Raftækjasaga

Það er eftirmiðdagur, laugardaginn 9. júní á því herrans ári 2012. Við vorum bæði úti við, ég í skógarvinnu en Valdís að þvo bílinn innan. Valdís slapp við regnið en rétt eftir að hún var búin og komin inn byrjaði að rigna drjúgt. Regnið er af þessari skemmtilegu tegund þegar það bara fellur svo ósköp afslappað beint niður í töluverðu magni. Ég er auðvitað dálítið skrýtinn, en mér nefnilega finnst þetta stórgott veður. Það má að vísu ekki standa allt of lengi, en mikið virðist allt verða frjósamt og vellíðandi í veðrinu eins og það er núna. Trjágreinar slúta aðeins meira í regninu og lítil tré hér fyrir utan gluggann minn lúta höfði þrátt fyrir að hafa reynt eftir bestu getu að halda fullri reisn. En svona er það með ungdómarna, þeir standa ekki alltaf af sér það sem þeir fullvöxnu ná að gera. Hitinn lækkaði úr 18 í 15 gráður þegar tók að rigna.

Þetta regn, eins og svo mörg önnur, gefur kost á því að fara inn, hita kaffi, skrifa svolítið, fá sér svo kaffi með ilmandi ristuðu brauið með til dæmis osti og svolítilli sultu. En hvað ætla ég svo að skrifa? Mér hefur verið efst í huga frá því í gær þetta með eldavélina og viftuna. Helmingurinn af eldavélinni virkaði ekki lengur og við fengum rafvirkja, Robban, sem var að vinna í næsta húsi til að mæla hvort straumurinn kæmi óhindrað inn á vélina. Svo hringdi ég í Patrik, yfirmann Robban, og hann kom og leit á eldavélina. Svo sagði hann að það væri eitthvað að sem væri utan hans þekkingar.

Fyrst hann var nú hérna báðum við hann að líta á viftuna þar sem húnn hafði hætt að virka áður en eldavélin bilaði. Svo skoðaði hann viftuna og allt í einu var hún í góðu lagi. Um kvöldið var viftan ekki lengur í lagi. Við töluðum við ratækjaþjónustu og lýstum sjúkdómi eldavélarinnar. Sá sagði, eins og reyndar Patrik hafði líka sagt, að þetta væri of gömul vél til að láta gera við hana. Bara að fá mann til að líta á vélina kostaði drjúgan skilding og hann sagðist vilja okkur vel þegar hann ráðlegið okkur að kaupa nýja vél. Svo gerðum við og skoðuðum viftur líka.

Við keyptum eldavélina á seinni part viku og borguðum út í hönd. Fimmtudag í næstu viku átti að koma með hana og taka þá gömlu til að skila í endurvinnslu. Um helgina þarna á milli var Valdís að aðhafast eitthvað við eldavélina og hefur líklega rekið sig í takka þar sem allt í einu kviknaði á annarri biluðu hellunni. Svo prufaði hún hina helluna og hún var einnig í lagi. Svo prufuðum við þetta aftur og aftur og vélin var einfaldlega í góðu lagi. Við fórum þá í verslunina og spurðum hvort við gætum rift kaupunum. Það var í lagi og við fengum peningana til baka. Svo báðum við þá að panta fyrir okkur viftu sem við höfðum áður valið. Hún á að koma á þriðjudaginn kemur.

Svo gerðum við matvælainnkaup eftir ferðina í raftækjaverslunina og þegar ég var að leggja frá mér innkaupapoka á eldhúsbekkinn rak ég mig í takka á viftunni. Hún fór í gang og gekk eðlilega. Svo prufuðum við á hraða eitt, tvö og þrjú og allt virkaði eins og í skemmtilegri sögu. Svo prufuðum við aftur og aftur og aftur og viftan var í lagi. Svo fór að rigna og við það brá birtu inni og ég kveikti á ljósinu á viftunni og þá hætti hún að virka. Svo prufuðum við þetta aftur og aftur og aftur og það var bara þannig að þegar kveikt var á viftuljósinu, þá virkaði ekki viftan en þegar slökkt var á því, þá fékk hún gleði sína á ný. Það fer að verða vandræðalegt að koma inn í þessa raftækjaverslun ef við hættum nú líka við viftukaupin.

Það er hætt að rigna, við búin að fá okkur kaffi og ég búin að skrifa barnalega raftækjasögu. Þar sem ég er bara sjötugur vona ég að mér verði fyrirgefið það. Ég ætla út og sinna þörfum verkefnum.


Kommentarer
Grátbjörkin

Er einhver að hrekkja ykkur.Eitthvað er þetta dularfullt með raftækjin.Takk fyrir góð blogg mágur minn.Knús á ykkur.

2012-06-09 @ 22:16:04
Guðjón

Nei mágkona, það er ekki verið að gera at í okkur. Eldavélin er spurningarmerki. Ljósið neðan á viftunni truflar hana þannig að það hefir skýringu. Svo voru það svolítið magnaðar tilviljanir að við rákum okkur í takkana þannig að við urðum þess vör að allt í einu virkuðu tækin. Nú erum við búin að taka peruna úr viftunni og hún gengur eins og klukka. Einhvern tíma spyrjum við einhvern hvort það sé hægt að laga það. Annars verður keypt ný vifta. Það er ekki svo mikil fjárfesting.



Kveðja til ykkar frá mági.

2012-06-10 @ 11:16:14
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0