stórsamkomur fari fram. Það sé ekkert fyllerí, enginn hraðakstur, engin slagsmál eða læti og engin lögregla vaki þar yfir fóksfjöldanum. Arnold bóndi segir að einstska sinnum fari lögreglubíll um hlaðið í Torp þegar þessar stórsamkomur standa yfir, en það sé bara til að sýna sig og vinka fólki. Þeir stoppi þar aldrei. Kannski að það finnist góð fyrirmynd í háttarlagi þessa kristna fólks þegar það kemur saman. Nokkuð að hugleiða. Nú yfirgefum við Torp eitt augnablik en komum þar við aftur seinna í kvöld.

 

Hér sjáum við heim á Sólvallasvæðið. Sólvellir sjást þó ekki því þeir eru á bakvið drjúgmikinn skóg sem við sjáum þarna til hægri á myndinni. Valdís var búin að ákveða að taka því rólega í dag þar sem hún ætlaði að vera þátttakandi í ævintýri frá klukkan sex síðdegis og fram undir klukkan níu. Hafðu það gott kórinn átti nefnilega að syngja fyrir fjöldasöng í Torp. Fyrst átti að æfa í einn klukkutíma og svo átti fjöldasöngurinn að taka tvo tíma.

 

*

 

 

Þannig leit það út á einni af senunum í Torp í kvöld. Valdís er þarna til vinstri og er greinilega að syngja. Það var svo sem enginn fjöldi á þessum fjöldasöng, við giskum á 150 manns. Nú erum við búin að eiga það lengi heima á Sólvöllum að á samkomum hér í nágrenninu erum við farin að þekkja dálítið af fólki. Það var áberandi þarna að það fólk sem kom til  að taka þátt í samkomunni var yfirvegað og virtist einfaldlega í góðum málum. Það var mikil prúðmennska, snyrtilegt fólk og þægilegt. Tveir tímararnir urðu næstum tveir og hálfur tími.

Í gær hugsaði ég sem svo að ég gæti gert ýmislegt þarft heima ef ég færi ekki í Vornes. Fjöldasöngurinn var ekkert að tala um, þangað skyldi ég fara. Í morgun hugsaði ég sem svo að ég gæti gert ýmisleg þarft hér heima í dag. Ég fór í Vornes og ég fór á fjöldasöng og ég bara get ekki sagt annað en dagurinn hefur verið mjög ríkur dagur.

Ég læt svo fylgja tvær myndir í lokin sem sýna hvað það er sem Valdís er þátttakandi í hér í Lekebergshreppi.


Þessir kallar taka sér tíma til að vera undirleikarar Hafðu það gott kórsins.
Kórstjórinn Anders og upphafsmaður kórsins er lengst til hægri.


Svo tekur fólk þátt í svolitlu sprelli inn  á milli. Annars eru svona samkomur vandaðar
og sprellið gerir þær bara ennþá vandaðri.

Dagurinn 2. júní 2012 er liðinn í aldanna skaut.


Kommentarer
Markku

"Maður um fertugt sagði líka að frásögn sem ég hefði notað í fyrirlestur fyrir fáeinum árum hefði snert hann svo mjög að það hefði breytt sýn hans á lífið."



Det är spännande så det kan bli, några få ord - som kan göra så stor skillnad för någon annan, fint så!

2012-06-02 @ 23:40:12
Guðjón

Ja Markku, härligt det kan bli ibland. Det var en ovanligt riklig dag för min del på Vårnäs i dag. Otroligt vad dessa människor kan komma i håg 13 år senare. Och duktig du är att läsa isländskan.



Mvh, Gudjon

2012-06-03 @ 00:34:59
URL: http://gudjon.blogg.se/
Þórlaug

Takk Guðjón.



Kærar kveðjur,



Þórlaug

2012-06-03 @ 01:09:27
Þórlaug

Í Vornesi varst þú réttur maður á réttum stað Guðjón.

Valdís sýndi líka hvað hún er sterk þegar hún sagði þér að koma ekki heim þegar mamma hennar dó.



Bestu kveðjur til ykkar,



Þórlaug

2012-06-05 @ 01:02:23


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0