Kennslustund hjá Kristjönu

Ég gekk út í skóginn eftir þáttinn Allsång på Skansen og virti fyrir mér gersemarnar sem skaparinn gaf okkur til að auðveldara væri fyrir okkur að finna friðsamar stundir og staði, og eitthvað alveg sérstakt fyrir augað að dásama. Mér varð hugsað til kennslustundar í náttúrufræði í barnaskólanum á sláturhússloftinu á Kirkjubæjarklaustri fyrir tæpum sextíu árum þar sem hún Kristjana frá Sólheimum kenndi okkur að halda höggormum og fleiri slöngum í hæfilegri fjarlgð, sérstaklega þó þessum varasömu. Stappa niður fótunum á göngunni, sagði Kristjana, og gjarnan að hafa staf sem maður stingi dálítið kröftulega niður. Þá mundu slöngurnar vera komnar í hæfilega fjarlægð þegar maður kæmi þangað sem þær hefðu verið. Alveg hárrétt hjá Kristjönu en málið er bara að þetta gerir gönguferðina leiðinlegri og óþægilegri og því nenni ég því alls ekki nema endrum og eins og þá helst þegar mér finnst einhver ófögnuður vera nálægur. Hins vegar ef ég yrði fyrir slöngubiti mundi ég hugsa sem svo að það hefði verið betra að gera eins og Kristjana kenndi fyrir hátt í sextíu árum. Annars eru slöngubit afar sjaldgæf.

Ég fer að heiman um tíu leytið á morgun og ætlaði að fara í sturtu áður en ég leggði mig. Það er hins vegar svo hlýtt ennþá að það er hálfgert svitaveður. Klukkan er að nálgast tíu að kvöldi og það er um 25 stiga hiti úti og enn hlýrra inni. Hvílík sumarblíða. Samkvæmt fréttum virðist gæðunum vera afar misskipt. Parkettið er komið á gólfið sem ég talaði um í blogginu í gærkvöldi og helmingur af gólflistunum. Tvöfalda rúmið er líka komið á sinn stað og skápar eru í startholunum. Nú fær þessi frágangur að vera um kyrrt í nokkra daga meðan ég vinn fyrir launum og skatti. Af hverju skyldu ellilífeyrisþegar lifa í svo miklu annríki? Ég hef komið nokkuð inn á það áður og kem til með að gera það enn nánar síðar.

Stór hluti af því að ég er þó svo ánægður með lífið sem ég er, er nýi mjaðmaliðurinn sem ég fékk ísettan fyrir tæpum tveimur árum. Ég held næstum að ég sé farinn að trúa að þessi mjaðmaliður sé hreinlega orðinn að ekta mjaðmarlið, hann virkar svo vel. Ég fer líka vel með hann eftir bestu getu. Það er vel hægt að skaða svona gersemar. Daginn eftir aðgerðina fékk ég að ganga inni á stofunni og varð næstum ærslafullur af gleði. Þá sagði hún Ása sjúkraliði að ég skyldi ekki ofmetnast, það væri ekki dugnaði mínum að þakka að mér gengi svona vel. Það væri bara gjöf sem ég hefði fengið, gjöf sem sumir hlytu en aðrir ekki. Ása var mjög ung en orð hennar voru vís. Þetta var svo satt. Hins vegar er það trú mín að ef ég væri latur og óánægður væri ég ekki svo mjög sæll með minn nýja mjaðmalið.

Gerðu ekki þetta og gerðu ekki hitt. Berðu ekki of þungt og hoppaðu ekki og margt fleira fékk ég að heyra. Notaðu hækjurnar í þrjá mánuði lærði ég og vertu duglegur við að þjálfa þig sagði Ása og allt liðið á sjúkrahúsinu, en farðu alltaf varlega. Ég notaði hækjurnar í þrjá mánuði, jók gönguferðirnar jafnt og þétt, hvíldi mig á milli, las, dottaði og fékk mér kaffisopa með Valdísi og svo gjarnan út á stutta göngu aftur. Það voru engar smíðar og enginn moldargröftur þessa þrjá mánuði og sannleikurinn er sá að þessi tími er afar ljúfur að minnast.

Nú hyllir í tíma þar sem ég þarf ekki að einbeita mér að daglegri byggingarvinnu, ég þarf ekki að fara margar ferðir á mánuði í Vornes en ég geti þess í stað farið að dingla mér svolítið eins og Ottó nágranni í Hrísey sagði svo oft. Ég vona að hann segi það enn í dag. Ég hlakka til þessa tíma sem ég sé hylla í. Þegar ég kem þangað veit ég að ég verð þakklátur fyrir að hafa tekist á við þessi annríkisár. Ljúfu stundirnar eru rétt handan við næsta leyti.


Ein panelfjöl. Það var ekki mikið en fallegt er eikarparkettið þó að það sé ekki gert úr stóru Sólvallaeikinni. Hún er nú orðin meira en aldar gömul en er samt enn á sínum yngri árum. Ég á engin sérstök verkfæri til að leggja parkett með. Ferkantaða fatan þarna er fré honum Lennart nágranna og í henni varðveitir hann parkettgræjurnar sínar.

 
Hér er komið heldur lengra og mál fyrir kaffihlé. Búið að setja fætur undir rúmin og þau komin nánast á sinn stað. Nei annars, ekkert kaffi. Það er betra með björnsbersaft í hitanum.


Búið, komið að veggnum hinu meginn og þá verður ekki farið lengra og mál fyrir meira af björnsbersaft. Einn pakki af parketti eftir þannig að nú verður sett parkett á loftið líka en þó ekki fyrr en nálgast haust.


Látið ykkur ekki detta í hug að konan á myndinni sé ekki þátttakandi í annríkinu líka. Hún undirbjó parkettlagninguna með mér áfanga fyrir áfanga og þess á milli sló hún lóðina. Bletturinn sem hún er að slá þarna var óttalegt leiðindaland þangað til í fyrrasumar, grýtt, blautt, óslétt og með milklu illgresi. Svo felldum við þarna nokkur tré og hann Peter gröfumaður jafnaði það, hreinsaði úr því heilu bílfarmana af miklu stórgrýti og fyllti svo í það með góðri mold og jafnaði. Þar með vorum við búin að fá baklóð.

Í vor vorum við í járn og málningarvöruversluninni í Fjugesta og þá fann Valdís heyrnarhlífar sem hún var búin að tala um lengi. Auðvitað vorum við oft búin að ganga fram hjá þessu í verslunum en nú varð af kaupunum. Í heyrnarhlífunum eru nokkrar útvarpsrásir þannig að þegar Valdís slær er hún í sínum heimi með þeim rásum sem hún velur sér. Og svo verður lóðin svo undur fín eftir sláttinn.



Kommentarer
Þórlaug

Til hamingju með nýja parketið, það lítur glæsilega út.



Í dag var loksins hlýtt á Akureyri og í dag áttu litlu tvíburarnir mínir (hennar Arnheiðar) afmæli og urðu tveggja ára.



Bestu kveðjur til Valdísar,



Þórlaug

2011-07-01 @ 23:27:23
Gudjon

Takk Thorlaug og til hamingju med hlýindin og tvíburana. Med bestu kvedju til ykkar Jóhanns.



Gudjon

2011-07-01 @ 23:48:10
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0