Núna er ég ferðamaður á Íslandi

Þetta blogg skrifaði ég í Vestmannaeyjum, á sænsku fyrir Svía, og var ákveðinn í að þýða það síðan á íslensku. Nú þegar ég er kominn heim og sest niður til að þýða það sé ég auðvitað að það passar alls ekki fyrir Íslendinga því að Íslendingar vita auðvitað svo mikið um eigið land umfram Svíana. En hvað um það; ég þýði það eins orðrétt á íslensku og ég bara best get og akkúrat svona skrifa ég um Íslandsferð fyrir Svía.
 
Það er miðvikudagurinn 20. september og ég sit bakvið stóran glugga sem snýr móti norðri og ég hef útsýni yfir stærstan hluta af Vestmannaeyjabæ.
 
 
Það er hægur vindur og það rignir. Þess vegna sé ég aðeins hálfa leið yfir sundið milli eyjunnar Heimaeyjar og fasta landsins. Vestmannaeyjar er sameiginlega nafnið yfir eyjaklasann sem er samtals fimmtán eyjar og um 30 sker og drangar. Byggð er aðeins að finna á einni af þessum eyjum; Heimaey, og bærinn heitir Vestmannaeyjar með sína um það bil 4300 íbúa. Regnið truflar mig ekki. Á stól nærri stólnum sem ég sit á liggja regnföt þannig að ég get virkilega gengið út í regnið og viðrað mig, en ég er nokkuð ákveðinn í að hafa það rólegra en svo í dag.
 
Húsið sem ég er staddur í er hús dóttur minnar og tengdasonar og hér hef ég gist þó nokkrum sinnum. Þegar þau höfðu farið til vinnunnar í morgun eldaði ég hafragrautinn minn. En fyrst opnaði ég útihurðina til að finna ögn betur hvernig veðrið var. Þegar ég rétti út hendina að handfanginu á hurðinni kom hundurinn Salka og vildi taka þátt í einhverju. Það varð ekkert. Þegar ég hafði lyktað aðeins af röku loftinu lokaði ég hurðinni og Salka lagði sig aftur og hraut friðsamlega.
 
 
Þegar ég hafði eldað grautinn opnaði ég ísskápinn eins hljóðlega og mögulegt var en varla hafði mér tekist það þegar Salka var þar og horfði á allt góðgætið bakvið hurðina. Hún virðist hafa sjötta skilningarvitið hún Salka. Hún er vinaleg og væri hún hundurinn minn væri hún trúlega líkari óléttri gyltu í sköpulagi en þeirri stæltu tík sem hún er. Ég væri enginn góður hundeigandi því að ég mundi kasta mörgum góðum bitanum að henni.
 
 
Ég kom með ferju til Vestmannaeyja frá fastalandinu eftir nokkurra daga heimsókn til bernskustöðva minna á Suðurlandi. Akkúrat núna þjónar hér ferja sem er leigð frá Noregi vegna þess að hin eiginlega ferja er í slipp til viðhalds fyrir veturinn.
 
 
Hin eiginlega ferja sem heitir hinu rammíslenska nafni Herjólfur er stærsta ferjan á Íslandi en er lítil á heimsmælikvarða. Vestmanneyingarnir lifa mest á því sem hafið gefur og það vegur mikið sem þessi ferja flytur og farþegafjöldinn nálgast 300 000 á ári.
 
 
Rétt fyrir klukkan hálf níu í gærkvöldi bakkaði ferjan að viðlegukantinum og þá var dimmt. Klukkan hér er tveimur tímum á eftir sænsku klukkunni og svo verður það þar til sænska klukkan færist einn tíma til baka til vetrartíma.
 
 
 
*          *          *
 
 
Nú hef ég verið eina viku á Íslandi og ég hafði farið í æði langar gönguferðir á bernskuslóðum mínum áður en ég kom til Vestmannaeyja. Ég byrjaði með að heimsækja bernskuslóðirnar eins og áður sagði. Mjög margir staðir á Islandi eru nú næstum yfirtroðnir af ferðamönnum en þó eru til vissar perlur þar sem allt er ósnortið og afar friðsamt. Það er varla að ég vil fletta ofan af hvar þessar perlur er að finna.
 
 
Gilin í brekkunum beint á móti hafa myndast á þúsundum ára, hinn þykki, mjúki mosi hefur barist fyrir lífinu síðan á ísöld, grasið sækir fram á hlýindaskeiðum en hörfar á kaldari árum. Þessi náttúra í þögn sinni er viðkvæm og endurheimtir sig hægt.
 
Fyrir nokkrum dögum síðan sat ég í þessum mjúka mosa allnokkuð frá byggð, varð hlýr á rassinum og á einfaldan hátt ótrúlega hamingjusamur. Ég heyrði dauft hljóð frá rennandi vatni, fann hreinan ilm frá umhverfinu og hafði þetta gamalkunnuga landslag fyrir framan mig. Mér fannst ég vera nálægt Guði og að við vorum þar báðir, við vorum þar saman. Ekkert mátti trufla þetta því að þetta er besta hamingjan sem er til.
 
Slíka hamingju er hægt að finna, en alla vega ég get ekki verið þar öllum stundum. Ég veit bara að það er hægt að finna hana og þegar hún hverfur er hægt að finna hana aftur. En þessu fæ ég að vinna fyrir eins og til dæmis núna með gönguferð minni. Eftir að hafa setið þarna góða stund kom herþota frá Keflavík og þvældist í hringi í gisnum skýjum fyrir ofan mig. Þá var kominn tími fyrir mig að standa upp og halda áfram. Hin frábæra stund í félagsskap Guðs var liðin í þetta skiptið.
 
Þá gekk ég niður brekkuna og að ánni sem sést til vinstri á myndinni fyrir ofan. Þar dró ég buxurnar upp að hnjám til að vaða yfir.
 
Ég vissi um leyndarmál sem ekki er svo sýnilegt fyrr en maður er þar.
 
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0