Nú er komið kvöld á Sólvöllum

Klukkan er hálf fimm á þessum sumardegi og það er hálf rokkið inni. Þar til fyrir nokkrum dögum vantaði rigningu til að hlýindi og blíðviðri gætu komið að notum fyrir náttúruna og ég er þakklátur fyrir rigninguna þó að sólin hverfi á meðan. Margir vilja bara hafa sól á sumrin en það er alls ekki svo einfalt. Beggja bland gerir allt mikið fallegra og betra að njóta af. Sólþurrkuð jörð, gulnaður gróður og ryk er ekki beinlínis eins og það á að vera.

En nú er það svo að fyrir örfáum mínútum dundi hagl niður þó að hitinn væri ein 12 til 15 stig. Haglið spýttist út af þakinu og eina tvo til þrjá metra út frá húsinu. Svo var haglið gengið yfir og drjúgt regn hélt áfram, það drjúgt að það mátti vel greina nið þess á þakinu þó að vel sé einangrað á Sólvöllum. Samkvæmt tölvuspá sænsku veðurstofunnar er þetta skíðasta skúrin þangað til um næstu helgi, en þá á að rigna mikið. Ég held að nú sé jörðin orðin hæfilega mett og ég er sannfærður um að í næstu viku verður landið mun fallegra en það var fyrir rigningu. Eins og er, er ég best geymdur innan við gluggann þar sem ég bauka við lyklaborðið. Klukkan er farin að halla í sex síðdegis.


*

Valdís fór í gær í fyrstu lyfjameðferðina gegn krabbameini. Hvað mundi það bjóða upp á af nýrri lífsreynslu? Það eiginlega vissum við ekki, en þrátt fyrir að orðsporið sem fer af þessum meðferðum sé ekki til að hrífast af, þá höfðu læknar og hjúkrunarfólk jákvæð orð um það. Hins vegar sögðu þau að það væri einstklingsbundið hvernig fólki reiddi af í lyfjameðferðinni. Ég reyndi að segja við Valdísi að aukaverkanirnar mundu trúlega að hluta til verða eins og hún tryði sjálf. Ég held að hún hafi líka farið með því hugarfari. Ég fór með henni inn á sjúkrahúsið og var um stund á stofunni sem hún var lögð inn á. Svo kom hjúkrunarfræðingur, maður nálægt fertugu að nafni Jari. Jari er svo finnskt nafn að það getur enginn borið það sem ekki er finni. Svo hafði hann líka sagt sjálfur hef ég eftir Valdísi. Jari er maður sérstaklega þægilegur í fasi og framkomu, og hann lýsti því hvað hann mundi gera og það fólst í því að setja nál í handlegginn á Valdísi og láta síðan fjóra poka af tveimur sortum af vökvum renna inn um þessa nál. Síðan ætlaði hann að gefa henni sprautur með efnum sem skyldu gera lífið léttara fyrir henni eftir á. Með þetta yfirgaf ég sjúkrahúsið og við ákváðum tíma þegar ég skyldi sækja hana því að hún átti bara að vera þarna meðan lyfin rynnu inn í líkamann gegnum nálina í arminum.

Örlítið fannst mér hún föl þegar ég kom til baka, en að öðru leyti var þetta sú sama Valdís og ég hafði skilið þar eftir. Í gærkvöldi fannst mér hún vera hressari en undanfarið og í dag finnst mér það sama. Ég held bara að mér finnist það líka sagði hún fyrr í dag. Það kemur að því að hjálparlyfin hætti að virka og hvað þá skeður er óráðin gáta, en ógleðilyf hefur hún nú fengið frá apóteki. Ég ætlaði að gefa skýrslu í gær eftir heimkomuna, en ég var svo rosalega þreyttur þegar við komum heim að það var af og frá að ég gæti sett saman óbrenglaða setningu. Valdís sofnaði í stól eftir heimkomuna en ég fann mér eitthvað að bardúsa við sem mér fannst ekki meiga bíða. Svo hringsnerist ég eitthvað kringum sjálfan mig en Valdís var eldhress þegar leið á kvöldið. Hins vegar vildi ég bara leggja mig og sofna. Var það kannski bara aumingja ég sem fékk aukaverkanirnar. Við vissum alls ekki hvað þessi dagur bæri í skauti sér og kannski var það bara eins og Valdís sagði; að það varð spennufall þegar við komum heim. Þar með tel ég mig vera búinn að gefa skýrsluna um gang mála eftir fyrstu meðferðina af mörgum sem Valdís mun ganga í gegnum á næstu mörgum vikum.


*


Í dag fór ég í byggingsrvöruverslunina þar sem við erum í stórum dráttum búin að kaupa eitt stykki hús. Ég hitti Bengt á skrifstofunni hans og talið barst að krabbameini. Sjáðu hann Bert bróður sem er að vinna þarna hinu meginn við glerið! sagði Bengt. Þegar hann gat náð sér upp úr þessum sjúkdómi, lifrarkrabbanum, eins og hann hefur verið veikur af öllu mögulegu í 20 ár, þá getur allt skeð. Tæplega fimmtug frænka sambýliskonu minnar, hélt hann áfram, fór í lyfjameðferð á föstudaginn í síðustu viku. Í gær og í dag er hún að mála hús að utan.

Svo gekk ég yfir til Bert þar sem hann reiknaði út efnispöntun fyrir kúnna. Ég sýndi honum mynd sem ég hafði líka verið að sýna Bengt bróður hans. Og einu sinni enn barst talið að veikindum. Ég er búinn að ná mér sagði hann og konan mín er búin að ná sér eftir brjóstakrabbamein. Það er allt hægt sagði Bert, en ef maður fer í þunglyndi, ja þá verður það erfitt. Svo hristi hann höfuðið og lagði áherslu á; ja, þá verður það erfitt. Bengt og Bert eru bræður og það er Bert sem á byggingavöruverslunina. Það eru margir sem vilja vel og vilja hjálpa og þessar jákvæðu frásagnir eru mikils virði. Valdís er með breitt bak þegar á reynir og hún virkjar þennan velvilja.


*


Nú er komið kvöld á Sólvöllum. Nákvæmlega þegar ég byrjaði að segja frá því fyrr í dag að Valdís hefði farið í fyrstu meðferðina jókst úrkoman mjög og gríðarlegt haglél gekk yfir. Enn, nokkrum klukkustundum síðar, eru haglskaflar til dæmis við þakrennuniðurföllin. Samt hefur hitinn aldrei farið niður fyrir tíu stig. Þegar þetta haglél stóð sem allra hæst var sem elding kæmi niður hér rétt við gluggana. Nánast samstundis byrjaði að dynja ein af þeim mestu þrumum sem ég hef nokkru sinni heyrt. Svo var eins og þrjú eða fjögur högg dyndu á húsinu. Þau líktust þeim höggum sem heyrðust við jarðskjálfta í Hrísey í gamla daga, nema að þessi högg fóru ekki í gegnum húsið eins og jarðskjálftahöggin. Það var eins og þau dyndu bara á sökklinum, eins og húsið yrði fyrir mikilli áreynslu. Þegar stytti upp gekk ég kringum húsið til að athuga hvort merki sæjust eftir eldingu. Þegar ég sá ekkert slíkt leitaði ég á næstu trjátoppum en varð einskis var.

Það er afar kyrrt úti eftir hamaganginn síðdegis og það er almennt kyrrt á Sólvöllum. Við erum sammála um að skógurinn lítur út fyrir að vera hraustur, safaríkur og tandurhreinn eftir þessa úrkomu. Það er spáð 16 stiga hita og nokkurri sól næstu dagana. Á morgun er þjóðhátíðardagur.

Þriðjudagurinn 5. júní 2012 heyrir fljótlega sögunni til.


Kommentarer
Jenný

Sæll Guðjón minn og kærar þakkir fyrir bloggið þitt. Það er ljúft að lesa skrifin þín, enda hefur þú ævinlega verið góður penni. Ég skil mætavel hvað þú ert að ganga í gegnum vinur enda ertum við í svipaðri eldlínu.Ég bið alla góða engla að vaka yfir ykkur og sendi ykkur risaknús og baráttukveðjur frá okkur hér. Knúsaðu hetjuna þína hana Valdísi frá mér.Kveðja Didda

2012-06-06 @ 01:47:27


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0