Að endurheimta jafnvægi og lífsgleði

Að vera sjötugur og óþroskaður er ekkert einfalt mál. Mér bæri kannski að þegja yfir þessu en það hefur sína ókosti. Ef ég bara skrifa um það sem mér tekst vel og það sem er fallegt og það sem er í besta lagi, þá verða skrif mín ótrúverðug og fölsk. Svo væri kannski bara best að skrifa ekki neitt og segja sem allra minnst, þá er minni hætta á að mér verði á í messunni með orðum mínum og þá er minni hætta á að fólk hlæi að mér. En það er nú einu sinni svo að mér er nokkuð sama þó að einhver hlæi að mér eða verði hissa á að mér þyki eitt eða annað. Því ætla ég nú að gera játningu.
 
Í gær greiddi ég reikningana okkar og þeir voru mikið fleiri en ég átti von á -og mikið hærri. Þegar því var lokið var ég reglulega ánægður með mig og ég var ekki einu sinni fúll yfir því að reikningarnir væru hærri en ég hafði haldið. Svo tók ég fram viðeigandi gögn til að gera ákveðna skattaskýrslu til Tryggingastofnunar ríkisins fyrir okkur Valdísi. Þá byrjaði að fara í verra. Sá sjötugi varð barnalegur og þungur á brún.
 
Reyndar var allt við hendina en það er eiginlega ekki alveg einfalt að gera þessa skýrslur með ólíkum nöfnum á tegundum greiðslna sem ekki passa alveg á milli landa. Ég fæ heldur engan ellilífeyri svo að það var ekki til að auka hrifningu mína, en Valdís fær alveg þokkalegan ellilífeyri og mjög góðan ef hrunið hefði ekki orðið og krónan fallið. Mér fannst betra að vinna og fá á að giska sjötíu sinnum meira fyrir það en það sem ég hefði fengið í ellilífeyri frá Íslandi.
 
Hér í landi talar fólk um að það sé mikil skriffinnska. En ef sama fólk vissi hvað mikil skriffinnska er varðandi ellilífeyrinn okkar frá Íslandi, þá mundi það hrista höfuðið. En eitt vil ég þó segja; að þegar tekjur maka höfðu ekki lengur áhrif á ellilífeyri hins makans, þá var stigið stórt framfaraskref hjá hinu unga íslenska lýðveldi. Svona voru hugsanir mínar í gærkvöldi og áður en ég sofnaði hafði ég skrifað niður spurningar sem ég ætlaði að leggja fyrir þann sem svaraði mér hjá tryggingarstofnun þegar ég hringdi þangað að morgni til að fá aðstoð.
 
Það er skemmst frá því að segja að þegar ég spurði í morgun í hvaða línu ég ætti að setja það sem kallast þjónustulífeyrir, þá svaraði maðurinn með svolitlu kokhljóði; "aaaaaah! settu það í einhverja línu". Þá varð þetta óttalega einfalt og bréfið er farið í póst. Valdís sagði líka í gær að ég gerði þetta allt of vandlega.
 
 
*       *       *
 
Tímanlega í morgun héldum við Valdís á Háskólasjúkrahúsið í Örebro. Nú var alvara á ferðum, lyf í æð öðru sinni og geislun í fyrsta skipti. Þessu fylgdu alls konar skiupulagningar, flakk á milli deilda, auka rannsóknir og vinnudagurinn hjá Valdísi varð yfir níu tímar. Við fórum um marga langa ganga strax í byrjun og flökkuðum milli fyrstu og fimmtu hæðar við innskráningu blóðpróf og viðtöl. Að lokum höfnuðum við á biðstofu þar sem við biðum eftir viðtali við lækni sem ákveður lyfjagjöfina.
 
Á biðstofunni voru þegar nokkrar manneskjur, alvarlegar, fölar og mjög þögular. Tvö pör voru þarna og þau voru einnig þögul. Strax á eftir okkur kom einsömul kona sem eftir innskráningu settist í lítinn sófa og horfði beint fram. Einhvern tíma hefur hún eflaust horft á lífið með mikið, mikið líflegra augnaráði og bjartsýni en hún gerði nú. Svo komu inn hjón sem settust skáhalt fyrir aftan okkur og héldu uppi líflegum samræðum, en það hafði ekki áhrif á hina.
 
Ég leit yfir þennan hljóða skara að frátöldu parinu sem hélt uppi samræðunum bakvið okkur og svo leit ég í laumi á konuna sem kom að norðan haustið 1960. Hún bar sig ekki illa og hún var ekki föl. Mér fannst hún reglulega dugleg og ég dáðist að henni á þessari stundu. Hún kom suður til að vinna á Hrafnistu í Reykjavík og ég hitti hana. Ég kastaði út neti mínu og fangaði hana. Við bjuggum okkur hreiður og að hún ennþá býr í sama hreiðri og ég sýnir trygglyndi hennar.
 
Þarna á biðstofunni fannst mér sem ég hefði aldrei orðið veikur á ævi minni og því gæti ég alls ekki sett mig í spor neins sem þar var. Mín veikindi voru svo óttalega lítilfjörleg. Þarna inni var nefnilega óendanlega mikil alvara og hvernig átti ég, ég sem lék barn í gærkvöldi, að geta sett mig inn í þá alvöru. En það sem ég var þó ánægðastur með var að við Valdís gátum talað saman.
 
Að lokum vorum við kölluð inn til læknisins. Malin heitir hún, mjög ungur læknir. Hún talaði af umhyggju, gætni og skilningi. Ég vissi að Valdís vildi spyrja ákveðinnar spurningar og var farinn að álíta að henni fyndist það ekki viðeigandi. Þegar Malin gaf færi á því spurði ég spurningarinnar og sagði: Er geislunin sjálf erfið eða sársaukafull? Þá svaraði Malin í allt annarri tóntegund: Ja, nei, nei, nei, maður veit alls ekki af því. Ég sá að axlir Valdísar lyftust.
 
Ég yfirgaf Valdísi á sömu biðstofu og við komum inn á í upphafi og  þá beið hún eftir lyfjum í æð. Svo átti hún að fara í geislunina einum tveimur tímum síðar. Eftir á sagði hún að það hefði verið erfiðast að þurfa að halda handleggjunum í ákveðinni stellingu í langan tíma. Ég fór heim og lauk við skattaskýrslurnar til tryggingarstofnunar og fór svo á hreppsskrifstofuna í Fjugesta til að fá fleiri stykki af afritum til að senda með skýrslunum til Íslands. Þegar ég fór út af pósthúsinu eftir að hafa póstlagt þetta allt saman var ég ánægður og hugsaði mér að biðja æðruleysisbænina oft næst þegar ég geri þessar skýrslur, en þær þarf að gera tvisvar á ári. Það mundi fara mér mun betur en ólundin og bægslagangurinn.
 
Ég sótti Valdísi hátt á sjötta tímanum og nú situr hún frammi og horfir og hlustar á músikþátt í sjónvarpinu. Áður var hún búin að horfa á Fjöldasöng á Skansinum, fyrsta þátt ársins. Reyndar er hún að horfa á framhald af þeim þætti í iPadinum. Ég get ekki séð á henni á þessari stundu að dagurinn í dag hafi verið vitund öðru vísi en aðrir dagar. Svona geta fjallkonur tekið hlutunum.
 
Það lágu blöð á nokkrum borðanna á biðstofunni á sjúkrahúsinu, öll með sama texta. Letrið á þessum blöðum var svart utan fyrirsögnin sem var rauð og hljóðaði svo: Að endurheimta jafnvægi og lífsgleði.
 
Jú, sólin skín svo sannarlega handan við hornið.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir gott blogg kæri mágur minn.

Svar: Með bestu kveðju frá Sólvallafólkinu
Gudjon

2012-06-27 @ 12:12:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0