Annatími

Það er bara svo mikill annatími að ég má ekki vera að því að blogga og enn einu sinni hefur liðið heil vika á milli blogga. Í þetta skipti ætla ég bara að láta vita að við séum í gangi ennþá og birta nokkrar myndir. Þessar annir eru afleysingar í Vornesi og svo auðvitað framhaldsþátturinn smíðar og almenn byggingarvinna. Utan þetta er bara það allra nauðsynlegasta annað framkvæmt sem ekki verður komist hjá að sinna.


Þrátt fyrir annríkið létum við eftir okkur að fara einn rólegan hring í skóginum. Það er mikil blaðgræna sem þarna umlykur Valdísi. Það eru engin beð eða klipptar runnaraðir þarna, það er bara gróðurinn eins og hann skipuleggur sig sjálfur. Að vísu var grisjað þarna mikið af reyniviði í fyrra og þyrfti að gera aftur nú, en að öðru leyti er það skrúðgarður náttúrunnar sjálfrar sem við sjáum á myndinni. Burknaflákarnir ná manni í mitti og sums staðar í miðja bringu. Þeir eru í sínu allra besta formi einmitt núna.


Hann er eitthvað skakkur og lúðalegur kallinn þarna á myndinni. Nei heyrðu! þetta er ég! Við hliðina á mér þarna er eitt af stoltunum mínum í skóginum, beikitré, sem var bara þokkalega stór planta 2006 þegar við fluttum hana frá Vingåker. Þetta beykitré vex jafnt til allra átta en sum þeirra vaxa hins veger meira upp á við. Þarna hefur mannshöndin verið meira á ferðinni og það eru fimm beykitré að vaxa upp í dálitlu rjóðri með stuttu millibili. Þau eru í góðu skjóli þarna, umgirt meira en 20 m háum skógi á alla vegu.


Eftir skógarrölt var stuttur kaffitími og svo tók ég mér pensilinn í hönd og málaði loftlistana sem ég setti upp fyrr í dag. Það varð breyting á framkvæmdaáætluninni sem gerð var um síðustu helgi. Málarin kom ekki í vikunni eins og við gerðum ráð fyrir og við unnum í gluggaáfellum í staðinn fyrir að leggja parkett á gólfið í þessu herbergi. Það var ekki málaranum að kenna að hann kom ekki. Það var veðrinu að kenna. Veðurfræðingarnir gerðu ráð fyrir talsverðri rigningu í vikunni, rigningu sem ekki kom, og við málarinn gerðum um það að smakomulagi að hann yrði hér fyrst og fremst þegar rigndi.

Það er nefnilega útimálningarvertðið um þessar mundir og málað inni aðeins í votviðri. Að vísu kom hann tvo tíma á föstudaginn var svo að við hættum ekki alveg að þekkja hvor annan í sjón. Að ég mála loftlistana sjálfur byggist á sérvisku minni. Ég vil nefnilega gera það á minn hátt og málarinn er sáttur við það. Gluggaáfellurnar eru nú næstum tilbúnar til uppsetningar en ég var búinn að hugsa mér að setja þær ekki upp fyrr en síðla sumars. Þetta herbergi verður mjög fínt eins og annað hér á Sólvöllum. Við tökum það í notkun í næst næstu viku.


Valdís fór í ferðalag á föstudaginn var. Hún fór í svonefnda ullarferð. Svíarnir fara í þannig kynningarferðir af ýmsu tagi og þessi var tileinkuð ullarvörum. Að vísu er þessi mynd ekki af neinum ullarstað, heldur af veðreiðavelli sem heitir Solvalla eða Sólvellir ef við snúum nafninu á íslensku. Valdís tók þessa mynd yfir hluta vallarins frá matsölustað þar sem ferðafólkið borðaði hádegisverð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0