Helgarlok

Ég var að koma úr einum hring í skóginum og klukkan er níu að kvöldi. Ég fór of seint af stað á þetta rölt mitt sem ekki er hægt að kalla gönguferð. Ég byrjaði að horfa á sjónvarpsþátt um sænska konu sem hafði verið í fangelsi í Bandaríkjunum í 28 ár en fluttist svo þaðan í fangelsi í Svíþjóð. Hún er nú frjáls manneskja eftir meira en 29 ára frelsissviptingu. Ekki leit hún glæpamannslega út og ekki kom hún fram sem illmenni, heldur sem friðsöm manneskja sem hefur tekist að komast út úr hremmingum lífs síns án biturleika og harms. Henni hafði verið fundið að sök að meðverka til morðs.

En sem sagt, þetta tafði skógarröltið. Mauraþúfan sem lengst af hefur verið eins og keila er engin keila lengur. Hún er nú orðin að fjalli í laginu eins og Harðskafinn í bernskusveit minni. Það eru aðallega tvær farleiðir sem maurarnir hafa yfir gönguslóðina og þeim bara fjölgar og fjölgar sem eru þar á mikilli ferð fram og til baka. Ef maður stoppar eitt augnablik leggja þeir af stað upp fótleggina og gera það jafnvel þó að maður stoppi ekki. Svo var það í kvöld. Ég varð hans þó ekki var fyrr en hann var innan á vinstra hnénu og ég hefði svo sem getað leyst niður um mig þar sem ég var staddur en ég beið. Svo þegar maurinn var kominn upp í nára renndi ég niður buxnaklaufinni og sleppti honum út í frelsið á ný. Ég vona að honum verði ekki refsað í mauradómi fyrir uppátækið.

Ég er alltaf að dást að góða veðrinu og gróskunni hjá okkur. Ég hringdi áðan í hana Fríðu systur sem er austur á Kálfafelli í sumarhúsinu sínu. Ég heyri að það er munur á landgæðum þessa dagana og veðri líka. Hér er búinn að vera yfir 20 stiga hiti all lengi en frekar lítil úrkoma. Nú er spáð rigningu með köflum í þrjá daga en þó á hitinn ekki að fara niður fyrir 20 stig á daginn. Að rigningardögunum loknum á svo hitinn að fara upp í 27 stig að deginum. Ég laumaðist með tommustokkinn með mér og sem dæmi get ég nefnt að beykitrén mín hafa breikkað um 45 til 75 sentimetra. Hæðina get ég ekki mælt lengur þar sem þetta eru orðin of stór tré til þess að mæla á þann veginn. Trúlega er vaxtartímabilið aðeins hálfnað.

Mér verður oft hugsað til bæjanna í Fljótshverfinu þar sem askan hefur orðið til mikilla vandræða. Þreytt hlýtur fólk að vera þar um þessar mundir en ég vona að enginn gangi of mikið á krafta sína. Ef það er rétt að askan upp við eldstöðvarnar sé 170 sm djúp hefur orðið þar mikil breyting. Á þeim slóðum eru margar ótrúlega fallegar vinjar í annars grýttu og körgu landslagi, en þó er þetta landslag allt mjög fallegt. Fossabrekkan og Fossahraunið er með þeim svæðum sem ég upplifi allra auðugust af kyrrð og andlegum ríkidómum af þeim svæðum sem ég hef heimsótt. Lindirnar í mis lítið uppgrónu Fossahrauninu upp af sjálfum Fossunum eru perlur, perlur sem líkjast djúpbláum augum ungrar, fallegrar konu sem dreymin horfir mót himni. Ég er sannfærður um það að þessar lindir eiga eftir að hreinsa sig af öskunni og ég á mér draum um að heimsækja þær einu sinni enn.

Nú er kominn háttatími fyrir mig ellilífeyrisþegann og við erum ótrúlega nánir vinir ég og Óli Lokbrá. Ég sagði í blogginu mínu í gær að ég ætlaði alla vega að setja í eina hurð í dag og ég stóð við það. Þessi hurð var aðeins meira en venjuleg hurðarísetning og ég sætti mig við það að það varð ekki meira. Ein hurð er vel merkjanlegur áfangi. Að svo búnu segi ég góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0