Heimsókn lokið

 Þau komu og þau fóru, þau glöddu og með trega og þakklæti kvöddum við þau. Dísa og Ottó fóru heim í gær eftir rúmlega viku dvöl hjá okkur á Sólvöllum.



Síðustu daga hef ég litið á myndir sem við höfum tekið meðan á heimsókn gömlu grannanna okkar hefur staðið. Eina og eina hef ég vistað á bloggið mitt vegna þess að mér hefur dottið eitthvað í hug þegar ég hef litið á þær, eitthvað sem hefur fengið mig til að hugsa hluti bæði í gamni og alvöru. Myndin hér fyrir ofan hefur hann Pétur tengdasonur greinilega tekið heima hjá þeim í Stokkhólmi þegar við komum þar við á leiðinni frá Arlanda til Sólvalla. Ég fór einn til að taka á móti þeim þar sem Valdís þurfti á sjúkrahúsið í Örebro þann dag og þar að auki hefði þetta ferðalag kannski verið full mikið fyrir hana eins og á stendur.
 
Mér fannst ég verða að nota þessa mynd en ég man ekki hvernig hún barst til mín. Ekki veit ég hvað það eru mörg ár síðan Rósa hafði hitt Dísu og Ottó en þau eru mörg. En alla vega, þarna hittust þau á ný og endurnýjuðu kynnin. Þegar við komum út úr bílnum í götunni utan við heimili þeirra voru þau þar öll úti við og Hannes Guðjón hreifst af gestunum. Svo þegar við Dísa og Ottó vorum farin frá Stokkhólmi fóru Rósa og Pétur með Hannes Guðjón út á leikvöll. Þá spurði Hannes eftir Ottó. Heimsóknin hafði skilið eitthvað eftir hjá honum líka.



Vatnið Hjälmaren er austan við Örebro og sá hluti þess sem er næstur Örebro heitir Hemfjärden. Hemfjärden tengist aðal vatninu með þessu sundi, Ässundet, og gestirnir okkar standa þarna á bryggju við sundið og segjum við ekki bara að þau gæti sundsins á þessari stundu, séu vættir þess.



Svo auðvitað blandaði ég mér í gæsluna og því fékk ég að vera með á þessari mynd. Við hliðina á okkur er stúlka frá fjarlægu landi sem var þarna í unglingabúðum og hún fékk að renna til fiskjar. Hún dró ekki upp neina stórfiska eins og Ottó dró upp úr íshafinu forðum tíð, eða Dísa meðhöndlaði á flökunarborðinu, en fyrir henni, nýfrjálsri í nýju landi, hafa það kannski verið stórfiskar lífs hennar. Við Valdís þekkjum hvað það er að setjast að í nýju landi þó að við gerðum það með frjálsari vilja en stúlkan þarna. Atvikin og upplifanirnar geta þá verið af meiri víðáttu en ella. Ég vona að Dísa og Ottó hafi líka átt sínar upplifanir meðan á þessari heimsókn stóð sem voru stærri en hverdagsleikinn.
 
 
 
Guðjón og Ottó,
tveir af íslensku víkingakyni sem heldur eru farnir að róast niður með sína ljósari kolla eftir því sem árin hafa liðið. Starfsævinni er lokið, eða að mestu alla vega, en svolítið útrásarblóð rennur enn í æðum. Kannski var það þess vegna sem þessir ljósahærðu menn heimsóttu Ässundet í Örebrolén ásamt frúm sínum og tóku völdin á bryggjunni.



Í Örebro er til nokkuð sem nefnist Naturens hus. Á myndinni fylgist Ottó með smáfugli sem leitar ætis í mölinni kringum borðin, eða kannski var það önd. Við sitjum þarna yfir kaffibolla við Naturens hus. Kaffibolli og kannski lítil bolla auka á hugmyndaflugið og eykur selskapsstemminguna. Þessi staður á með notalegheitum að lokka til sín fólk. Meira um það við næstu mynd. Ég, GB, virðist reyna að vera spekingslegur.



Valdís, Svandís og Ottó
að yfirgefa Naturens hus. Það stendur á svæði sem áður voru "ruslahaugar" en hefur af alúð, velvilja og innilegri áhugamennsku verið gert að útivistarsvæði með stígum og smá tjörnum hingað og þangað. Tré sem hafa fallið fá að liggja hvort heldur þau hafa fallið á þurra jörð eða í tjarnirnar. Þannig er reynt að skapa sem eðlilegast umhverfi, svolítið frumskógaumhverfi. Fuglarnir þakka fyrir sig með nærveru sinni og endur má greina í mölinni hægra megin við brúna. Dádýrsspor sáum við á stíg hinu megin við húsið og mikið líf sem gerði ekki vart við sig þegar við vorum þar á göngu okkar hefur hins vegar iðað kringum okkur í ríkulegum gróðrinum og rotnandi trjábolum.


 
Dísa og Valdís.
 Svo vorum við heima á ný og þá var Dísa vinnufús. Þegar við komum heim frá Ässundet og Naturens hus var hún í sumarstemmingu og greip hrífuna og rakaði lóðina. Við Ottó unnum hins vegar við mælingar sem geta verið nauðsynlegar á öllum sveitasetrum þar sem það mesta á að vera í röð og reglu. Eitt sinn kölluðust þessar konur á yfir Sólvallagötuna þegar þær unnu við lóðarhirðingu heima hjá sér í Hrísey. Stundum enduðu þau samtöl með kaffibolla og kannski lítilli bollu -svona til að auka á selskapinn.
 
 
 
Það var komið að brottför og erillinn á flugvellinum var tekinn við eftir kyrrðina á Sólvöllum. "Æ, við verðum bara hálf hallærisleg á mynd hér", sagði Dísa þegar ég tók upp myndavélina. En þau urðu ekki hallærisleg á myndinni. Að öllum öðrum ólöstuðum voru það kannski engir aðrir sem gátu verið heppilegri gestir á heppilegri tíma en Dísa og Ottó voru þessa daga. Mikið þökkum við ykkur vel fyrir komuna og elskulegheitin, það skulið þið vita.
 
Valdís sefur enn fyrir aftan mig þar sem ég er að skrifa þetta í morgunkyrrðinni og ég finn fyrir trega í sálu minni. Tregi er ekki slæmur. Hann gefur til kynna að eitthvað er einhvers virði þegar huganum er rennt yfir farinn veg. Það er mikið sem er mikils virði ef viljinn til að vera þakklátur er fyrir hendi og aðstæðurnar til að upplifa það eru til staðar.
Trackback
RSS 2.0