Spengilegur kall

Í kvöld þegar ég var búinn að leggja þrjár breiddir af parkettinu á nýja herbergið borðuðum við kvöldmatinn. Ég gat ekki hugsað mér að borða fyrr en ég væri byrjaður að leggja og þegar þrjár breiddir eru komnar og allt fellur vel þá er línan bein. Svo skorðaði ég þessar þrjár breiddir og við borðuðum. Ef ég hefði ekki byrjað á þessu hefði ég jafnvel ekkert gert eftir kvöldmatinn. Við erum í þörf fyrir að nota tímann vel núna því að herbergisins er þörf. Valdís var mér til hjálpar með undirbúninginn en þetta parkett sem við erum með er eiginlega lang best að leggja einn.

Eftir kvöldmatinn settist ég aðeins fyrir framan sjónvarpið og hlustaði Christer Sjögren söngvara Víkinganna syngja við fjöldasöng í Gautaborg og aftur og aftur kom hann að þessari setningu: "og lífið hefur verið gott við mig". Svo lagðist ég á hnén, lagði meira parkett, og velti þessum texta fyrir mér. Jú, mér fannst þetta líka að lífið hefði verið gott við mig. Auðvitað get ég fest mig við ákveðna atburði og bara verið þar og harmað en ég held að það sé ekki reiknað með því að við manneskjurnar gerum það. Parkettið var mjög fallegt og herbergið varð fallegra og fallegra við hverja röð sem ég lagði. Ég lagði fjórar raðir í viðbót við það sem ég lagði fyrir kvöldmatinn.

Það var endurtekið í dag samtal við hann Martin Lönnebo frá í gær, sunnudag. Þennan mann hef ég nokkrum sinnum minnst á áður í bloggum mínum. Ragnar heitir sá sem talaði við hann og inn í miðju samtalinu spurði Ragnar hann hvort sorgin hefði ekki knúið dyra hjá honum. Auðvitað vissi Ragnar það en spurði samt til að leiða þáttinn að ákveðnu markmiði. Jú, Martin, þessi áttræði maður, þekkti sorgina og sagði að fyrsta verulega sorgin hefði komið þegar konan hans kom heim frá rannsókn á sjúkrahúsi þá ófrísk af syninum Jónasi.

Það sem hún hafði að segja eftir þessa rannsókn var að barnið sem hún gengi með hefði skaðast og þau mundu trúlega aldrei geta talað við það og barnið mundi aldrei geta séð um sig sjálft. Þau voru stödd í forstofunni þegar hún sagði frá þessu og Martin sagði að honum hefði sortnað fyrir augum við að heyra þetta og sorgin hefði fyllt forstofuna. Svo fæddist Jónas og allt þetta "trúlega" gekk eftir og helsta tjáning hans var að fara í langar gönguferðir með föður sínum, haldandi hönd í hönd, fimmtugur sonur og áttræður faðir, og hljóðir njóta saman þeirrar náttúru sem þeir hrærðust í. Trúlega hefur Jónas kennt mér mest af öllum sagði öldungurinn, maðurinn sem fólk vill bara hlusta á aftur og aftur ef það hefur einu sinni gefið sér tíma frá erlinum til hlusta á hann.

Ég er kannski orðinn of alvarlegur en Martin Lönnebo segir líka að mannkynið skorti alvöru. Hann getur samt gert að gamni sínu eins og hver annar en þó alls ekki hvernig sem er. Nú er hann orðinn of fullorðinn til að fara í langar gönguferðir með Jónasi. Ég er stundum minntur á það að ég er stirður í hálsinum eins og til dæmis í dag þegar ég var eitthvað að bogra og þurfti að líta aftur fyrir mig. Um tíma dofnaði ég oft í vinstri handlegg og hendi og átti stundum erfitt með að finna stellingu sem hjálpaði. Ég setti þetta í samband við stirðleikann í hálsinum. Af því að þetta var nú í vinstri handlegg fór ég að lokum til læknis til að fá einhverja umsögn um þetta.

Ég hitti Ewu, pólska konu, væntanlega aðeins á fimmtugsaldri. Hún þreifað á mér, ýtti á magann, potaði í mig, vaggaði höfðinu á mér og sneri út á hlið eins og hægt var. Svo tók hún blóðþrýstinginn, hlustaði mig, skoðaði blettina á bakinu á mér og sendi mig að lokum til hjúkrunarfræðings til að láta taka plóðprufur. En Eva sagði eitt þegar hún var að vagga höfðinu á mér: þú ert dálítið álútur og þyrftir kannski að gera eitthvað í því. Svo talaði hún um sjúkraþjálfara. Að lokum sagðist hún vilja að ég léti taka röntgenmynd af hálsinum, hún mundi senda tilvísun.

Þegar ég gekk út á bílastæðið hugsaði ég um þessi orð Ewu. Hún vildi mér vel. Ég rétti nú vel úr mér og reyndi að spenna hálsliðina svolítið aftur. Þá fann ég að Ewa hlaut að haf sagt satt því að ég varð lofthræddur og það lá við að mig svimaði. Eitthvað hafði nú teygst úr kauða við það að kona talaði um líkamsburði hans. Hvern einasta dag man ég eftir því sem Ewa sagði og stuttu síðar var talað um svona í sjónvarpsþætti og þar var bent á að þeir sem ækju langar leiðir úr og í vinnu ættu að nota tímann til að rétta úr hálsinum og nota hnakkapúðann sem hjálpartæki. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig ég sit nú þegar ég ek til og fá Vornesi. Það verður ögn spengilegur maður sem þið mætið þegar ég kem í næstu Íslandsferð. Það er ekki víst að alllir komi til með að þekkja glæsimennið.

Svo aftur að alvörunni og röntgenmyndatökunni sem ég fór í fyrir einum þremur mánuðum. Ewa sendi mér bréf varðandi hana og sagði þar að ég væri með gróflega slitna hálsliði og artros. Ég skil í rauninni bara fyrri hlutann; gróflega slitna hálsliði. Fyrst krossbrá mér. Síðan hugsaði ég sem svo að auðvitað eru allir sem komnir eru á fullorðins ár með slitna hálsliði og hryggjarliði almennt. Eitt sinn heyrði ég lækni segja við alvarlegt tilfelli að allir sem væru komnir yfir tuttugu og eins árs aldur væru farnir að slitna í hryggjarliðum. Nú, ég festist ekki í þessu. Ég er stirður í hálsinum óneitanlega, hef ekki verk nema þegar ég reyni dálítið hraustlega að líta við og er liðugri ef ég tek eina verkjatöflu sem ég geri þegar ég er að gera eitthvað sem reynir á hálsinn.

Almennt man ég ekki eftir þessu að öðru leyti en því að ég reyni einhvern tíma á deginum og oft margsinnis á dag að rétta úr hálsinum. Ewa sagði nefnileg annað í bréfinu sem var mikið mikilvægara. Hún sagði að almennt væri ég vel frískur og ekkert hefði verið athugavert við blóðprófin. Að lokum ítrekaði hún að ég gæti haft samband við sjúkraþjálfara. Hver veit hvað ég geri þegar hausta tekur ef ég ekki missi áhugann á að verða spengilegur.

Nú er mál að ganga til fundar við Óla Lokbrá.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0