Heppin með veðrið - eða ekki heppin með veðrið

Fyrir áratugum var gerð sænsk mynd sem heitir "Við vorum þó alla vega heppin með veðrið". Þessi mynd hefur verið sýnd öðru hvoru í sjónvarpi gegnum árin og hún fjallar um ung hjón sem fóru í sumarfrí á húsbílnum sínum og annað hvort pabbi hans eða pabbi hennar var með í ferðinni. Eiginmaðurinn heitir Gösta og honum var lagið að verða brjálaður af reiði með jöfnu millibili og gera alls kyns vitleysur, bæði í bræði og ekki bræði. Að lokum gafst pabbinn upp og hjónin urðu tvö eftir og Gösta breyttist ekki. Nú er búið að gera framhaldsmynd og Gösta og frú eru orðin ellilífeyrisþegar og fara í ferðalag á nýjum húsbíl.

Gösta hefur ekkert breytst á þessum 30 árum og hann heldur enn í dag áfram að rúka upp í bræði og gera margs konar vitleysur, bæði reiður og ekki reiður. Við horfðum á þessa mynd áðan og aldrei slíku vant tókst mér að horfa á myndina næstum frá byrjun og svo gat ég ekki hugsað mér annað en sjá hana til enda. Nafnið, "Við vorum þó alla vega heppin með veðrið" segir það sem segja þarf, veðrið var gott í báðum myndunum en ekkert annað gekk upp.

Torp er 1,9 km frá Sólvöllum ef við förum þangað á bílnum eftir all krókóttum vegi. Bein loftlína er trúlega innan við einn km. Fríkirkjusöfnuðirnir í Svíþjóð eiga Torp sem er gömul jörð og á þessar jörð er gríðarlega mikið af húsakynnum allskonar, bæði frá búskaparárum í Torp og svo alls konar byggingar sem eru nýrri. Í Jónsmessuvikunni á áru hverju er svo landsmót þessara söfnuða í Torp og það er minnst sagt mikil samkoma. Þar er þá dagskrá í heila viku og á kyrrum kvöldum heyrum við heim á Sólvelli þegar Carola syngur andlega söngva og prestar predika við messur.


Hversu mikið er þarna af fólki veit ég ekki enda hugsa ég að það viti eiginlega enginn þar sem bílar koma og fara án afláts allan daginn. Þó er talað um að allt að 15 000 manns sæki landsmótið heim á hverju ári. Þegar ég fer í vinnu ek ég í gegnum Torpssvæðið og þá gefur að líta aldeilis ótrúlega stórt hjólhýsasvæði sem við sjáum að hluta á myndinni. Í gær vorum við Valdís í Torp og skoðuðum okkur svolítið um þar og fylgdumst með athöfnum fólks. Sem dæmi gaf þar að líta gríðarlega stóra bókaverslun sem einungis er opin á landsmótinu. Þar voru fyrst og fremst til sölu bækur um andleg og trúarleg efni og á niðursettu verði. Það var ekki hægt að ná mynd af hjólhýsa og húsbílasvæðinu öllu á einni mynd og við vorum að giska á að það væri á stærð við Dalvík. Valdís kona mín er til hægri á myndinni, eins á þeirri næstu.


Það var fólk bókstaflega um allar jarðir þarna en þó mest á svæðinu sem við sjáum á myndinni. Það var verið að dansa kringum svonefnda maístöng þegar ég tók myndina. Eins og ég sagði var fólk bókstaflega um allar trissur þarna en samt var allt svo notalega rólegt og vandræðalaust. Lögregla er aldrei á svæðinu en fer kannski einstaka ferð gegnum svæðið meðan á mótinu stendur. Ég hef aldrei heyrt að það hafi orðið vesen á þessum landsmótum, að það sé verið að gefa á kjaftinn, nauðga eða sparka. Hámarkshraðinn á veginum gegnum Torpssvæðið er alla jafna 70 km en meðan á mótinu stendur er hann lækkaður niður í 50 og 30 km. Allir viðrast taka því með jafnaðargeði og allt gengur slysalaust. Segið svo að það séu engin andlegheit í þessu landi skóganna.

En viti menn. Við Valdís vorum ekki eins heppin með veðrið og þau í myndinni í kvöld. Allt í einu gerði hálfgert skýfall og gegnblaut tókum við okkur heim í hýjuna á Sólvöllum.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0