Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd

Það er mánudagskvöldið 25. september og klukkan er eitthvað nálægt ellefu að kvöldi. Ég hef dregið sængina næstum upp undir höku þar sem ég hálf sit með tölvuna í rúminu heima hjá Valgerði og Jónatan í Smáragötunni í Vestmannaeyjum. Ég hef heyrt verri vindhviður en þær sem takast á við húsið núna en þær eru þó mun verri en þær vindhviður sem leika við húshornin heima hjá mér í sveitinni á Sólvöllum í Svíþjóð. Inn á milli koma hressilegar regnskúrir, koma snöggt og hverfa eins snöggt og blikkað sé auga. Þetta lætur kunnuglega frá fyrri árum utan það hversu snöggt styttir upp. Það er bara eins og stóru þaki sé rennt hratt undir regnið og eftir stendur vindurinn einn þar til næst skúr gengur yfir.
 
Ég renni huganum til daganna sem liðnir eru af Íslandsheimsókn minni og það bregður fyrir trega og minningar flæða fram. Ég er búinn að vera á bernskuslóðunum austur í Skaftafellssýslu eins og ég hef skrifað um áður, hitta fólk í Reykjavík og í morgun kom ég frá henni Guðnýju systur minni á Skagaströnd. Ég sé hvernig árunum hefur fjölgað hjá jafnt yngri sem eldri og að skatturinn sem skaparinn leggur á okkur fyrir árin okkar á jörðinni er greiddur á misjöfnu verði. Mér finnst ég koma létt út úr álagningunni og við viss tækifæri getur mér fundist sem álagningin sé óréttlát. Ég reyni að ávaxta mitt pund vel en hvort það hefur lækkað álagninguna á mig fæ ég trúlega aldrei að vita og ég veit að örlögin geta gripið inn í og breytt henni. En ég er mjög þakklátur fyrir það sem ég hef og hvað örlögin hafa verið mér góð. Góði guð, þakka þér fyrir það sem ég hef.
 
Þar sem ég sit hér nýlega kominn frá Skagaströnd hvarflar hugurinn mikið þangað. Það er gott fólk heim að sækja þar og frændræknin er með afbrigðum. Það má í stórum dráttum segja að stórfjölskylda Guðnýjar systur minnar og Sveins mágs míns búi þar öll og fjölskyldufaðmurinn á Skagaströnd er stór og hlýr. Hún Birna systurdóttir mín og maðurinn hennar, hann Slavko, sóttu mig á Blönduós þangað sem ég kom með Jónatan tengdasyni mínum á leið hans til Akureyrar. Þau léku á als oddi og vinarþelið fyllti bílinn. Síðan komum við heim til Guðnýjar systur minnar og Svenna. Þau eru nokkrum árum eldri en ég en vinarþelið þar og frændræknin þeirra var söm við sig sem áður.
 
Daginn eftir kom hún Björk systurdóttir mín til að heilsa upp á mig, gamla frænda. Talið barst til Hríseyjar og hún varð íbyggin. Rétt áður en hún hélt heim til sín sagði hún við mig; heyrðu, ég kem um tíu leytið á morgun og svo getum við skropið til Hríseyjar. Og svo varð það að við Björk frænka mín, Guðný systir mín og ég skruppum til Hríseyjar.
 
 
Við heimsóttum kirkjugarðinn í Hrísey þar sem legsteinn þarfnast viðgerðar. Ég velkist ekki í vafa um það að þeir sem eru farnir heim að lokinni jarðvist eru allt annars staðar en í kirkjugarðinum. En við að lesa nöfnin þeirra þarna mitt í grænu grasinu, að sjá fæðingardaga og dánardægur, þá er það mikið sem streymir gegnum hugann. Og það er sem hjartslátturinn breytist, umhverfið hljóðnar, augun verða rök. Einhverjar mínútur líða án upphafs eða endis og allt í einu er mál að signa hæglátlega yfir og í huganum að senda sínar innilegustu kveðjur. Svo er dvölinni í Hríseyjarkirkjugarði lokið.
 
Nöfn á förnum vegi í Hrísey í þessari stuttu heimsólkn voru til dæmis Linda Ásgeirs, Rósa Kára, Ragnar Víkings, Heimir Áslaugs, Bjarni í hvönninni, Smári á ferjunni, Nanna Björns, Steinunn Hauks, Fríða og Sigurbjörg Guðlaugs. Og Dúnný, þakka þér innilega fyrir þægilegu spjallstundina og kaffið og soðiðbrauðið með hangikjötinu sem hún Steinunn bar á borð. Ég borðaði svo mikið af soðiðbrauðinu að ég næstum roðna þegar ég hugsa til þess. Og Rósa mín Kára, þakka þér fyrir kjötsúpuna og elskulegar móttökur.
 
Stutt Hríseyjarheimsókn var á enda og leiðin tekin á Skagaströnd þar sem stórveisla var á borð borin hjá henni Birnu frænku minni og ég hitti marga, frændfólk og venslafólk. Ég hefði eflaust hitt hann Stefán systurson minn líka ef hann hefði verið heima en í stað þess var hann að veiða fisk við Færeyjar.
 
 
Ég hafði kvatt alla á Skagaströnd og einmitt þar sem ég var á leið gegnum útidyrnar leit ég við til að rétta upp hendi til kveðju, þá sá ég þetta. Þessi mynd sem blasti við mér hafði sterk áhrif á mig, ég stoppaði við, lagði frá mér töskuna, og bara varð að taka mynd. Þarna er hún litla Björk frænka mín og kúrir í hálsakoti Evu Daggar mömmu sinnar, en Eva Dögg er dótturdóttir Gunýjar systur minnar og hans Sveins. Eva Dögg vildi koma og hitta mig, gamla frænda. Lengra á bakvið Evu er hún Björk systurdóttir mín og mamma Evu, hún sem fór með mig til Hríseyjar. Þá er það hann Sveinn mágur minn sem fór með mig á jeppanum sínum vítt og breytt um Skagaströnd og nágrenni og sýndi mér margt áhugavert ásamt að sýna mér mikla hlýju.
 
Svo er það hann Ísak sem stendur framan við hann Svein langafa sinn og hann er líka sonur Evu og bróðir hennar Bjarkar litlu. Næst lengst til hægri er hún systurdóttir mín hún Birna, hún sem sótti mig á Blönduós og útbjó stórveisluna. Að lokum er það Guðný systir mín, móðirin í stórfjölskyldunni á Skagaströnd. Guðnýju fellur afar illa að standa framan við myndavélar og helst vildi hún losna við það þarna líka. En akkúrat svona var það þegar ég leit við í útidyrunum og þessi mynd var nokkuð föst í huga mér langleiðina í Staðarskála. Jafnframt var ég mjög þakklátur fyrir móttökurnar og alla vináttu á Skagaströnd. Þið eruð ekki gleymdir heldur Ingvar og Slavko, menn Bjarkar og Birnu og ekki heldur önnur frændsystkini sem ég hitti á Skagaströnd.
 
Ég er farinn að þreytast við tölvuna og Óli lokbrá sækir að mér. Mér fannst ég heyra hann segja; farðu nú að sofa gamli. Vindurinn gnauðar ennþá og ég slekk ljósið. Síðar við tækifæri les ég þetta yfir og birti kannski við tækifæri.
 
Það tækifæri er núna.
 
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0