Eftir viku þögn

Hvað er eiginlega á seiði með mig? Ég var að gá að því hvað það er langt síðan ég bloggaði og það er bara heil vika. Svo gekk ég um húsið og reyndi að telja upp hvað ég hefði gert hér heima þessa viku og lengi vel fannst mér sem ég hefði ekkert gert annað en leggja eina rönd af parketti meðfram vesturveggnum í gamla hlutanum, það er að segja síðustu röndina sem ég þurfti líka að saga á breiddina. Svo rak ég allt í einu augun í tvær hurðir sem standa upp við vegg fram í nýju forstofunni. Já, alveg rétt. Við fórum bæði með fulla kerru af rusli á endurvinnslustöðina og tókum hurðirnar í sömu ferð. Svo hafði ég unnið fjóra langa daga og frekar en að gera ekki neitt á kvöldin eftir að ég kom heim setti ég upp hillur út í geymslu og bar líka 100 lítra af vatni á lindina suður á lóðinni sem er svolítið eftirlætistré eins og svo mörg önnur tré hér hjá okkur. Svo gerði ég klárt með moltuna sem ég hafði trassað og nú er vinnslan þar komin í fullan gang og það er ylur undir lokinu.

Valdís er með vondan hósta sem vill ekki láta undan. Samt hefur hún verið að koma skipulagi á heimilið og tína frá hluti sem ekki hafa verið notaðir lengi og þeir bíða nú flutnings á endurvinnslustöðina. Það er mikið sem breytir um stað núna þegar góð eldhúsinnrétting er komin upp og Valdís skipuleggur og gengur frá en ég finn ekki og verð að spyrja mig áfram. Það er líka svolítið skrýtið með suma hluti. Við vorum úti áðan og vökvuðum og ég reytti hávaxinn gróður frá nokkrum minni trjám.

Svo greip ég mótororfið og það flaug í gang í fyrstu tilraun eftir veturinn. Þegar ég ætlaði að grípa axlaböndin sem það hangir í við notkun héngu þau alls ekki á naglanum sínum. Ég fór svo augum um allt okkar geymslupláss og fann ekkert. Þegar ég spurði Valdísi hvort hún hefði rekið augun í axlaböndin sagði hún að þau ættu að hanga á naglanum sínum en ég sagði svo ekki vera. Þá kom valdís út og leitaði á þessum margnefnda nagla og rétti mér axlaböndin. Ég skil ekki almennilega hver hefur verið að atast í mér og fela fyrir mér böndin og vera svo kominn með þau í tíð til að Valdís gæti fundið þau á sínum stað. Alveg merkilegt það!

Nokkru fyrir hádegi í dag, laugardag, fórum við Valdís í Vornes. Það er orðin hefð fyrir því að fyrsti laugardagurinn í júní er svonefndur Vornesdagur þar sem öllum sem hafa verið í Vornesi í meðferð er gefinn kostur á að hittast. Fólki er boðið upp á kaffi og saft og brauð að vild og að sitja AA fund. Svo talar fólk mikið saman og þarna hittast meðferðarfélagar fyrri ára. Ég held kannski að Valdís hafi svo sem ekkert sérstaklega gaman að því að vera þarna þennan dag. Hún hittir mig ekki svo mikið eftir að við erum stigin út úr bílnum þar sem allir koma og vilja heilsa. Meðan ég deili nokkrum orðum með þeim fyrsta kemur sá næsti og heilsar. Þannig tekur það mig kannski upp undir klukkutíma að komast hundrað metra frá bílnum og að samkomutjaldinu.

Þetta fólk getur sagt mér af áhuga frá einhverju sem ég sagði fyrir átta eða fimmtán árum og hversu mikilvægt það var. Ekki man ég eftir þessu, eða öllu heldur sjaldan, en vissulega er fróðlegt að heyra um hluti sem voru þessu fólki mikilvægir fyrir löngu síðan. Læknir einn sem skrifaðist inn á meðferðarheimilið fyrir fjórtán árum segir mér á hverju ári að ég hafi komið út á móti honum, heilsað hann velkominn og spurt hann hvort hann væri búinn að draga upp hvíta fánann. Ég man ekki eftir þessu en ég veit af eigin raun að það er sá sem finnur sig minni máttar í stöðunni sem man betur. Það er líka mjög rökrétt að segja svona. Að draga upp hvíta fánann er tákn um uppgjöf í bardaga og það stendur skrifað að enginn getur hætt drykkjuskap nema vilja það sjálfur. Maður verður að gefast upp.

Mig dreymir um að vakna tímanlega í fyrramálið og setja saman karminn fyrir eina hurð fyrir sjónvarpsmessuna og setja svo hurðina í eftir messuna. Ég þori ekki að ákveða meira því að ég fer í vinnu snemma á mánudagsmorgun. Svo vinn ég líka tvö kvöld næstu viku. Þó að ég kvarti minna undan þreytu en ungu ráðgjafarnir skal ég viðurkenna að ég verð þreyttur. Mér finnst það líka hversu eðlilegt sem helst að verða þreyttur af því að vinna. Öðrum kosti leggur maður afar lítið af mörkum. Kannski segi ég eitthvað næstu viku sem einhver man eftir fimmtán ár. Kannski, vonandi, segi ég eitthvað í næstu viku sem getur hjálpað einu eða fleiri börnum að fá til baka mömmu sína eða pabba. Annars er það ekki aðallega það sem ég segi sem getur hjálpað illra staddri manneskju, en ef einhverjum sem sér mig og heyrir telur að ég hafi líf sem vert er að lifa án áfengis, þá er miklu náð.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0