Í Torp og á heilögum stað

 
 
Þetta blogg mitt er tvískipt en þó tengjast báðir hlutarnir hinum.
 
Fyrri hluti
 
 
 
 Það er tilfellið að Torp er merkilegur staður. Í loftlínu er það um einn kílómeter frá Sólvöllum og ég hef minnst á þennan stað í bloggi fyrir ekki svo löngu síðan, þennan stað sem fríkirkjurnar í Svíþjóð eiga og halda þar stóra samkomu í Jónsmessuvikunni. Aðal hátíðahöldin hefjast á föstudeginum í upphafi Jónsmessuhelgarinnar og einmitt núna er þessi staður orðinn að allt að fimmtán þúsund manna samfélagi, eins fjölmennt eða næstum eins fjölmennt og Akureyri. Á myndinni sér yfir meiri hluta húsakynna þar sem staðsettar eru snyrtingar, nauðsynlegar verslanir og þar sem fram fara alls konar messur og samkomur. Á myndinni sér einnig yfir meiri hluta bílastæða sem staðsett eru á túnum sem tilheyra staðnum. En það sem ekki sést nema að litlum hluta eru tjöld, húsbílar og hjólhýsi þeirra sem þarna búa núna og er lengdst til hægri á svæði sem ekki sést fyrir hæð sem ber á milli.
 
Það eru margir morgunverðirnir sem eru að vaxa á víðáttumiklum hafraakrinum þarna milli myndavélarinnar og Torp. Vinstra megin tekur síðan við víðáttumikill repjuakur sem var mjög fallega heiðgulur fyrir nokkrum vikum.
 
 
 
Fólk er um allt á margra hektara svæði ofan við veginn en bílarnir að mestu á vel skipulögðum svæðum neðan við veginn. Alfaraleið liggur þarna í gegn og hámarkshraðinn er lækkaður niður í 30 km þessa helgi. Allir hlíta því og engin vandræði verða.
 
 
 
Miklum fjölda borða er stillt upp bæði úti og inni þar sem fólk getur setst niður með nestiskrúsirnar sínar eða keypt sér veitingar og snætt þarna í ró og næði. Við Valdís ætluðum að borða heima en það fór þó svo að við fengum okkur hamborgara í boði mínu en Valdís lánaði mér fyrir þeim. Við settumst með þá þarna við borðin og meðan við vorum að borða kom fólk og settist við næsta borð við hliðina á okkur, breiddi dúk á borð og bar svo fram mat. Ég kunni ekki við að taka mynd af þeim en langaði þó til þess.
 
 
 
 Fjær fyrir miðri þessari mynd er sena þar sem maður stjórnaði söng og leikjum þegar við Valdís heimsóttum Torp seinni partinn í dag. Fólk bar börnin sín eða leiddi þau, svona eftir stærð þeirra, og dansaði við þau. Á að giska helmingur kvenna í barneign voru ófrískar þannig að það er lifandi þetta fólk.
 
 
 
 Við vorum ekki fyrr komin á svæðið en Valdís var farin að rekast á kunningja hingað og þangað. Við byrjuðum þó á því að fara í bókabúð þar sem mikið var selt af bókum um andlegheit. Ég kem meira að því síðar.
 
Þarna var engin lögregla. Enginn var drukkinn, enginn virtist lykta af áfengi og enginn sást undir annarlegum áhrifum. Enginn hagaði sér yfir höfuð undarlega eða lá í óreiðu út í móa og enginn gubbaði upp við húsvegg. Það íldi ekki í dekkum og engar svartar rákir voru í malbikinu. Við sáum einungis eina manneskju sem reykti. Allt svæðið var hreinlegt og allt í mikilli röð og reglu. Það var mjög gott að vera þarna og merkja þann friðsama klið sem barst úr öllum áttum.
 
Hvernig getur þetta verið? Er það mögulegt að kristið fólk geti verið til fyrirmyndar?
 
 
*
 
Annar hluti
 
 
Við Valdís fengum miða á Jesús Kristur súperstjarna í jólagjöf frá Rósu og fjölskyldu um síðustu jól. Nú ætla ég að gera játningu: Ég velti því fyrir mér hvort það væri guðlast að fara í leikhús til að sjá þennan söngleik. Fljótlega gat ég að mestu sleppt þessum áhyggjum og við fórum í leikhúsið þann 5. maí. Áður en sýningin hófst tókst mér að lesa í leikskrá að það mætti vel greina á tónlistinni að höfundarnir hefðu oft á tíðum verið undir miklum áhrifum ýmissa efna við gerð verksins. Þá hugsaði ég sem svo að trúlega væri þetta guðlast. Svo hófst sýningin og ég vonaði að Guð sæi mig ekki í fólksfjöldanum þannig að ég slyppi við hvasst augnaráð hans. Þó vissi ég mæta vel að ég slyppi ekki. Svo hófst sýningin.
 
Það var mikill hávaði á sviðinu í byrjun sýningar og fram eftir degi. Eginlega var það eins og allir sem fram komu væru meira og minna mígandi fullir og höguðu sér í samræmi við það. Ég skrúfaði mig til í stólnum og reyndi að halda ró minni. Allt í einu minntist ég texta sem ég las aftan á litlu kveri fyrir all nokkrum árum og þá las ég hann aftur og aftur á all löngu tímabili, en nú hafði ég ekki munað eftir honum í einhver ár. Svo kom hann allt í einu til mín ljóslifandi á þessari sýningu og gerði mér gott. Ég hef alltaf síðan við fórum á sýninguna ætlað að blogga um leikhúsferðina en mig vantaði textann til að geta þýtt hann orðrétt. Ég vissi ekki hvar litli bæklingurinn var niðurkominn hjá okkur, og þó, einhvers staðar í kassa.
 
Þegar ég gekk um bókabúð í Torp í dag rak ég augun í eitthvað kunnuglegt. Allt í einu lá kunnuglegt kver fyrir framan mig og ég greip eitt eintak og leit á baksíðuna. Þar las ég eftirfarandi, það sem ég leitaði að, og það er Richard Foster rithöfundur sem talar: "Ég man enn í dag hinn rigningarsama febrúarmorgun fyrir mörgum árum síðan á einum af flugvöllunum í Washington. Að venju hafði ég tekið með mér eitthvað að lesa til að geta á góðan hátt notað auðar stundir. Í fyrsta skipti í lífi mínu opnaði ég bók Thomas Kelly, Hið innra ljós. . .
. . . þar sem ég sat einsamall á flugvellinum og sá hvernig regnið lamdi rúðurnar. Tár runnu niður kinnar mínar og niður á frakkann. Ég var á heilögum stað, stóllinn sem ég sat á var altari. Ég mundi aldrei framar verða samur maður . . ."
 
Kverið með textanum sem ég ekki hafði fundið í kössunum heima var einmitt Hið innra ljós eftir Thomas Kelly.
 
Þar sem ég sat á leikhúsbekknum og horfði á söngleikinn Jesús Kristur súperstjarna hugsaði ég sem svo að ég skyldi sjá leikhúsið sem heilagan stað eins og Thomas Kelli hafði gert á flugvellinum og stólinn sem ég sat á sem altari. Svo hélt sýningin áfram og ég beið þess vel sáttur sem verða vildi. Svo kom hlé og svo hófst sýningin á ný. Hávaðinn hafði verið svo mikill að mér fannst sem allt leikhúsið hefði haft hátt og áhorfendur líka. Eftir hlé varð allt mun hljóðlátara og það var sem leikarar og söngvarar á sviðinu væru ekki fullir lengur.
 
Í lok sýningarinnar var Jesús krossfestur og hann fór með nákvæmlega sömu orð og sagt er frá í Biblíunni. Síðan dó hann. Meðan krossfestingin var sýnd og meðan dauðastríðið á krossinum stóð yfir var allt dauðakyrrt, ekki bara á sviðinu, heldur var sem enginn drægi andann í öllum heila salnum. Svo sterk áhrif hafði þessi 2000 ára frásögn á sýningargesti. Ég hafði verið á heilögum stað þrátt fyrir allt.
 
 
 


Kommentarer
Björkin

Þetta er þvílík upplifun að horfa á fólkið og hlusta á músíkina í Torp.Gæti hugsað mér að koma þangað aftur. Stórt knús á elsku systur mína og góða nótt mín kæru.

Svar: Góða nótt
Gudjon

2012-06-22 @ 23:20:58


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0